Finn Gærdbo fæddist í Vogi, Suðurey I, Færeyjum 25. júní 1938. Hann lést á sjúkrahúsinu Stykkishólmi 16. janúar 2024.

Foreldrar Finns voru þau Pétur Jakob Gærdbo sjómaður, f. 27. september 1898, d. 18. febrúar 1974, og María Gærdbo húsfreyja, f. 15. apríl 1904, d. 20. júní 1993. Systkini Finns: Árni, Elín, Kristinn, Pétur, Anna Sofía og Eyvind. Látin eru Anna Sofía, Árni og Elín.

Finn kvæntist Guðríði Svövu Alfonsdóttur frá Ólafsvík 20. maí 1961. Foreldrar hennar voru Alfons Kristjánsson sjómaður, f. 8. desember 1905, d. 4. ágúst 1961, og Ásthildur Guðmundsóttir húsfreyja í Ólafsvík, f. 3. mars 1910, d. 20. maí 1989.

Börn þeirra eru: 1) Alfons, f. 1960, giftur Ginu og á hann þrjá syni og fjögur barnabörn. 2) Pétur Már, f. 1962, giftur Ragnheiði Ágústsdóttur og eiga þau tvær dætur og tvö barnabörn. 3) Anna Sofia, f. 1966, og á hún fjögur börn og átta barnabörn. 4) Ástgeir, f. 1971, hann á þrjá syni með Guðbjörgu Arnarsdóttur og eitt barnabarn.

Finn ólst í Vogi í Suðurey hjá foreldrum sínum til 16 ára aldurs, en flutti til Ólafsvíkur árið 1955. Hann kom til að stunda sjómennsku. Eftir nokkurra ára dvöl kynntist hann ástinni sinni, Guðríði Svövu Alfonsdóttur, og hóf búskap á Ólafsbraut 66 en seinna byggðu þau hús á Ólafsbraut 56 þar sem hann bjó til æviloka.

Sjómennskan var hans ástríða sem hann stundaði þar til aldurinn sagði til.

Útför Finns Gærdbo fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 23. janúar 2024, klukkan 13.

Mig langar í fáum orðum að minnast föður míns Finns Gærdbo sem lést þann 16. janúar í sjúkrahúsinu í Stykkishólmi efir stutta dvöl þar.

Pabbi var stoltur Færeyingur fram á lokadag síns og kynnti sig alltaf við ókunnuga sem Finn Færeying.

Pabbi kom ungur að árum til Íslands og réð sig í beitningu og á sjóinn.

Hann var sjómaður fram í fingurgóma ásamt því að vera góður faðir og einstaklega blíður maður og mátti ekkert aumt sjá, einnig var hann framúrskarandi afi og sóttu börnin gjarnan til hans og mátti oft heyra hann segja „komdu og kysstu afa á kinnina“. Var hans vani á góðum sumardegi að fara með börnin í göngutúr og koma við í sjoppunni og gefa þeim ís.

Pabbi var hörkuduglegur maður og vildi helst vera í beitningaskúrnum langt fram á kvöld til þess að beita, en hann var algjör listamaður í beitningu svo orð fór af. Hann fór oft að beita eftir róður langt fram á kvöld þegar svo bar undir.

Pabbi var með eigin útgerð og átti nokkra báta um ævina og var það hans yndi að hugsa vel um þá, og var oft mikið róið. Eitt árið fórum við í um 340 róðra á einu ári, meira að segja fengum við varla frí um jólin og þetta ár rerum við á gamlárskvöld og nýársdag, karlinn mátti bara ekki slappa af og leið best þegar hann var á sjó.

Eftir að hann hætti að stunda sjómennsku vegna heilsubrests fylgdist hann alltaf vel með bátum og aflabrögðum og voru bryggjurúntarnir ófáir, og alltaf fylgdist hann með mér og bróður mínum Ástgeiri þegar við vorum á strandveiðum og hringdi oft á dag til að athuga með hvernig okkur gengi og benti okkur á góð mið, enda þekkti hann hverja einustu fiskislóð í Breiðafirði. Ég kynntist pabba lítið á æskuárum því hann var aldrei heima, hann var á síldveiðum fyrir norðan land, en ég man eftir því þegar hann kom heim, þá lá ég oft í fangi hans að horfa á enska boltann í sjónvarpinu í svart-hvítu á gamla leiki. Fékk hann ást á liðinu Arsenal, og var ekki sáttur þegar ég sagði honum að Man Utd væri mitt lið. Síðustu ár þegar Man Utd fór að ganga brösuglega fékk ég oft hringingu frá honum að Man Utd hefði tapað leik en Arsenal unnið, var mér oft ekki skemmt yfir þessu.

Pabbi var vandvirkur þegar hann var á sjó og þurfti allt að vera 100%, eins og þegar fiskmarkaðir komu, þá var farið á markaðinn til þess að kviðraða öllum fiski úr körunum sem við höfðum landað til þess að þetta liti sem best út og til að fá hærra fiskverð, og tók þetta oft langan tíma eftir löndun. Þótt ekki fengist hærra verð þá varð bara að gera þetta svona.

Margs er að minnast en ég læt þetta gott heita og kveð hann með söknuði.

Alfons.

Elsku besti pabbi minn er farinn til himna í sumarlandið, þar eru margir af ættingjum, vinum og samferðafólki sem hafa tekið vel á móti honum, Færeyingnum og sjóaranum síkáta.

Sit ég hér með tárin í augunum og hugsa til þín, ég finn fyrir þér þar sem ég sit og rita þetta á blað, finn fyrir klappinu á öxlum mínum, og þú brosir til mín eins og alltaf.

Engin orð fá því lýst hvað pabbi minn var einstakur maður, alltaf var hann til staðar fyrir mig, börn mín og barnabörn sem öll elskuðu afa sinn svo mikið, og þau létu hann sko alveg vita af því.

Ýmislegt sem við höfum brallað saman í gegnum árin; unnið saman í skúrnum við að beita línu og hann skar alltaf beituna ofan í dóttur sína … (já smá dekur hér), oft fór ég með honum á sjó, þar var hans líf og yndi, allt sem tengdist bátum og fiskum.

Færeyingur var hann í húð og hár þótt hann hafi búið á Íslandi mestan hluta ævi sinnar, hann elskaði Færeyjar og fólkið sitt þar. Margar sögur hafa verið sagðar frá þeim fallega stað, eins og hann hefði sagt … Færeyjar mitt land … Allt var best þar.

Ávallt gátum við spjallað saman um allt, og spiluðum mikið, honum þótti skemmtilegt að spila, þá helst tókum við kasínu og ef fleiri bættust í hópinn þá var það manni og kani, hann var lunkinn spilakarl, og ávallt taldi hann allt (auðvitað á færeysku) og var með allt á hreinu í spilamennskunni.

Ég gæti skrifað heila bók, jafnvel tvær, um okkar fallega og einlæga samband en ætla að hafa þessa grein stutta og allt annað býr í mínu hjarta um ókomna framtíð.

Langar bara að segja ég elska þig upp í geim og við sjáumst þegar þar að kemur pabbi minn.

Minningin lifir og mun ég halda áfram að segja barnabörnunum mínum frá þér, ég kveð þig með mjög miklum söknuði en hugga mig við það að nú ertu laus við þjáninguna og verkina, búinn að hitta allt fólkið þitt og farinn að dansa færeyska dansinn.

Hvíldu í friði elsku pabbi minn.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Elska þig.

Þín dóttir,

Anna Sofía Gærdbo.

Elsku besti afi minn.

Þú átt fullan heiður fyrir að hafa reynst mér svo góður, yndislegur og umhyggjusamur afi og langafi barnanna minna. Þú hefur alltaf verið svo mikil barnagæla og elskaðir lífið og fjörið í kringum þig, þér fannst svo gaman að geta lifað langafabörnin þín.

Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert og fyrir að hafa verið til staðar fyrir mig og börnin mín. Þú hefur verið mér við hlið síðan ég fæddist.

Það var svo gaman hjá okkur þegar þú skelltir fram allskonar bröndurum og það var stutt í hláturinn og grínið hjá þér. Þú varst sannkallaður gleðigjafi minn. Það sem lýsir þér, Færeyinginum sjálfum, best er að þú ert algjör sjóhöfðingi/nagli og elskar að vera úti á sjó að dúllast í ölduganginum því hafið var þinn vinur sem þú dýrkaðir og dáðir.

Ég mun aldrei gleyma þegar við héldum upp á sjötugsafmælið þitt. Það var besta afmælið sem ég hef farið í, þar var stiginn villtur dans og alls konar uppákomur með öllu þínu fólki. Þú varst umvafinn fólki sem dýrkaði þig og dáði, þú varst uppáhald allra og það segir svo margt um þig. Þetta var sannarlega þinn dagur sem við vorum svo heppin að fá að upplifa og fagna með þér.

Svo má ekki gleyma Færeysku dögunum hérna í Ólafsvíkinni. Þú bjóst til fallegt samfélag fyrir alla Færeyingana og þetta var svakaumstang í kringum það en þú hefur aldrei látið neitt stoppa þig í að gera það sem þú ætlaðir þér og gerðir það með trompi! Þessi minning lifir að eilífu því þessi hamingja og gleði sem þetta veitti mér, þessi tilfinning og minning, mun alltaf fylgja mér í hjarta mínu allt mitt líf. Þú varst allur af vilja gerður fyrir alla. Kærleikurinn, ástin og umhyggjan lýsti af þér.

Það er svo skrýtið að hafa þig ekki lengur hérna hjá mér. Ég er ennþá að bíða eftir því innst í hjarta mér að þú komir til baka því mér finnst eins og ég eigi eftir að segja þér svo margt.

Það hafa runnið mörg þung sorgartár síðan þú kvaddir mig. En það er samt svo gott að eiga þessar dýrmætu stundir saman sem hjálpa mér að díla við sorgina og söknuðinn því hún verður alveg yfirþyrmandi stundum.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa getað fylgt þér þín allra síðustu spor og náð að dekra við þig sama kvöld og þú kvaddir. Það fallegasta var þegar ég lagði þig upp í rúm og kom þér vel fyrir og það síðasta sem þú gerðir var að horfa beint í augun á mér og ég strauk þér um höfuðið og sagði þér að hvíla þig, elsku afi minn. Því mun ég aldrei gleyma. Það mun lifa í mínu hjarta um ókomna framtíð.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi,

viti á minni leið,

þú varst skin á dökkum degi,

dagleið þín var greið.

Þú barst tryggð í traustri hendi,

tárin straukst af kinn.

Þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson)

Ástarkveðja, núna ber ég þitt nafn, þér til heiðurs.

Elska þig.

Svava Gærdbo
Þórarinsdóttir.