Þeir eru fáir vinir skattgreiðenda á Alþingi. Stjórnleysi ríkisútgjalda hefur verið gegndarlaust undanfarin ár og virðist þá einu gilda hvort upphæðirnar eru stórar eða smáar.
Mig langar til að nefna hér tvö lítil dæmi þar sem rétt er að efast um að mönnum sé sjálfrátt og velta því upp um leið hvort virðingarleysið gagnvart skattfé sé orðið algert.
Fyrst er að nefna fréttir af kaupum ríkis á upprunavottorðum fyrir 100 milljónir á ári, en sagt var frá vitleysunni í Viðskiptablaðinu. Hver tekur svona ákvörðun? Hvers vegna ætti íslenska ríkið að kaupa slík aflátsbréf þegar allir vita að íslenska orkan er eins græn og hún getur verið? Hafa menn ekkert betra við peningana að gera?
Næst verð ég að nefna gott dæmi úr fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2024 en þar er sérstakur útgjaldaliður sem ber heitið „Flutningur Reykjavíkurflugvallar í Hvassahraun“. Er sem sagt hálfgjaldþrota Reykjavíkurborg að henda tugum milljóna í flutning Reykjavíkurflugvallar í Hvassahraun? Völlurinn er bara alls ekki á leiðinni þangað – á því svæði hafa menn nú um stundir meiri áhyggjur af hraunflæði en flugskilyrðum.
Þetta eru ekki stærstu tölurnar í fjárlögum eða fjárhagsáætlun ríkis og borgar, en ákvarðanirnar sýna glögglega hvað fáir taka til varna fyrir fólkið og fyrirtækin í þessu landi. Peningunum er hreinlega eytt í vitleysu.
Fyrirstaðan gagnvart nýjum sköttum og gjöldum er sömuleiðis engin, hvert sem litið er. Alls staðar eru tækifæri til „tekjuöflunar ríkisins“ en þær krónur eru auðvitað teknar úr vasa skattgreiðandans.
Gott dæmi er fyrsta verkefnið sem unnið var í tengslum við yfirstandandi jarðhræringar á Reykjanesi – settur var á nýr skattur til að byggja varnargarðinn. Fjármálaráðherrann núverandi sagði skattinn tímabundinn en nú er ljóst samkvæmt yfirlýsingum forsætisráðherra að þessi skattur er kominn til að vera. Og við vitum öll hver ræður á þessu stjórnarheimili.
Að endingu horfir þessi ríkisstjórn með blinda auganu á útlendingamálin – milli þess sem formaður Sjálfstæðisflokksins slær um sig með digurbarkalegum yfirlýsingum sem allir vita að engin innistæða er fyrir að framkvæma. En í málaflokkinn fara svo 15 milljarðar, eða 15 þúsund milljónir úr vösum skattgreiðenda, bara á þessu ári. Það getur seint talist eðlilegt hjá svo lítilli þjóð?
Allt ber þetta að sama brunni. Ríki og borg fara ekki vel með þá fjármuni sem teknir eru af heimilum og fyrirtækjum landsins.
Við vinir skattgreiðenda munum þó áfram standa vaktina og spyrna við fótum í þingsal og annars staðar. Það vantar allt aðhald í ríkisrekstri, það vantar alla skynsemi í stærstu málaflokka stjórnvalda og það vantar einfaldlega á köflum öll tengsl við raunveruleikann.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is