Valgerður Hjartardóttir fæddist 17. apríl 1936 á Patreksfirði. Hún lést 8. janúar 2024 á Sólteigi við Brúnaveg.
Foreldrar hennar voru Hjörtur Kristjánsson, f. 1. júní 1905, d. 4. mars 1979, vélstjóri og Sigríður G. Hjartardóttir, f. 26. ágúst 1908, d. 3. júlí 1980.
Systur Valgerðar voru: Lilja, Anna og Margrét sem lifir systur sínar.
Valgerður giftist hinn 16. febrúar 1957 Kristjáni Sveinssyni skipstjóra, f. 11.12. 1933, d. 15.9. 2021. Foreldrar hans voru Þorbjörg Samúelsdóttir, f. 8. október 1905, d. 7. júní 1978, og Sveinn Kristjánsson, f. 2. september 1906, d. 6. maí 1939.
Dætur Valgerðar og Kristjáns eru: 1) Sigríður, f. 22. ágúst 1957. Hennar maður er Friðrik Björgvinsson, f. 25. desember 1957. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. 2) Þorbjörg Ísafold, f. 4. desember 1958. Hún á þrjú börn og þrjú barnabörn. 3) Elína Hrund, f. 30. maí 1962. Hennar maður var Geir Jónsson, d. 10. janúar 1994. Þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn. 4) Karítas, f. 24. október 1972. Hennar maður er Ingólfur Hartvigsson, f. 29. október 1972. Þau eiga þrjú börn.
Að loknu gagnfræðaprófi stundaði Vala nám við Héraðsskólann á Laugarvatni. Hún vann við fiskvinnslu á unglingsárum og eftir að hún flutti ásamt foreldrum sínum til Reykjavíkur vann hún við verslunarstörf sem og á símanum.
Hún helgaði sig húsmóðurstörfum eftir að Kristján lauk Stýrimannaskólanum árið 1958.
Þegar yngsta dóttirin var 12 ára fór Vala aftur út á vinnumarkaðinn. Vann hún um tíma á saumastofu og við verslunarstörf en lengst af vann hún á Hrafnistu Laugarási við félagsstörf og sem handavinnuleiðbeinandi. Hún var mikil handverkskona og aflaði sér kunnáttu vítt og breitt í hinum ýmsu handverksgreinum.
Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. janúar 2024, klukkan 13.
Allt er svo undarlegt núna og öðruvísi en var, því mamma er búin að kveðja. Hún lagði af stað í ferðina miklu á mánudagsmorgni snemma árs.
Við systurnar fjórar stöndum eftir og söknum þess að geta ekki kíkt í heimsókn til hennar mömmu og síminn er hættur að hringja.
Mamma var potturinn og pannan á bernskuheimilinu. Pabbi var mikið á sjó og fjarverandi löngu stundum, en mamma var alltaf til staðar og öryggið okkar og skjól hversdagsins.
Hún var mikil sögukona og ólumst við upp við sögurnar hennar frá Patreksfirði, en þar fæddist hún og ólst upp. Náttúran var henni hugleikin og fór hún mikið með okkur dætur sínar í fjöruferðir, berjatínslu og lautarferðir, og þegar bíllinn var kominn í eigu fjölskyldunnar þá voru farnar ferðir á helstu staðina í nágrenni Reykjavíkur með nesti og nýja skó.
Saumaskapur var henni í blóð borinn, og vorum við systur oft á tíðum í fallegum heimasaumuðum fötum sem mamma hristi fram úr erminni, og var alltaf gaman að fara með mömmu í vefnaðarvöruverslanir til að kaupa efni í næstu flík.
Hannyrðir og föndur voru hennar ær og kýr, og var hún ávallt með eitthvað á prjónunum. Handverk lék í höndum hennar og var ekkert sem hún ekki kunni eða gat gert á því sviði. Hún var einstaklega vandvirk og waldorfdúkkurnar hennar endast endalaust í litlum höndum. Alls konar prjónuð furðudýr glöddu barnabörnin í gegnum árin, og var mamma mjög ánægð yfir því að hafa átt nógu margar prjónaðar uglur á lager fyrir langömmubörnin sem hafa bæst í barnahópinn undanfarin ár.
Þrátt fyrir erfiðan og hamlandi meltingarfærasjúkdóm sem hrjáði hana frá barnæsku og kostaði hana mikið, bæði líkamlega og andlega og ekki minnst félagslega, þá gafst hún aldrei upp og var ávallt bjartsýn á betri tíð og betri heilsu.
Við dætur hennar fjórar yljum okkur við góðar minningar og þökkum mömmu fyrir samfylgdina og kveðjum hana með sárum söknuði.
Sigríður (Sigga),
Þorbjörg Ísafold (Böggý), Elína Hrund (Ellý)
og Karítas (Kata).
Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta sinni hér
og hlýhug allra vannstu er fengu að kynnast þér.
Þín blessuð minning vakir og býr í vinahjörtum
á brautir okkar stráðir þú, yl og geislum björtum.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór í fyrsta skipti í pössun til Völu móðursystur minnar og Kristjáns, rétt innan við eins árs. Ég varð strax hluti af systrahópnum í Skerjó og síðar á Langholtsveginum og alltaf átti ég skjól og athvarf hjá elsku Völu.
Fallegt heimili frænku minnar umvafði mig. Hún var snilldarkokkur og ekki grenntist maður í veislum hjá henni.
Jólagjafirnar voru alltaf svo fallega skreyttar, með ýmsu handgerðu jólaskrauti. Á jólatrénu mínu eru fallegir hlutir sem Vala frænka gaf mér og krökkunum mínum í gegnum árin auk dúka og klukkustrengja sem hún hafði gert og gefið mömmu og rötuðu til mín eftir að mamma kvaddi.
Ég kom við á Þorláksmessu til að óska frænku minni gleðilegra jóla. Var mjög af henni dregið og ég var ekki alveg viss um hvort hún þekkti mig. Þegar ég spurði þá svaraði hún: „Stína mín eða Stína okkar eins og við sögðum alltaf.“ Þessi setning rammar vel inn samband mitt við móðursystur mína.
Tak mig með
til drauma þinna landa
þangað sem fegurðin býr.
Tak mig með
heim til himinsins fögru stranda
svo ég verði maður nýr.
Tak mig með
þangað sem englarnir anda,
þangað sem ástin snýr.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Hjartans samúðarkveðjur til ykkar elsku systur. Blessuð sé minning Völu frænku minnar.
Delia Kristín
Howser (Stína).