Grindavík Ýmsir aðilar koma að vinnunni á svæðinu um þessar mundir.
Grindavík Ýmsir aðilar koma að vinnunni á svæðinu um þessar mundir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is „Ég var ánægður með fundinn. Þarna voru nánast allir þeir sem eru að vinna í þessum málum með okkur og fyrir okkur. Það var gott að hitta fólkið í persónu því þá eru gjarnan einlægustu samtölin,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík, um fund sem haldinn var í gær með fulltrúum fyrirtækja í Grindavík vegna stöðunnar í sveitarfélaginu.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Ég var ánægður með fundinn. Þarna voru nánast allir þeir sem eru að vinna í þessum málum með okkur og fyrir okkur. Það var gott að hitta fólkið í persónu því þá eru gjarnan einlægustu samtölin,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík, um fund sem haldinn var í gær með fulltrúum fyrirtækja í Grindavík vegna stöðunnar í sveitarfélaginu.

Fundað var í húsakynnum dómsmálaráðuneytisins þar sem fulltrúar almannavarna fóru yfir stöðuna. Sátu dómsmálaráðherra og þingmenn Suðurkjördæmis fundinn ásamt ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á Suðurnesjum og fulltrúum Verkís, eftir því sem Morgunblaðið kemst næst.

„Þeir skýrðu út fyrir okkur hvernig væri verið að kanna öryggið í bænum, hvar veikustu hlekkirnir væru og hvernig þeir ætluðu að standa að því að laga þá. Einnig var farið yfir þær viðgerðir sem er búið að gera og hvernig þær komu út í síðustu atburðum. Auk þess var talað um hvernig þeir ætluðu að nota þessi tæki sem þeir eru þegar komnir með í hendurnar. Þetta eru þrjár jarðsjár sem ýmist eru nýttar með dróna eða dregnar yfir landið. Manni sýnist þetta vera mjög vel gert og að skipulagið sé ágætt. Vonandi gengur þeim bara sem best að komast yfir svæðið til að hægt sé að merkja mestu hættusvæðin sem eru í bænum.“

Gunnar segir stefnt að því að hefja starfsemi í einhverri mynd í Grindavík á næstunni ef vel gengur.

„Til stendur að reyna að lagfæra lagnakerfið í bænum sem er enn þá nokkuð skaddað. Hitaveitulagnirnar niður að höfninni eru ekki í lagi en rafmagnslagnirnar eru í lagi. Á næstu dögum á að ljúka þeirri vinnu og þetta horfir því til betri vegar. Vonandi getum við byrjað á einhverri starfsemi þarna á næstunni. Við stefnum alla vega að því en auðvitað myndi hún fá að vaxa smám saman með auknum lagfæringum og rannsóknum. Þetta mun taka lengri tíma en það gerði síðast,“ segir Gunnar Tómasson.

Almannavarnir standa sig vel

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sat fundinn eins og kollegar hans en sjálfur býr Jóhann ekki ýkja langt frá Grindavík eða í Reykjanesbæ.

„Mér fannst virkilega vel til fundið að boða til þessa fundar og salurinn var þétt setinn. Eftir þennan fund finnst mér almannavarnir standa sig mjög vel í að veita þær upplýsingar sem hægt er að veita þótt þær séu takmarkaðar í ljósi óvissunnar sem blasir við. Það sýnir ákveðna viðleitni sem ég kann að meta sem þingmaður svæðisins,“ segir Jóhann Friðrik og bætir við að sérfræðingar hafi lýst stöðunni eins og hún er.

„Þarna var fyrst og fremst verið að fara yfir stöðuna með atvinnulífinu í Grindavík eins og almannavarnir sjá hana. Þarna fóru sérfræðingar almannavarna yfir málin og einnig var reynt að svara spurningum atvinnurekenda milliliðalaust. Þeim var einna efst í huga hvort menn væru með einhverja tímalínu í huga varðandi hvort hægt verði að veita einhvers konar aðgengi að Grindavík. Hvort sem það yrði í einhvers konar hólfum eftir því hvernig bærinn er farinn eða annað.“

Jóhann segir fundinn hafa verið gagnlegan fyrir þingmennina eins og aðra.

„Þetta voru einnig ákaflega gagnlegar upplýsingar fyrir okkur þingmenn. Við sem erum á Suðurnesjunum höfum auðvitað áhyggjur af stóru myndinni og hvernig þetta kemur til með að þróast. Upplýsingagjöf sem þessi er því mjög góð til að maður átti sig á því sem fram undan er og þeirri vinnu sem er í gangi. Ég tel að það hafi verið ánægja með að fá það frá fyrstu hendi. Almannavarnir eru með áætlanir um að fara með jarðsjá yfir svæðið til að greina sprungur og slíkt en þetta tekur sinn tíma.“

Höf.: Kristján Jónsson