Linda Björk Halldórsdóttir er mannauðsstjóri hjá Skeljungi.
Linda Björk Halldórsdóttir er mannauðsstjóri hjá Skeljungi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Linda Björk Halldórsdóttir hefur gegnt starfi mannauðsstjóra Skeljungs í sex ár en hún er með mastersgráðu í mannauðsstjórnun og BS í viðskiptafræði. Eftir viðskiptafræðina fór hún að vinna í Landsbankanum í tíu ár og gerðist einnig annar…

Linda Björk Halldórsdóttir hefur gegnt starfi mannauðsstjóra Skeljungs í sex ár en hún er með mastersgráðu í mannauðsstjórnun og BS í viðskiptafræði. Eftir viðskiptafræðina fór hún að vinna í Landsbankanum í tíu ár og gerðist einnig annar varaformaður SSF, sem Linda segir að hafi gjörbreytt stefnu sinni í lífinu á besta máta. „Þá fór ég að starfa rosa mikið í kringum fólk, réttindi fólks og allt þetta. Þá sá ég að mig langaði frekar að fara mannauðsleiðina en peningaleiðina með mastersnáminu. Mér fannst mannauðurinn skipta meira máli.“

Hjá Skeljungi er lögð áhersla á að starfsfólk þróist í starfi og fái fjölbreytt verkefni. Lögð er áhersla á regluleg frammistöðusamtöl til að greina og virkja þróun starfsfólks í starfi með markvissum hætti. Þá er starfsfólkið líka hvatt til að vera stöðugt vakandi fyrir leiðum til að greina og virkja þróun starfsfólks í starfi á markvissan hátt.

Fletir hugsaðir upp á nýtt

Hlutverk Skeljungs er að þjóna orkuþörf fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við samfélagið og umhverfi sitt. Starfsemi Skeljungs er á sviði sölu og þjónustu við fyrirtæki tengt fjölorku. Fyrirtækið sér um dreifingu, innkaup og heildsölu á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja og bænda. Þjónusta og sala til stórnotenda, til útgerða, í flug og verktöku er einnig hluti af starfseminni. „Það er hægt að læra allt. Hvað sem er, sama um hvað hluturinn snýst. Hvort sem hann snýst um olíu, snyrtivörur eða annað. Við fórum að huga að því hvernig við gætum gert Skeljung áhugaverðan,“ segir Linda. „Skeljungur hefur þó ávallt verið mjög karllægt fyrirtæki. Það er auðvitað mikið af frábærum mönnum að vinna hérna en okkur hefur vantað konur í hópinn.“

Að sögn Lindu er mikilvægt að gæta þess í starfi sínu að umbylta staðalmyndum til þess að innleiða þarfar breytingar og meiri fjölbreytni. „Þegar þú ferð inn í svona karllægt fyrirtæki og það losnar staða, þá er það svolítið fast í menningunni að ef karlmaður er búinn að sitja í starfinu í vissan tíma og yfirmaður fer síðan að leita að nýjum í það starf, þá getur hann verið svolítið fastur í þeirri hugsun með starfsmanninn sem var. Þegar kemur að því að ráða í starf, þá passa ég að fá stjórnendur til að hugsa alveg upp á nýtt þegar farið er að leita að öðrum í starfið. Það hefur tekist vel,“ segir Linda.

„Það er svolítið gaman að sjá hvernig stjórnendur eru farnir að átta sig á þessu með viss störf, að geta komið að borðinu með enga fyrirframákveðna mynd af stöðunni. Aldur, kyn, kynhneigð, það skiptir engu, þetta á að snúast um að fá flottan starfsmann sem passar inn í hópinn og starfið sem við erum að leita að.“ Linda segir þó alltaf eitthvað sem má gera betur. „Í bílstjórahópnum okkar þurfum við að ná betra hlutfalli kynja þar sem við erum bara með karlmenn að keyra, en við viljum sjá breytingar þar,“ segir hún. „Við hvetjum öll kyn til að sækja um þegar við auglýsum eftir bílstjóra.“

Aukning ánægju í starfi

Skeljungur fór í úttekt vegna jafnlaunavottunar í júlí síðastliðnum og fékk endurvottun til næstu þriggja ára. Niðurstaða vottunarinnar var að óútskýrður launamunur milli kynjanna minnkar úr 3,6% í 0,4% á milli ára. Má jafnframt geta þess að í lok árs 2022 voru 16% konur hjá fyrirtækinu og 84% karlar en lok árs 2023 voru hlutföllin 21% konur og 79% karla. „Það eru fleiri farnir að hugsa „hvað getum við gert til þess að fá konur inn?“ og gera okkur sýnilegri; að segja að þessi geiri hentar öllum kynjum.“

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Skeljungi hefur verið hrósað í úttektinni fyrir að launaákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundinn launamun. Unnið sé vel eftir þeim verklagsreglum sem settar hafa verið í kringum vottunina og snúa að launum og öðrum hlunnindum starfsmanna. Linda segir þetta frábæran árangur hvað launamun kynjanna varðar, að mikilvægt sé að hafa í huga að þar sem stór hluti vinnustaðarins er af sama kyni er líka verið að bera störf saman í úttektinni, þar sem krafist er sömu hæfni, þekkingar, menntunar og/eða reynslu og skoðað hvort einhver óeðlilegur launamunur sé á milli starfa. Starfsánægja hefur jafnframt aukist.

Hjá fyrirtækinu er starfsánægja fólks mæld reglulega, meðal annars líðan þess. „Við erum með sjálfbærniteymi og félagslegi þátturinn er stór partur af lífinu,“ segir Linda. „Við mælum starfsánægjuna allt að átta sinnum á ári, rýnum svo alltaf niðurstöður og vinnum með þær. Við tókum til dæmis eftir því síðasta vetur, sem var mjög erfiður þegar kom að veikindum. Það voru mikil veikindi hjá starfsfólkinu okkar og sumir áttu erfitt með að ná sambandi við hjúkrunarfræðinga og annað.“

Áhersla var lögð á að hlusta og hlúa að starfsfólki með fræðsluerindum svo sem með samningi við Vinnuvernd um heilsufarsmælingar og þjónustu við starfsfólk í veikindum ýmiss konar. „Fólk hefur verið mjög ánægt með þetta, að geta fengið strax samband við réttan aðila í sínum veikindum,“ bætir hún við. Þá hafa 97% starfsfólks sagt að það ríki jafnvægi á milli vinnu og einkalífs en að sögn Lindu skipta þessir þættir öllu máli þegar búa á til vinnustað sem hentar öllum kynjum jafnt.