— Morgunblaðið/sisi
Dæmi eru um að starfsmenn Skattsins hafi fengið bónusgreiðslur sem skipta hundruðum þúsunda og að sett hafi verið upp markmið um endurálagningu sem eftirlitsstofnunin hefur ætlað …

Dæmi eru um að starfsmenn Skattsins hafi fengið bónusgreiðslur sem skipta hundruðum þúsunda og að sett hafi verið upp markmið um endurálagningu sem eftirlitsstofnunin hefur ætlað sér að ná, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans. Morgunblaðið greindi frá því fyrir helgi að starfsmönnum Skattsins stæðu til boða sérstök viðbótarlaun eða bónusgreiðslur tvisvar á ári ef þeir skila sérstöku eða framúrskarandi vinnuframlagi í þágu embættisins.

„Það að eftirlitsstofnun eins og Skatturinn sé með innbyggt hvatakerfi til þess að ná fjármunum í ríkiskassann og í vasa starfsmanna er ekki til þess fallið að mál leiði til réttra skattskila. Ef rétt reynist að tenging sé milli hvatakerfisins og fjárhæðar markmiðsins sem Skatturinn setur á sínar deildir, er það með öllu óeðlilegt enda samræmist það ekki markmiðum tekjuskattslaga,“ segir einn viðmælandi ViðskiptaMoggans.

Blaðið ræddi við nokkra aðila sem hafa átt í samskiptum við Skattinn á undanförnum árum eða rekið mál fyrir hönd annarra vegna íhlutunar Skattsins. Þeir viðmælendur vilja ekki koma fram undir nafni þar sem margir af þeim eru enn með mál til meðferðar og vilja ekki að ummæli þeirra hafi áhrif á þau mál.

Markmið um fjárhæðir

ViðskiptaMogginn hefur heimildir fyrir því að hjá Skattinum séu sett markmið um fjárhæðir á endurálagningu og mun árangurinn við að endurheimta þær upphæðir hafa áhrif á fyrrnefnda bónusa. Blaðið hefur sent fyrirspurn á Skattinn um málið en ekki fengið svar við þeim spurningum sem þar voru lagðar fram. Viðmælendur blaðsins telja að ef bónusar séu tengdir saman við nýleg mál embættisins sem hafa verið umfjöllunar í fjölmiðlum valdi það áleitnum spurningum.

ViðskiptaMogginn hefur sem fyrr segir heimildir fyrir því að í einhverjum tilfellum hafi fjárhæðarmarkmið verið hengd upp á vegg hjá einstökum deildum Skattsins. Ef starfsmaður nær endurákvörðun í einhverju máli sem er til meðferðar hjá þeirri deild, lækkar viðkomandi fjárhæðina sem náðist með því að endurákvarða skatta hjá tilteknum aðila. Þannig vinni starfsfólkið saman til þess að lækka töluna sem upphaflega var sett.

Í framgreindu samhengi bentu viðmælendur á að hægt er að gefa sér það að fyrir starfsmenn sem eru tiltölulega nýlega byrjaðir gætu slíkir bónusar skipt þá sköpum og gætu verið til þess fallnir að hafa áhrif á dómgreind og ákvarðanatöku þeirra ef um er að ræða háar fjárhæðir í málum, þrátt fyrir að málatilbúnaðurinn sé á veikum grunni reistur. Það er ekki hægt að segja að þetta sé úr lausu loftið gripið með því að vísa í orð sem fyrrverandi ráðherra lét falla á þingi nýlega, sem sagði að svo virtist sem hvati væri í kerfinu sem væri skakkur og staðfestir ráðherrann það sem viðmælendur tjáðu ViðskiptaMogganum að starfsmönnum Skattsins væru sett markmið um fjárhæðir endurálagningar.

Kappið beri lögin ofurliði

Viðmælendur ViðskiptaMoggans sem þekkja til þessara mála hafa velt því fyrir sér hvort fjárhæðir í málum sem eru til meðferðar hjá Skattinum ráði meiru en rétt skattskil út frá því hvernig málin eru meðhöndluð. Ef um sé að ræða háar fjárhæðir í málum þá gangi embættið iðulega eins langt og hægt sé án þess að gæta að meðalhófi eða fyrirliggandi gögnum sem eru fyrirtækjum eða einstaklingum til hagsbóta.

Í því samhengi benda viðmælendur á meðalhófsregluna sem á að tryggja að skattyfirvöld rannsaki mál með það fyrir augum að horfa bæði til sektar og sýknu. Ef um sé að ræða mál þar sem háar fjárhæðir eru til skoðunar, þá virðist embættið fremur kjósa að líta framhjá þeirri meginreglu og gengur eins langt og hægt er. Að mati viðmælenda er hætta á að kappið beri stofnunina ofurliði á kostnað þess að farið sé eftir lögum.

Gagnrýni á Skattinn

Það má benda á nýlegt dæmi um endurákvörðun Skattsins gagnvart félagi þar sem tekist er á um háar fjárhæðir. Í erindi Halldórs Halldórssonar, forstjóra Íslenska kalþörungafélagsins, á skattadeginum sem haldinn var fyrr í mánuðinum, gagnrýndi hann framgöngu Skattsins gagnvart félaginu.

Bæði í erindi sínu og í samtali við Morgunblaðið greindi Halldór frá því þegar Skatturinn endurákvarðaði tekjuskattstofn félagsins með 50% álagi sem fyrirtækið sjálft lagði á kostnaðargrunn sinn auk þess leggja 25% álag ofan á, sem nemi 2,4 milljörðum króna. Skatturinn ráðlagði félaginu í kjölfarið að leggja inn til embættisins beiðni um hófsamari endurákvörðun, sem var einnig hafnað. Starfsmenn Skattsins viðurkenndu það beinlínis á fundi að það væri of langt gengið í endurákvörðuninni og því velta margir fyrir sér hvort eitthvað annað liggi að baki, t.d. að fjárhæðarmörkum hafi ekki verið náð.

Haraldur Ingi Birgisson, lögmaður og meðeigandi Deloitte Legal, fjallaði einnig um sambærileg mál á skattadeginum.

Spurningum ekki svarað

ViðskiptaMogginn óskaði sem fyrr segir eftir skýringum frá Skattinum á því hvernig bónuskerfið er útfært, hvernig viðbótarlaun séu reiknuð og hvort á þeim sé eitthvert hámark. Stofnunin svaraði ekki fyrirspurninni efnislega og vísaði til stofnanasamnings við starfsmenn og lagagrundvallar viðbótarlauna. Í kjölfarið óskaði ViðskiptaMogginn eftir því að Skatturinn gerði grein fyrir hversu margir starfsmenn hafa unnið sér inn viðbótarlaun og um hversu háar fjárhæðir væri að ræða, hvort hann hefði sett sér markmið um fjárhæð endurálagningar og hvort þau markmið hefðu áhrif á fyrrnefndar bónusgreiðslur til starfsmanna. Ekki hafa borist svör frá Skattinum við þessum spurningum.