Ragnhildur Alfreðsdóttir Appelros fæddist 27. desember 1942 í Reykjavík. Hún andaðist 10. desember 2023 á líknardeild í Örebro í Svíþjóð.
Foreldrar hennar voru Alfreð Gíslason læknir og Sigríður Þorsteinsdóttir húsmóðir. Systkin Ragnhildar eru Jón Hilmar Alfreðsson, f. 1937, og Guðrún Alfreðsdóttir, f. 1949.
Ragnhildur giftist árið 1973 Peter Appelros, lækni í Svíþjóð. Foreldrar hans voru Lennart Appelros verkfræðingur og Karin ritari. Dóttir Ragnhildar og Peters er Hildur Ellý, f. 1. febrúar 1979, hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð. Maki hennar er Ullrich Nilsson.
Ragnhildur lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1963 og stundaði síðan nám í frönsku í Montpellier í Frakklandi og við Háskóla Íslands. Hún starfaði sem kennari í Menntaskólanum við Tjörnina og síðan við Menntaskólann við Sund.
Árið 1979 fluttust þau Peter til Svíþjóðar og bjuggu síðan þar alla tíð í Örebro. Þar starfaði Ragnhildur lengstum sem kennari barna og unglinga.
Ragnhildur var félagslynd, átti vinahóp bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Hún starfaði í ýmsum félögum, m.a. Alliance Francaise og Dante Alighieri. Hún menntaði sig til leiðsögumanns á Íslandi og stundaði nám í ítölsku, bæði í Svíþjóð og á Ítalíu. Vorið 2022 greindist hjá henni krabbamein í þvagfærum og þrátt fyrir alla tiltæka læknismeðferð lést hún af þeim sjúkdómi.
Þann 10. desember sl. lést í Örebro í Svíþjóð föðursystir mín ástkær, Ragnhildur Alfreðsdóttir Appelros. Það sem fyrst kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Rönku eru hennar náttúrulega fegurð, hlátur og hlýja. Hún hafði fallega rithönd, bjart bros og mýkt í hreyfingum.
Hún var örlát á allan hátt, ekki hvað síst á tíma og athygli. Það þótti okkur systkinabörnum hennar vænt um og síðar fengu okkar eigin börn líka að njóta þess. Sem lítil stelpa naut ég þess að fara í sund með henni og Alfreð afa. Það sem hún gaf í formi bíóferða, bóklestrar og matar skildi eftir sig áhuga á því sem var fallegt og vandað. Hún bauð í bíó og þá voru það franskar myndir eða ballettmyndin Rauðu skórnir. Hún las fyrir okkur og þá var það Litli prinsinn, á frönsku. Við Kiddi frændi fengum oft að gista hjá henni vestur á Brávallagötu og þá var fjör. Við máttum klæða okkur upp í kjóla og slæður og halda tískusýningar og setja upp leikþætti.
Eftir að hún eignaðist sína eigin fjölskyldu og flutti til Svíþjóðar hélt hún áfram að rækta tengsl við ættingja og vini á Íslandi. Börnin mín nutu góðs af örlæti hennar á tíma, athygli og hlýju. Hún bakaði með þeim þegar þau voru hjá henni í heimsókn, fór með þeim í skemmtigarða og gerði það sem börnum þykir gaman, en á sama tíma gerði hún uppbyggilegar kröfur.
Margar dýrmætar minningar á ég um samverustundir með Rönku, á Íslandi, í Svíþjóð en líka á Ítalíu. Ein mín dýrmætasta minning mín nú þegar hún er farin frá okkur er heimsókn okkar hjóna til Örebro vorið 2022. Samveran í þeirri ferð var góð en upp úr stendur göngutúr minn með Rönku um miðbæ Örebro með Verdi, litla hund þeirra Peters. Við gengum framhjá kirkjunni þar sem þau Peter voru gefin saman í hjónaband í desember 1973. Hún sagði mér þá að Alfreð faðir hennar hefði haft efasemdir um samband þeirra í byrjun enda óvenjulegt á þeim tíma að kona giftist sér yngri manni. Þær efasemdir áttu þó eftir að hverfa og Alfreð hafði miklar mætur á tengdasyni sínum alla tíð, enda ekki hægt að hugsa sér betri eiginmann og félaga í lífinu fyrir Ragnhildi. Þeirra hjónaband var farsælt. Dóttir þeirra Hrafnhildur Ellý var fædd á Íslandi en var aðeins á fyrsta ári þegar þau fluttu til Svíþjóðar. Þar var ég eitt sumar að passa hana, eins og Ranka hafði áður passað mig.
Ef Ranka og Peter hefðu búið á Íslandi hefði hún án efa verið miðpunkturinn og límið í föðurfjölskyldu minni. Hún var þannig gerð. Þrátt fyrir búsetu í öðru landi var hún mikill þátttakandi í lífi okkar allra. Á stórum gleðistundum voru þau Peter með okkur og árlegar heimsóknir þeirra hingað og fundir okkar í Svíþjóð tryggðu það. Hún gleymdi aldrei afmælisdögum og glaðleg litrík kort með hennar fallegu rithönd voru ótrúlega vel tímasett þannig að þau bárust nánast alltaf á afmælisdaginn sjálfan. Hún var með okkur og verður áfram. Falleg, berfætt, hlæjandi – þannig mun ég minnast elsku Rönku frænku.
Peter og Hildi votta ég mína dýpstu samúð.
Elín H. Jónsdóttir.
Ragnhildur Alfreðsdóttir, kær vinkona í hartnær 50 ár, er látin í Svíþjóð. Við kynntumst um svipað leyti og þau Peter gengu í hjónaband. Á þeim árum kenndi hún frönsku við góðan orðstír í Verzlunarskóla Íslands og gamlir nemendur minnast hennar enn með hlýhug. Þegar þau fluttu til Örebro, heimabæjar Peters, hafði hann lokið læknanámi og þau eignast einkadótturina og augasteininn, Hrafnhildi Elly. Í kveðjuskyni færðu nemendur Ragnhildar henni „epli og rós“. Það fannst henni afar vel til fundið með skírskotun í eftirnafn Peters: Appelros.
Ragnhildur var frændrækin og ræktaði vinasambönd sín vel. Hún sýndi börnunum í fjölskyldunni og börnum vina sinna einlægan áhuga og alúð og gerði sér far um að vita hvað hver og einn hafði fyrir stafni. Oft hlustuðu þau frekar á hana en sína eigin foreldra.
Fyrstu árin í Örebro var hún heima með Hildi og tók jafnframt börn í gæslu og fóstur en síðan fór hún aftur að kenna. Kennslan átti vel við hana og varð hennar ævistarf. Á farsælum kennsluferli hefur henni án efa tekist að hreyfa við og breyta lífi margra nemenda. Um miðjan aldur tók hún sig til og fór að læra ítölsku og þá bættust ferðir til Ítalíu við Frakklands- og Austurríkisferðirnar í fríum.
Fátt veitti Ragnhildi meiri unun en gönguferðir og útivist og síðustu árin slóst hundurinn Vivaldi með í för. Það vakti alla tíð athygli og aðdáun hvað hún bar sig vel og var létt og kvik í hreyfingum. Oft kom hún auga á spaugilegu hliðarnar á málum og þá skellihló hún.
Einu sinni komumst við í hann krappan. Við fjölskyldan vorum í heimsókn í Örebro um páska og við Ragnhildur ákváðum að fara eina aukaferð í Garphyttan og taka stuttan hring á gönguskíðunum. Það var síðdegi og við ætluðum bara að fara stysta hringinn og fljótlega fór að skyggja. Það tók okkur dálítinn tíma að átta okkur á því að við vorum orðnar rammvilltar og myrkur skollið á. Við sáum fyrir okkur að hírast undir tré alla nóttina en að lokum komum við á akveg sem við ákváðum að fylgja og bönkuðum á dyr í fyrsta húsi sem ljós var í. Íbúinn þar stóðst ekki elskulega beiðni Ragnhildar og féllst á að skutla okkur upp á bílastæðið. Þegar heim í stofu kom spurðum við eiginmennina hvort þeir væru ekki orðnir hræddir um okkur! En nei, þeir voru að fylgjast með Gunde Svan í sjónvarpinu keppa í 50 km skíðagöngu.
Ragnhildur og Peter tóku ætíð vel á móti og aðstoðuðu Íslendinga sem fluttu til Örebro og oftar en ekki voru það læknar. Þannig eignuðust þau marga góða vini sem bættust í þegar stóran vinahóp og sýndi glöggt hve gestrisin þau voru.
Peter átti ættir að rekja til Skáns og á sumrin voru þau vön að heimsækja aldna ættingja, m.a. Elly sem Hildur heitir í höfuðið á. Svo mjög undu þau hag sínum vel á þessu landsvæði að þau festu kaup á íbúð í Mölle og dvöldu þar í fríunum sínum.
Á kveðjustund þökkum við fjölskylda mín fyrir samleiðina og geymum góðar minningar í hjörtum okkar. Peter, Hildi og öðrum ættingjum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Jóhanna Sigtryggsdóttir.
Með söknuði kveð ég kæra vinkonu, Ragnhildi Alfreðsdóttur. Við kynntumst einhvern tíma seint á sjöunda áratug síðustu aldar í frönskudeild Háskóla Íslands. Hún hafði verið við frönskunám í Háskólanum í Montpellier í Frakklandi og hafði því sterkan bakgrunn í faginu. Ragnhildur vakti athygli fyrir glæsileika og persónutöfra. Sænskur læknanemi í Háskóla Íslands, Peter Appelros, var einn af mörgum sem hrifust af henni á þessum árum. Úr varð ástríkt og farsælt hjónaband þeirra Ragnhildar og Peters.
Að loknu námi í HÍ unnum við Ragnhildur báðar við frönskukennslu í framhaldsskólum, þó ekki í sömu skólum. Hún hóf kennslu nokkru á undan mér. Á þessum árum voru kennsluhættir í frönsku talsvert að breytast. Leitaði ég oft ráða hjá henni um kennsluefni og aðferðir. Um tíma sátum við báðar í stjórn Félags frönskukennara á Íslandi. Þetta var upphafið að tryggri vináttu okkar Ragnhildar. Eftir að hún fluttist til Svíþjóðar skrifuðumst við reglulega á en einnig komu til gagnkvæmar heimsóknir og ferðalög.
Ég heimsótti Ragnhildi og Peter nokkrum sinnum til Örebro og einnig til Mölle sem var að nokkru leyti þeirra annað heimili síðari árin. Mér eru einnig mjög minnisstæð ferðalög með þeim hjónum til Frakklands og Ítalíu. Þau voru einstaklega góðir gestgjafar og ferðafélagar. Síðast dvaldist ég hjá þeim í Mölle í fyrrasumar. Þá var Ragnhildur hress og ekki að sjá að hún glímdi við alvarlegan sjúkdóm. Hún fór í langar gönguferðir eins og hennar var siður og sinnti sínum venjubundnu verkefnum.
Ragnhildur var góð málamanneskja. Eftir að þau Peter fluttust til Svíþjóðar hóf hún nám í ítölsku og sótti m.a. námskeið á Ítalíu nokkur sumur. Hún var virk bæði í Dante Alighieri og Alliance française-félögunum í Örebro. Ragnhildur hafði yndi af kennslu og kenndi frönsku, sænsku og ensku á Svíþjóðarárunum. Eftir að hún fór á eftirlaun vann hún í allmörg ár við forfallakennslu í Örebro. Henni fannst bæði gaman og gefandi að vinna með unglingum.
Manngæska, trygglyndi og lífsgleði einkenndu Ragnhildi. Hún hafði létta lund, var heilsteypt, umhyggjusöm og örlát. Hún átti auðvelt með samskipti og kom sér alls staðar vel. Hún lét sér annt um systkini sín og systkinabörn heima á Íslandi.
Ég votta Peter, Hildi, Ulrich og systkinum Ragnhildar og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Far í friði kæra vinkona.
María Þ. Gunnlaugsdóttir.
Yndisleg æskuvinkona mín Ragnhildur, eða Ranka eins og ég kallaði hana alltaf, er látin. Við urðum miklar vinkonur aðeins fjögurra ára gamlar og áttum okkar æsku í Hlíðunum. Aðeins eitt hús var á milli heimila okkar.
Sautján ára gamlar fórum við saman í enskuskóla til Bournemouth og dvöldum þar í þrjá mánuði, en á þeim tíma talaði fólk lítið ensku nema þeir sem fóru utan í skóla. Þetta var mikið ferðalag. Sigldum með Gullfossi til Edinborgar, þaðan með lest í marga klukkutíma til London og síðan með lest til Bournemouth. Þetta var stórkostlegt sumar hjá okkur, nema veðrið, en það sumar var ekki gott veður úti en æðislegt veður á Íslandi. Við nutum lífsins eins og hægt var. Bjuggum hvor á sínu heimilinu og náðum góðum tökum á tungumálinu, sem var auðvitað ætlunin.
Við Ranka áttum góða samleið alla tíð. Þegar ég flutti út á land og hún síðar til Svíþjóðar með sínum heittelskaða Peter, þá skrifuðumst við á og hringdum stöku sinnum hvor í aðra. Þegar þau hjónin komu til Íslands eða Ranka ein áttum við alltaf góðar stundir saman.
Ég fylgdist með Hildi dóttur þeirra vaxa og þroskast í gegnum Rönku og fann ég hvað hún var þeim hjónum dýrmæt.
Síðastliðið vor áttum við 60 ára stúdentsafmæli og Ranka kom að hitta okkur skólasystkinin. Við fórum á Selfoss og gistum þar eina nótt og hún naut þessa hittings í botn, eins og krakkarnir segja, og við líka.
Á skólaárunum í Verzló stofnuðum við saumaklúbb ásamt nokkrum vinkonum. Nokkrar okkar héldu áfram í lærdómsdeildina og eftir skólann héldum við flestar áfram að hittast í saumaklúbbum, eftir því sem hægt var. Tvisvar heimsóttum við saumaklúbbsvinkonurnar Rönku og Peter til Svíþjóðar. Í fyrri ferðinni fórum við til Örebro og í þeirri síðari heimsóttum við þau til Mølle. Móttökurnar hjá þeim voru stórkostlegar.
Mikið sem ég sakna Rönku minnar en gott er að geta yljað sér við allar minningarnar. Hvíl þú í friði elsku vinkona.
Auður Svala Guðjónsdóttir.