Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. — Morgunblaðið/Eggert
„Það eru ýmsir þættir sem vekja von um bjarta tíma hér á landi. Það er sterkur grundvöllur fyrir vexti og hagsæld, mörg góð tækifæri fyrir fjölbreytta starfsemi til að vaxa

„Það eru ýmsir þættir sem vekja von um bjarta tíma hér á landi. Það er sterkur grundvöllur fyrir vexti og hagsæld, mörg góð tækifæri fyrir fjölbreytta starfsemi til að vaxa. Hugverkaiðnaður dafnar vel og getur orðið stærsti útflutningsiðnaðurinn í lok þessa áratugar. Þar verða til verðmæt háframleiðnistörf sem styrkja hagkerfið mikið.“

Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali við ViðskiptaMoggann þegar hann er beðinn um að meta stöðuna í hagkerfinu.

„Á sama tíma eru ýmsir neikvæðir þættir. Regluverk er of íþyngjandi og stór kerfi eru í ólagi, samanber stöðu orkumála og stöðuna á íbúðamarkaði þar sem of fáar íbúðir hafa verið byggðar og þarfir landsmanna eru ekki uppfylltar. Því til viðbótar mætti nefna stöðuna í menntamálum en menntakerfið mætir ekki þörfum atvinnulífsins,“ segir hann jafnframt.

Sigurður nefnir einnig að enn sé óvissa til staðar hvað Grindavík varðar en að það verði sameiginlegt verkefni þjóðfélagsins.

„Það er heldur ekki hægt annað en að horfa til stöðunnar í alþjóðamálum. Það er vaxandi spenna og átök breiðast út. Ein afleiðingin er sú að framleiðsla færist nær mörkuðum og það á sér stað öfug alþjóðavæðing þar sem ríki kjósa frekar að eiga viðskipti við önnur ríki sem hafa svipaða sýn á lífið og tilveruna,“ segir Sigurður. Nánar er rætt við hann í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag.