Veikur Ómar Ingi Magnússon gat ekki tekið þátt í leik Íslands og Króatíu á mánudaginn og óvíst um þátttöku hans í leiknum gegn Austurríki í dag.
Veikur Ómar Ingi Magnússon gat ekki tekið þátt í leik Íslands og Króatíu á mánudaginn og óvíst um þátttöku hans í leiknum gegn Austurríki í dag. — AFP/Ina Fassbender
„Það er smá bras á liðinu þannig að það er eitt og annað sem ég þarf að huga að fyrir leikinn gegn Austurríki,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á liðshóteli íslenska liðsins í Köln í Þýskalandi í gær

Í Köln

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Það er smá bras á liðinu þannig að það er eitt og annað sem ég þarf að huga að fyrir leikinn gegn Austurríki,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á liðshóteli íslenska liðsins í Köln í Þýskalandi í gær.

Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur lokið leik á mótinu eftir að hafa meiðst á rist gegn Króatíu á mánudaginn og Ýmir Örn Gíslason verður í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í sama leik.

Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon voru báðir veikir á mánudaginn og eru ekki búnir að hrista það af sér og þá vöknuðu þeir Kristján Örn Kristjánsson og Óðinn Þór Ríkharðsson veikir í gærmorgun. Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson frá Flensburg var kallaður inn í hópinn í gær.

„Þróunin er sú, þegar menn veikjast, að það smitar út frá sér og við þurfum að vera á varðbergi gegn því og fylgjast vel með. Á sama tíma mæti ég alltaf með dúndurlið í leikinn gegn Austurríki og með leikplan sem snýst um að vinna leikinn, með þá leikmenn sem eru klárir í slaginn,“ sagði Snorri Steinn.

Efast enginn um getu þeirra

Austurríki er það lið sem hefur komið einna mest á óvart á mótinu í ár og hefur aðeins tapað einum leik til þessa, gegn ólympíumeisturum Frakka. Liðið gæti komist í undanúrslit með því að sigra Ísland.

„Austurríki hefur sýnt á þessu móti að þetta er lið sem þarf að bera virðingu fyrir. Þeir eru frábært dæmi um hvað hægt er að gera þegar hlutirnir byrja að rúlla og tikka hjá manni og sjálfstraustið eykst um leið,“ sagði Snorri Steinn.

„Við munum skoða vináttulandsleikina gegn þeim í aðdraganda mótsins og fara yfir það sem við gerðum vel þar,“ sagði Bjarki Már Elísson, hornamaður íslenska liðsins.

„Eftir á að hyggja þá voru þetta kannski bara ágætis leikir hjá okkur, þótt tilfinningin á þeim tíma, hafi vissulega verið sú að við ættum mjög mikið inni. Þetta voru tveir mjög þægilegir sigrar fannst mér og vonandi verður það sama upp á teningnum í þessum lokaleik milliriðilsins,“ sagði Bjarki Már.

Tel okkur vera betri

Þrátt fyrir að Austurríki sé það lið sem hefur komið mest á óvart á mótinu telur hornamaðurinn að Ísland sé með betra lið.

„Það efast enginn um getu þeirra og þeir gáfu Frakklandi sem dæmi hörkuleik, þrátt fyrir að hafa tapað. Þeir eru búnir að spila á sama liðinu nánast allt mótið og eru seigir og vel skipulagðir. Þetta verður erfiður leikur og allt það en ég tel okkur með betra lið og við eigum að vinna þá.“

Íslenska liðið getur ennþá náð markmiðum sínum á mótinu þrátt fyrir þrjú töp í röð gegn Ungverjalandi, Þýskalandi og Frakklandi.

„Ef leikurinn gegn Króatíu var undanúrslitaleikur þá er þessi leikur gegn Austurríki úrslitaleikur fyrir okkur. Við ætlum okkur að enda þetta mót með sæmd og ná þeim markmiðum sem við lögðum upp með,“ sagði Bjarki Már við Morgunblaðið á liðshóteli íslenska liðsins í Köln.

Höf.: Bjarni Helgason