Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Við höfum ótrúlega marga staði sem henta frábærlega til að njóta þessa viðburðar. En ef við ætlum ekki að undirbúa okkur gæti þetta orðið stórslys,“ segir Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar.
Sævar og fleiri eru nú farnir að horfa til dagsetningarinnar 12. ágúst 2026 þegar hægt verður að upplifa almyrkva á sólu hér á landi. Hann kveðst telja að fjöldi ferðamanna muni leggja leið sína hingað til lands af þessi tilefni og við Íslendingar þurfum að vera undir það búnir.
„Almyrkvi á sólu er eitthvert allra fallegasta náttúrufyrirbæri sem hægt er að sjá. Fólk í þúsundavís ferðast um allan heim til að njóta þeirra. Sjálfur hef séð þrjá slíka, í Indónesíu, Síle og í Bandaríkjunum og ætla að sjá þann fjórða í Bandaríkjunum á þessu ári. Eftir þessi ferðalög veit ég að ef ekki er vel haldið á skipulagi og þess gætt að umferð gangi vel getur það breyst í öngþveiti,“ segir Sævar. Hann segir að almyrkvinn muni sjást best á Látrabjargi, Reykjanesskaga og Snæfellsnesi auk Reykjavíkur. Það geti farið eftir veðri. „Ég hugsa að búast megi við því að nokkur þúsund manns leggi leið sína hingað af þessu tilefni. Þetta verður á háannatíma í ferðaþjónustu svo það má reikna með að fólk komi bæði með flugi og skipum. Ég mun reyna að skipuleggja með Icelandair, Play, Bláa lóninu og fleirum hvernig best verður að undirbúa þetta. Ég er nú þegar búinn að senda ferðamálastjóra póst en hann hefur ekki enn svarað mér,“ segir Sævar sem kveðst hafa fengið styrk til verksins og hyggst setja upp vefsíðu bæði á ensku og íslensku þar sem stendur til að útbúa kort og reikna út lengd myrkvans svo dæmi sé tekið.
Bæta þarf innviðina
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, lagði í vikunni fram tvær fyrirspurnir á þingi er lúta að undirbúningi almyrkvans. Annars vegar spurði hann umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um það til hvaða ráðstafana verði gripið svo að unnt sé að taka á móti þeim mikla fjölda gesta sem fyrirsjáanlegt er að sækist eftir því að upplifa almyrkvann við Látrabjarg. Hin fyrirspurnin var til innviðaráðherra um það hvað verði gert svo að vegakerfið anni þessum mikla fjölda gesta.
Andrés Ingi segir í samtali við Morgunblaðið að það sé vel þekkt að fólk ferðist jafnvel heimshorna á milli til að upplifa slíka viðburði. „Við erum svo heppin að almyrkvinn sleikir Látrabjarg og er rétt við tána á Snæfellsnesi. Látrabjarg er ekki beinlínis með innviði til að taka á móti þeim fjölda sem búast má við að hingað komi. Ég vil því sjá hvað stjórnvöld hafa séð fyrir sér að gera til að geta tekið vel á móti þeim sem mæta. Mér skilst að Umhverfisstofnun hafi eitthvað verið að skoða þetta og mér heyrist að fólk fyrir vestan sé vel meðvitað,“ segir Andrés sem rifjar upp að til hafi staðið að gera endurbætur á veginum út að Látrabjargi. Sá peningur hafi svo farið í annað. „Hafi stjórnvöld verið með eitthvað á planinu gætu þau þegar verið komin á eftir áætlun.“
Næsti almyrkvi 2196
Sólmyrkvinn 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sem gengur yfir norðurslóðir, austanvert Grænland, Ísland, Atlantshaf og Spán. Almyrkvi verður þegar tunglið gengur á milli jarðarinnar og sólar þannig að það hylur algerlega sólina frá jörðu séð, að því er fram kemur á Wikipediu.
„Almyrkvinn verður sá fyrsti sem sést frá Íslandi síðan almyrkvi gekk yfir meðfram suðurströndinni 30. júní 1954 en næsti almyrkvi sem gengur yfir Ísland verður ekki fyrr en árið 2196. Almyrkvinn gengur svo yfir Atlantshaf og nær aftur landi á Spáni þar sem hann gengur þvert yfir landið norðanvert til Miðjarðarhafs og yfir Baleareyjar. Á Íslandi gengur almyrkvinn yfir Vestfirði, Snæfellsnes, Mýrar, Reykjavík og Suðurnes. Á Látrabjargi stendur almyrkvinn í 2 mínútur og 13 sekúndur en eina mínútu í Reykjavík þar sem hann hefst 17.48,“ segir þar.