Lilja Magnúsdóttir er deildarstjóri auðlindastýringar hjá HS Orku en deild hennar hefur lagt Veðurstofunni lið upp á síðkastið.
Lilja Magnúsdóttir er deildarstjóri auðlindastýringar hjá HS Orku en deild hennar hefur lagt Veðurstofunni lið upp á síðkastið. — Ljósmynd/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Magnúsdóttir er deildarstjóri auðlindastýringar hjá HS Orku og hefur starfað þar síðan 2020. Hún er með doktorsgráðu í orkuverkfræði frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum og mastersgráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands

Lilja Magnúsdóttir er deildarstjóri auðlindastýringar hjá HS Orku og hefur starfað þar síðan 2020. Hún er með doktorsgráðu í orkuverkfræði frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum og mastersgráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Einnig hefur hún lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ og er varaformaður í stjórn Jarðhitafélags Íslands.

Lilja hefur unnið mikið í tengslum við jarðhita og forðafræði, bæði hér á landi og erlendis, en um tíma starfaði hún einnig sem yfirverkfræðingur í hönnun og þróun hjá sólarrafhlöðudeild Tesla í Kaliforníu. Þar kynntist hún vel hraðri þróun tæknibreytinga þar sem hönnun hennar leiddi til einkaleyfis. „Sem deildarstjóri auðlindastýringar HS Orku hef ég lagt kapp á að halda þessari nýsköpunarhugsun á lofti og er með frábært teymi með mér í því,“ segir Lilja.

Ýmsar afurðir til sölu í fjölbreyttu fyrirtæki

HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtækið á Íslandi og það eina í einkaeigu. Fyrirtækið hefur nær hálfrar aldar reynslu af vinnslu endurnýjanlegrar orku. HS Orka framleiðir og selur raforku um land allt úr tveimur jarðvarmavirkjunum í Svartsengi og á Reykjanesi auk vatnsaflsvirkjana á Brú í Biskupstungum og í Fjarðará í Seyðisfirði. Uppsett afl raforku er um 216 MW samtals en einnig er framleitt heitt og kalt vatn í Svartsengi fyrir Suðurnesin.

Í Auðlindagarði HS Orku eru aðrar afurðir jarðvarmavirkjananna einnig seldar og nýttar áfram, svo sem varmi, ylsjór, gufa og koltvísýringur. Til viðbótar eigin framleiðslu er HS Orka með samninga um sölu á rúmlega 25 MW frá smávirkjunum í eigu annarra aðila. Um 90 manns starfa hjá HS Orku. Kynjahlutfall í stjórn er jafnt og í framkvæmdastjórn sitja þrjár konur og fimm karlar. HS Orka er jafnlaunavottað fyrirtæki.

Vöktun aukin á tímum eldsumbrota

Þótt HS Orka sé ekki stórt orkufyrirtæki hefur það á að skipa vísindateymi sem er á heimsmælikvarða á sviði jarðvarma. Stjórn fyrirtækisins ákvað fyrir nokkrum árum að byggja upp meiri sérfræðiþekkingu innanhúss til að auka skilning á auðlindunum í umsjón þess og nýta þær á sjálfbæran hátt.

„Ég stýri nú átta manna deild jarðfræðinga, jarðefnafræðinga, forðafræðinga, verkfræðinga og verkefnisstjóra með dýrmæta reynslu og þekkingu úr jarðhitageiranum. Öll höfum við þó fengið að takast á við nýjar áskoranir á síðustu mánuðum vegna eldsumbrotanna í grennd við jarðvarmavirkjun HS Orku í Svartsengi,“ segir Lilja. Deildin hefur sem dæmi hannað eigið viðvörunarkerfi sem eykur möguleikana á að spá fyrir um yfirvofandi eldgos.

Upplýsingar úr sérhönnuðu kerfi HS Orku gáfu vísbendingar um að gos væri í aðsigi þann 14. janúar síðastliðinn. Kerfið sendi út viðvörunarskilaboð á náttúruvárvakt Veðurstofunnar rúmum fjórum klukkustundum fyrir gosið. Upplýsingarnar nýttust náttúruvárvaktinni og Almannavörnum ásamt þeirra eigin gögnum við ákvarðanir varðandi rýmingar. Þetta er eflaust eina viðvörunarkerfi sinnar tegundar að sögn Lilju og segir hún það hafa verið uppörvandi að sjá að kerfið skilaði tilætluðum árangri í þessum náttúruhamförum.

„Þegar kvikusöfnun hófst undir Svartsengi síðastliðinn október var vöktun á auðlindinni aukin til muna og hef ég setið samráðsfundi Veðurstofu Íslands ásamt öðru vísindafólki þar sem gögnin sem við höfum aflað eru samtúlkuð með öðrum gögnum. Ég sit einnig í neyðarstjórn HS Orku, sem var virkjuð í upphafi jarðhræringanna í nóvember, og miðla upplýsingunum áfram þangað. Með samstilltu átaki starfsfólks HS Orku hefur rekstur orkuveranna beggja á Reykjanesi gengið snurðulaust fyrir sig enda valinn einstaklingur í hverju rúmi“, segir Lilja og bætir við

„Sýnatökum úr borholum var fjölgað til að kanna sýrustig jarðhitavökvans vegna mögulegrar afgösunar á kviku og einnig var vel fylgst með gasmælum á yfirborði, holutoppsþrýstingi borholna og síritum á hitastigi og þrýstingi jarðhitakerfisins. Fyrir kvikuhlaupið í nóvember og rétt fyrir eldgosið í desember tókum við eftir breytingum í þrýstingi og hita úr síritunum sem staðsettir eru ofan í borholum í Svartsengi og Eldvörpum. Í kjölfarið hannaði sérfræðingateymi auðlindastýringarinnar sjálfvirkt viðvörunarkerfi út frá síritamælingunum sem virkaði vel til að vara við mögulegu eldgosi í janúar.“

Líkön og gervigreind gefa betri heildarmynd

Helsta hlutverk auðlindastýringarinnar, að sögn Lilju, er að vakta auðlindirnar sem HS Orka hefur í sinni umsjá og tryggja ábyrgar fjárfestingar og langtímajafnvægi auðlindanna. „Ég hef lagt áherslu á að fjölga mælingum á jarðhitakerfunum til að stuðla að betri yfirsýn og eru mælingarnar einnig forsenda þess að hægt sé að byggja upp góð forðafræðilíkön af svæðunum. Forðafræðilíkönin herma eftir því sem er að gerast í jarðhitageyminum djúpt undir yfirborði jarðar og nýtast þannig til að spá fyrir um viðbrögð jarðhitakerfanna við vinnslu. Þannig stuðlum við að sjálfbærari nýtingu þeirra,“ segir hún.

Einstakur árangur hefur náðst hjá deildinni við þróun forðafræðilíkana af jarðhitakerfum HS Orku og ná þau vel að herma sögulegan hita og þrýsting. Í framhaldi var farið í metnaðarfullt verkefni þar sem framleiðslulíkön, sem reikna framleitt afl virkjananna út frá flæði jarðhitavökvans á yfirborði, voru tengd við forðafræðilíkönin. Vel tókst til og með því að nýta líkönin saman fékkst betri heildarmynd á framleiðslugetu virkjananna

„Til marks um framsækni deildarinnar þá nýtum við gervigreind til að setja fram ítarlegri framleiðsluspár en áður,“ segir Lilja. „Gervigreindin lærir á tímabundnar sveiflur í einstaka
holum og uppfærir sjálfkrafa framleiðsluspána tvær klukkustundir fram í tímann, byggða á rauntímagögnum. Við höfum einnig komið upp gagnagrunni og mælaborði sem auðveldar aðgengi að gögnum og gefur okkur heildarmynd af efnafræði-, hita- og þrýstimælingum úr borholunum.“

Rannsóknir eru grundvöllur ábyrgrar nýtingar

Í nóvember, stuttu eftir að jarðhræringar hófust, fóru af stað nýjar rannsóknarboranir á Reykjanesi, skammt frá Reykjanesvirkjun, og fyrirhugar HS Orka fleiri boranir á næstu misserum. Sérfræðingar auðlindastýringar ákvarða út frá gögnum og líkönum staðsetningar nýrra borholna með það að markmiði að hámarka líkur á árangursríkri borun. Einn til tveir jarðfræðingar eru svo á vakt hverju sinni alla virka daga eftir að borun hefst til að greina svarfið sem kemur úr holunni. Þannig eru jarðlögin metin og nýtt við ákvarðanatöku í boruninni og til að auka við jarðfræðilega þekkingu á svæðinu. „Rannsóknir og aukin þekking draga úr áhættu í rekstri og gera okkur kleift að vakta svæðin vel og tryggja ábyrga nýtingu auðlindanna.

Það er óhætt að segja að aldrei sé lognmolla í vinnunni og ótrúlega gaman að mæta öllum spennandi áskorununum sem við í teyminu fáumst við á degi hverjum,“ segir Lilja að lokum.