Vöruúrval Home & You er mjög litskrúðugt en náttúrulegir litir eru ekki síðar vinsælir.
Vöruúrval Home & You er mjög litskrúðugt en náttúrulegir litir eru ekki síðar vinsælir. — Ljósmynd/Árni Sæberg
Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Gæludýr.is og Home&You, er mamma, amma, eiginkona, vinur, vinkona og FKA-kona og situr í stjórn FKA. Hún er einnig viðskiptakona og hundaræktandi sem brennur fyrir þeim draumi að gera Ísland að…

Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Gæludýr.is og Home&You, er mamma, amma, eiginkona, vinur, vinkona og FKA-kona og situr í stjórn FKA. Hún er einnig viðskiptakona og hundaræktandi sem brennur fyrir þeim draumi að gera Ísland að betra landi fyrir gæludýr auk þess að byggja upp skemmtileg vörumerki. Árið 2009 stofnaði hún Gæludýr.is ásamt eiginmanni sínum, Eiríki Ásmundssyni, og 2015 stofnuðu þau heildverslunina Petmark ehf. og árið 2022 festu þau kaup á versluninni Home&You. Saman eiga þau Eiríkur fimm börn, þrjú barnabörn og fimm hunda.

„Mitt hlutverk er að sjá dýrum og gæludýrum fyrir góðri næringu og góðum vörum af miklum gæðum. Ég held líka að það styðji vel við þennan markað, enda orðið þannig að um 40% af heimilum á Íslandi eru með gæludýr,“ segir Ingibjörg. Markmið verslunarinnar er að tryggja gæludýraeigendum vörur fyrir gæludýrin á hagstæðu verði. Gæludýr.is býður einnig upp á ókeypis heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu og kemur einnig vörunni á flutningsaðila fyrir fólk á landsbyggðinni.

„Þar sem hjartað slær eða minn drífandi snýst um er að þessi markaður verði betri en hann var þegar ég kom fyrst inn í hann, að það sé auðveldara aðgengi að góðu fóðri og fylgihlutum,“ segir Ingibjörg. „Góð þekking skiptir mig líka gífurlega miklu máli. Ég legg mikið upp úr því að þjálfa starfsfólkið mitt. Það skiptir öllu að starfsfólkið mitt þekki vörurnar sem það er að selja, þekki hvað þær geri og af hverju við þurfum að nota þær. Það eru svo margar spurningar sem koma upp og þarf að huga að: Af hverju þarf að leika við ketti? Af hverju þurfa hundar að fá heilaþrautir? Hversu miklu máli skiptir feldhirða?“

Létu hrunið ekki stoppa sig

Þegar Gæludýr.is fór fyrst í loftið var verslunin eingöngu rekin á vefnum, en til að auka þjónustu við viðskiptavini var látið vaða með að opna fyrstu lágvöruverðsverslunina með gæludýravörur við Skútuvog 13. Það var svo í lok október 2010 að Gæludýr.is lokaði versluninni í Skútuvogi og opnaði stórmarkað með gæludýravörur á Korputorgi. Í nóvember 2011 opnaði Gæludýr.is annan á Smáratorgi 1. Þann 28. febrúar 2017 opnaði Gæludýr.is nýja verslun í Helluhrauni í Hafnarfirði. 2018 var opnuð verslun á Fiskislóð í Reykjavík og í september 2020 stórverslun þeirra á Akureyri. Ingibjörg, sem er viðskiptafræðingur með mastersgráðu í árangursstjórnun, starfaði áður sem mannauðsstjóri hjá Matís 2005-2008 og hugbúnaðarfyrirtækinu Teris á árunum 2008 til 2010.

Að sögn Ingibjargar varð hugmyndin að því að stofna gæludýraverslun fyrst til þegar hún bjó í Danmörku með fjölskyldu sinni. „Þegar við bjuggum erlendis vann maðurinn minn með námi í gæludýraverslun, svona stórri keðju. Hann hafði alltaf verið með þann draum að stofna sinn eigin rekstur. Svo komum við heim og þetta blundaði alltaf í okkur, þessi hugmynd að stofna verslun af þessu tagi. Við fluttum þá þessa hugmynd með okkur heim úr náminu,“ segir Ingibjörg, en þegar loksins var ákveðið að setja hana í framkvæmd stefndi Ísland í efnahagshrunið. „Þetta var 2008 þar sem við ætluðum að sjá fram á að byrja. Svo kemur október og það muna allir eftir þeim tíma og hvernig það fór. Þá er hringt og spurt okkur hvort við viljum ekki bíða með þetta. Þá var búið að undirbúa alla viðskiptaáætlun og við ákváðum að halda áfram.“

Þá segir Ingibjörg að reksturinn hafi verið byggður upp frá grunni og með miklu skipulagi. „Við vorum búin að safna okkur smá sparifé, sem var eiginlega námslán mannsins míns. Hann var alltaf að vinna með námi, þannig að hann notaði ekki námslánin sín í reksturinn á fjölskyldunni. Gæludýr.is er í rauninni stofnað í boði LÍN,“ segir Ingibjörg og hlær.

„Þannig byrjaði boltinn svolítið að rúlla, en að stofna fyrirtæki í hruninu er ekkert grín. Það þýddi ekkert að hringja í bankana til að fá einhver lán á þessum tíma. Þetta var strax rosalega mikið aðhald í rekstri og við hugsuðum mikið hvert skref. Það er rosalega góð lexía að stofna fyrirtæki í lágsveiflu að mínu mati. Það er ekkert sjálfsagt. Svo leiddi eitt af öðru og fyrirtækið fór að vaxa og dafna. Þú byggir ekkert svona upp nema að vinna mjög mikið sjálfur. Í dag erum við komin með fimm verslanir.“

Gæludýr.is er ein stærsta gæludýraverslun landsins sem rekin er bæði á netinu sem og í hefðbundinni verslun en lagt er mikið upp úr því að vöruúrvalið sé með besta móti. Verslunin býður upp á allt fyrir gæludýr á einum og sama staðnum: fóður, ólar, tauma, beisli, fatnað, leikföng, búr, þrautir, bæli og allt sem tengist gæludýrum á einn hátt eða annan. Hefðbundnar verslanir Gæludýr.is eru til húsa á Smáratorgi, Bíldshöfða, Fiskislóð, Hafnarfirði og Baldursnesi á Akureyri.

Tveggja ára markmið

„Það skemmtilegasta sem ég geri er að byggja upp vörumerki. Mér finnst það geggjað, að geta styrkt verslun og starfsemi í sessi,“ segir Ingibjörg. Í nóvember síðastliðnum opnaði Home&You nýja og stórglæsilega verslun í Smáralind. Þá rekur Ingibjörg söguna af aðkomu hennar að vörumerkinu og markmiðinu sem hún setti sér til að koma því á loft. „Það var bara þannig að ég labbaði einn daginn inn í þessa búð í Skeifunni. Mér fannst hún lítil og svona troðin en það var alveg ofboðslega mikið af fallegum vörum, vönduðum og góðum vörum á góðu verði. Það fyrsta sem ég hugsaði var: „Vá, hvað þessi búð er á vitlausum stað.“ Mér fannst þessi búð eiga svo vel heima í Kringlunni eða Smáralind,“ segir Ingibjörg.

„Síðan sá ég búðina auglýsta til sölu og ég ákvað bara að stökkva og kaupa. Ég rak hana fyrst þarna í Skeifunni og setti mér það markmið að flytja hana í Kringluna eða Smáralind innan tveggja ára. Það hafðist síðan, á einu og hálfu ári.“

Um er að ræða keðju af húsbúnaðarverslunum með heimilis- og gjafavöru en verslanirnar eru orðnar hátt í 200 talsins í Evrópu og vöxturinn verið afar hraður síðustu ár að sögn Ingibjargar. Hún segir frábært úrval af smávöru einkenna verslunina. „Við erum lítið í stærri húsgögnum en ef þú ert að leita að frábærum gjöfum eða vilt lífga upp á eigið heimili eru allar líkur á að þú finnir réttu hlutina hjá okkur. Fólk hefur oft komið inn til að finna góða gjöf en labbað svo út með gjöfina og fullan poka í viðbót fyrir sjálft sig,“
segir Ingibjörg. „Við Íslendingar getum verið svo miklir hrafnar inn við beinið, glitrandi vörurnar okkar grípa fólk mikið. Við höfum stundum sagt það sé hægt að koma til okkar og „blinga“ upp heimilið.“ Ingibjörg segir að árið 2024 fari í það að byggja upp og markaðssetja Home&You. „Mér finnst þessi markaður svo ótrúlega skemmtilegur,“ segir hún.

„Ég sem mikill fagurkeri hef gaman af því að vinna með fallegar vörur, en þetta ár fer annars vegar í Home&You og hins vegar erum við að flytja Petmark-heildverslunina okkar í nýtt húsnæði sem við erum að innrétta núna, auk þess að halda vel við rekstur Gæludýr.is.“