Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, verður einn í kjöri til formanns Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem fram fer í febrúar. Ari Fenger, forstjóri 1912 ehf., lætur þá af formennsku eftir að hafa gegnt því embætti í fjögur ár.
Andri Þór hefur setið í stjórn Viðskiptaráðs um árabil og þekkir því vel til starfsemi ráðsins.
„Ég vona að ég geti sett mitt mark á starf Viðskiptaráðs, sem hefur verið öflugur málsvari viðskiptafrelsis í áratugi,“ segir Andri Þór í samtali við ViðskiptaMoggann.
Spurður um sín helstu áherslumál nefnir hann meðal annars sjálfbærni og nýsköpun.
„Atvinnulífið þarf að leggja áherslu á sjálfbærni. Þannig náum við árangri og þá á ég ekki bara við atvinnulífið heldur samfélagið í heild sinni. Rétt eins og rekstur þarf að vera sjálfbær þurfa aðrir liðir í framleiðslu og þjónustu einnig að vera sjálfbærir,“ segir Andri Þór. „Hvað nýsköpun varðar þá höfum við til að mynda sýnt það hjá Ölgerðinni hversu mikilvæg hún er. Við erum með sterka vöruflokka en höfum styrkt rekstur félagsins enn frekar með nýjungum, nýrri vöruþróun, nýjum vörum á markað og svo framvegis. Svipaða sögu má segja af fjölmörgum öðrum fyrirtækjum, þau sem hafa lagt áherslu á nýsköpun hafa náð miklum árangri. Við þurfum alltaf að horfa fram í tímann og þetta er liður í því.“
Andri Þór nefnir þó einnig að baráttunni fyrir auknu viðskiptafrelsi sé hvergi nærri lokið. Viðskiptaráð þurfi hér eftir sem hingað til að vera öflugur aðili í þeirri baráttu.