Tilkynnt hefur verið hvaða atvinnusviðslistahópar fá úthlutað úr sviðslistasjóði þetta árið. Alls bárust 108 umsóknir og sótt var um ríflega 1,3 milljarða króna í sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks. Sviðslistaráð veitir rúmlega 94 milljónir króna til 13 atvinnusviðslistahópa leikárið 2024-25 og fylgja þeim 139 listamannalaunamánuðir (ígildi 75 milljóna), 51 mánuður var veittur einstaklingum utan sviðslistahópa. Heildarstuðningur til sviðslistahópa og sviðslistafólks er því 169 milljónir.
Hæstu úthlutun fá að þessu sinni Stertabenda, Leikhúsið 10 fingur og Dáið er allt án drauma. Leikhópurinn Stertabenda, með Grétu Kristínu Ómarsdóttur í forsvari, hlýtur 9.240.000 kr. og 20 mánuði fyrir verkefnið Skammarþríhyrningurinn. Leikhúsið 10 fingur, með Ragnheiði Maísól Sturludóttur í forsvari, hlýtur 13.544.000 kr. og 12 mánuði fyrir kóreógrafíska myndleikhúsið Leir. Menningarfélagið Dáið er allt án drauma, með Adolf Smára Unnarsson í forsvari, hlýtur 10.316.000 kr. og 18 mánuði fyrir Innantóm, óperu eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson.
Þá hlýtur leikhópurinn Kriðpleir, með Ragnar Ísleif Bragason í forsvari, styrk sem nemur 18 milljónum króna. Kriðpleir mun setja leikrit Elísabetar Jökulsdóttur, Mundu töfrana, á svið. Menningarfélagið Marmarabörn hlýtur styrk sem nemur alls 18,5 milljónum fyrir samsköpunarverkið Árið án sumars. Forsvarsmaður þess er Kara Hergils Valdimarsdóttir. Menningarfélagið Tær hlýtur alls 13 milljónir fyrir dansverkið Soft Shell en þar er Katrín Gunnardóttir í forsvari. Common Nonsense sf. hlýtur alls 12 og hálfa milljón fyrir verkið Las Vegan. Forsvarsmaður verkefnisins er Ilmur María Stefánsdóttir.
Ólöf Ingólfsdóttir og Alltaf nóg slf. hljóta 12 milljóna króna styrk fyrir sólódansverkið 63. Sviðslistahópurinn Adam & Eva, með Nínu Sigríði Hjálmarsdóttur í forsvari, hlýtur 10,2 milljónir fyrir verkefnið Eden. Sprengjuhöllin ehf., með Ásrúnu Magnúsdóttur í forsvari, hlýtur alls tíu milljónir króna fyrir dans- og leikverkið Dúettar.
Handbendi brúðuleikhús hlýtur alls sjö og hálfa milljón fyrir verkefnið Með vindinum liggur leiðin heim. Stefnuljós, Bára Sigfúsdóttir og Tinna Ottesen, hljóta alls þrjár og hálfa milljón fyrir rannsóknarverkefnið Stillu. Kammeróperan ehf. hlýtur 3,3 milljónir fyrir verkið Dýravísur.