Markmið mitt er að veita góða þjónustu og gera hvern viðburð að ógleymanlegri upplifun. Viðburðurinn þinn á að vera dýrmæt minning,“ segir Valdís Ósk Ottesen, eigandi og stofnandi veitingastarfseminnar Viðburðaþjóna.
Á innan við ári hefur líf Valdísar gjörbreyst en þetta starf er gamall draumur hennar sem varð síðar að veruleika. Hún segir að persónuleg þjónusta sé nauðsynleg og einn helsti galdurinn við svona störf; að virkilega hlusta á viðskiptavininn, hvað hann sér fyrir sér og hrinda því í framkvæmd. „Það fylgja því ýmis fjölbreytt verkefni að halda utan um viðburði fólks. Hver einn og einasti viðburður er mjög mikilvægur þar sem þetta er oft stund sem fólk er að upplifa drauma sína.“
Viðburðaþjónar hafa staðið að ótalmörgum og fjölbreyttum veislum, 162 viðburðum nánar tiltekið, frá smáum heimaviðburðum til 1.800 manna árshátíða. Þá má einnig geta þess að Viðburðaþjónar sáu meðal annars um brúðkaupið hjá athafnaparinu Gretu Salóme Stefánsdóttur og Elvari Þór Karlssyni sem haldið var í apríl á síðasta ári. Það heppnaðist eins og í sögu og brúðhjónin voru hæstánægð með utanumhaldið. Þá kveðst Valdís vera þakklát fyrir að vera treyst fyrir stærsta degi í lífi margs fólks.
Segir hún brúðkaupin á meðal sinna uppáhaldsviðburða og segir: „Þá eru allir svo glaðir og fínir. Þetta er minning sem verður alltaf í lífi þínu.“
„Lausnir, ekki vandamál“
Valdís er 33 ára, fædd og uppalin í Seljahverfi í Breiðholti. Í dag er hún gift Sveini Andra og eiga þau þrjá syni. Það eru þeir Alexander Helgi, Þórhallur Stefán og Mikael Máni, en síðan eru það hundarnir Gucci og Perla sem tilheyra einnig fjölskyldunni. Valdís hlaut menntun sína sem framreiðslumaður frá Menntaskólanum í Kópavogi þar sem hún útskrifaðist árið 2016. Allan starfsferilinn hefur þjónusta og framreiðsla verið rauði þráðurinn þar sem hún hefur meðal annars starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur
og Perlunni.
Hafði þá Valdís í áraraðir burðast með hugmynd sem hún vissi ekki hvernig hún ætti sjálf að útfæra og ákvað í staðinn að fresta henni. Hún náði þó að koma hugmyndinni sinni á blað þegar covid-faraldurinn skall fyrst á hér á landi. Þá náði hún að finna tíma til að byrja að skipuleggja fyrir alvöru þann rekstur sem hún sá fyrir sér. Síðan lét hún loks verða af því í mars á síðasta ári og við frábærar móttökur að auki.
„Eftir að ég stofnaði fyrirtækið hef ég fengið alls konar áskoranir á sjálfan mig og lært alls konar nýtt, enda er ég mikil keppnispía. Ég legg allt í það sem ég ætla
og fer helst alla leið fyrir viðskiptavininn.
Lykillinn er að finna lausnir og engin vandamál. Síðan er rík og góð þjónusta nauðsynleg í hvern viðburð ásamt snyrtimennsku. Ég þarf að hlusta og skapa það sem fólk vill,“ segir Valdís og ítrekar hvað hún er stolt af starfsfólki sínu, en án þess hefði þetta aldrei getað orðið að veruleika.
Tíminn líður
Álagið er þó ekki alltaf dans á rósum að sögn Valdísar en höfuðmáli skiptir að upplifa góða teymisvinnu. „Auðvitað er þetta líka mjög erfitt,“ segir hún. „Ég er með fjölskyldu sem þarf líka athygli mína og það er krefjandi að vera frá of lengi og byggja upp fyrirtæki, en mitt fólk er mitt klappstýrulið og miklu meira en það. Þau höfðu trú á þessu og studdu mig í þetta, svo við erum öll í þessu saman því án samvinnu gengur ekkert upp.“
Valdís og hennar hópur hafa nóg að skipuleggja á nýja árinu og segir hún það ótrúlega gefandi starf að geta veitt öðru fólki einstakan dag. Að hennar sögn hefur erfiði af ýmsum toga úr eigin lífi hjálpað Valdísi að gera sér grein fyrir mikilvægi sérhvers dags. „Ég hef upplifað alls konar í lífinu. Ég hef kynnst mikilli sorg og horft upp á svo margt, þannig að ég veit að hver dagur er dýrmætur,“ segir hún.
„Þess vegna er betra að elta sína drauma, láta ekkert stoppa sig og hafa trú á sér. Ég gerði það og það var langt frá því að vera auðvelt. Hver dagur skiptir máli.“