Lögfræði
Birgir Már Björnsson
Hæstaréttarlögmaður á LEX lögmannsstofu og kennari í skuldaskilarétti við Háskólann í Reykjavík.
Eignarrétti fylgir heimild manna til að ráðstafa eignum sínum í lifanda lífi nema lög eða samningar mæli á annan veg. Gjöf er skilgreind sem örlætisgerningur, að jafnaði án endurgjalds, sem stendur ekki í tengslum við lögbundna eða annars konar efndaskyldu sem hvíla kann á gefandanum gagnvart gjafþeganum. Gjafir sem gefnar eru í lifanda lífi, umfram það sem almennt gerist um tækifærisgjafir, teljast til skattskyldra tekna hjá móttakanda þeirra.
Aðila er einnig heimilt að gefa svokallaða dánargjöf, en slík gjöf er gefin í lifanda lífi en ekki ætlast til að hún komi til framkvæmda fyrr en að gefanda látnum. Um dánargjafir og heimildir til þeirra gilda ákvæði erfðalaga nr. 8/1962 en 54. gr. erfðalaga mælir fyrir um að reglur um erfðaskrár gildi um dánargjafir. Í því felst að svo gerningur teljist hafa falið í sér dánargjöf þarf að mæla fyrir um hana í gildri erfðaskrá. Uppfylli dánargjöf ekki skilyrði erfðalaga yrði slíkur gerningur talinn ógildur og gjöfin talin til eigna dánarbús á dánardegi.
Mat á því hvort gjöf telst vera lífsgjöf eða dánargjöf er aðstæðubundið hverju sinni enda kunna gjafir að vera margvíslegar, hvoru tveggja að formi og efni. Í dómaframkvæmd hefur m.a. verið horft til þess að gjöf teljist jafnan dánargjöf ef ekki stendur til að efna hana að neinu leyti fyrr en eftir fráfall gefanda. Þýðingu hefur í því sambandi hvort gefandi hafi átt kost á að taka aftur gjöfina og hvernig réttur gjafþegans er tryggður t.d. með þinglýsingu fasteigna eða opinberri skráningu. Í tilviki lausafjármuna gegna vörslur og vörsluskipti grundvallarmáli en almennt standa líkur til þess að sá sem hefur lausafjármuni í vörslum sínum og heimild til að fara með þá eins og þeir tilheyri sér, teljist jafnframt réttur eigandi þeirra.
Í nýlegum dómi Hæstaréttar í máli nr. 43/2023 var deilt um hvort gjöf teldist lífs- eða dánargjöf, en niðurstaða þar um hafði áhrif á eignastöðu dánarbús. Í málinu hafði A, sem átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi þau C, D og E, gengið í hjónaband með B en þau A og B eignuðust ekki börn saman. A og B gerðu með sér sameiginlegar erfðaskrár þar sem mælt var fyrir um heimild langlífari maka til setu í óskiptu búi og nánari tilhögun á sameiginlegum vilja þeirra til ráðstöfunar eigna eftir þeirra dag.
Tveimur vikum fyrir andlát A árið 2018 ritaði A undir skjal undir heitinu „Um ráðstöfun málverka minna“. Í skjalinu kom fram að átta nánar tilgreindum málverkum skyldi afsalað til C og barna D og E, þannig að C fengi helming þeirra en börn D og E hinn helminginn, samkvæmt samkomulagi þeirra þriggja. Umrædd málverk námu 10% af heildareignum A og B og 20% af búshluta A. Ráðstöfunin var bundin því skilyrði að málverkin fengju að vera á heimili A og B þar til annað tveggja myndi gerast, dánarbúi A yrði skipt ef B fengi ekki leyfi til setu í óskiptu búi, eða búi A væri skipt eftir andlát B sæti hún í óskiptu búi eftir A. B vissi ekki um gerninginn fyrr en að A látnum en þegar A ritaði undir gerninginn var hann fluttur af heimili þeirra hjóna og kominn á dvalarheimili.
Hæstiréttur vísaði til þess að í raun hefði ekki átt sér stað endanleg og formleg yfirfærsla á eignarrétti að málverkunum er A andaðist. Þá bæri til þess að líta að málverkin væru átta að tölu og ekki tilgreint sérstaklega hver gjafþega ætti að fá hvaða málverk né heldur hvernig málverkum yrði skipt milli þeirra eftir verðmæti. Var það niðurstaða réttarins að sú gjöf sem fólst í ráðstöfun málverkanna hefði eftir efni sínu verið dánargjöf en ekki lífsgjöf, sem lúta hefði þurft reglum um erfðaskrá sbr. 54. gr. erfðalaga. Af þeim sökum að ekki var mælt fyrir um dánargjöfina í erfðaskrá taldist gerningurinn ólögmætur og málverkin því eign dánarbúsins.
Dómur Hæstaréttar sýnir þýðingu þess að gætt sé form- og efnisskilyrða við ráðstöfun gjafa til erfingja í lifanda lífi gefanda. Ella er hætta á að gjöf teljist að lögum hvorki gjöf lifandi né liðins manns.