Ég held að fólk haldi oft að við séum miklu stærri en við erum en við erum bara lítið bakarí. Oft virðist fólk halda að þetta sé meiri framleiðsla en þetta er,“ segir Sylvía Haukdal Brynjólfsdóttir, annar eigandi 17 sorta. „Við erum eingöngu átta manns sem störfum hjá 17 sortum. Ég held að fólk haldi oft að þetta sé meiri framleiðsla en þetta er.“
Auður Ögn Árnadóttir, hinn eigandi 17 sorta, tekur undir það. „Við gerum allar kökur í höndunum á nákvæmlega sama hátt og ef ég væri að gera þær í eldhúsinu heima hjá mér. Þetta er alvöru íslenskt handverk og ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því.“
Lítil búð inni í Hagkaup
Auður Ögn stofnaði bakaríð 17 sortir árið 2015 en hún var lengi búin að ganga með þessa hugmynd í maganum. „Ég var ekkert viss um að ég ætlaði að gera eitthvað í þessum draumi mínum en svo sá ég auglýst pláss niðri á Granda í gömlu verbúðunum. Mér fannst það svo rosalega sjarmerandi staður að ég hugsaði með mér að ég myndi prufa að henda inn umsókn, það yrði örugglega svo mikil aðsókn í þetta að ég fengi plássið örugglega ekki. Svo hafði ég bara rangt fyrir mér. Ég var ein í sex ár með 17 sortir í Granda og svo opnaði ég í Kringlunni. Þá kemur Covid, ég dreg aðeins saman seglin með því að loka á Granda og halda búðinni í Kringlunni opinni,“ segir Auður sem fór þá að endurskoða hvað hún vildi gera með bakaríið og hvert hún vildi stefna.
„Ég fór því til Hagkaups með þá hugmynd að ég yrði með litla búð inni í búðinni í Smáralind. Þetta var mikil breyting, eiginlega svolítið eins og að stofna fyrirtæki upp á nýtt. Það þurfti að opna nýja vinnslu, loka búðum, skoða nýjar umbúðir og fleira í þeim dúr.“
Þekktumst ekki áður en við urðum meðeigendur
Auður talar um að á þessum tímapunkti hafi sér ekki fundist hún anna þessu því það var svo mikið um að vera. „Mig var lengi búið að dreyma um að hafa meðeiganda í fyrirtækinu, einhvern sem ég gæti stutt mig við, góðan stuðningspúða fyrir hugmyndir og bara til að vera með mér í þessu. Eva Laufey; markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups, leiddi okkur Sylvíu svo saman en við tvær þekktumst ekki áður,“ segir Auður og hlær þegar blaðamaður hváir.
Sylvía grípur orðið: „Við erum báðar svo hressar og skemmtilegar að þetta gat ekki annað en verið gott. Ég var með mitt eigið bakarí sem ég opnaði einmitt þegar Covid var að byrja og það lifði faraldurinn ekki af. Ég ætlaði mér því alls ekki í þennan pakka aftur og var komin með upp í kok. En svo hringdi Auður og einhvern veginn er ég komin hingað og búin að vera í ár. Það munar mjög miklu að vera tvær saman í þessu, að geta stutt hvor aðra og komist einstaka sinnum í frí.“
Auður tekur undir það og segir að innkoma Sylvíu hafi alveg breytt leiknum fyrir sig. „Ég finn það eftir að Sylvía kom inn að ég var búin að reyna alltof lengi að vera ein í þessu. Ég finn svo svakalega mikinn mun. Ég held að þrjóska hafi haldið mér í þessu því þegar þú ert ein þá ertu aldrei í hvíld, þú ert alltaf í vinnunni.“
Allar veitingarnar í stíl
Eins og áður sagði eru 17 sortir með litla búð inni í Hagkaup í Smáralind og þar er bakaríið líka. Þaðan eru vörur sendar út í allar Hagkaupsverslanir ásamt því að vera með sérpantanir fyrir einstaklinga og fyrirtæki. „Við erum komnar með fimm útsölustaði í staðinn fyrir að vera bara með okkar eigin búð og það breytir töluvert miklu. Þetta er mikill þægindaauki fyrir viðskiptavininn,“ segir Sylvía. „Það eru ákveðin þægindi að þurfa ekki að gera sér sérferð í einhverja kökubúð heldur geturðu gripið köku með þér þegar þú verslar.“
Aðspurðar hvað sé vinsælast hjá þeim segja Auður og Sylvía að það sé mikið um tískusveiflur í þessu sem öðru, bæði hvað varðar bragð og útlit. Sylvía talar um að í gamla daga hafi fólk kannski verið með hlaðborð af marenstertum.
„Í dag hefur fólk færri tegundir en kaupir það frekar tilbúið. Og svo er þetta smá eins og að vera með listaverk á borðinu að vera með eina svona köku í stað þess að vera með fullt borð.“
Auður tekur undir það og bætir við að það sé líka vinsælt að hafa allar veitingarnar í stíl. „Ef viðskiptavinur pantar til dæmis hjá okkur litlar bollakökur, makkarónur og stóra tertu á tveimur hæðum þá höfum við það allt í stíl. Það er til dæmis mjög vinsælt að kaupa svona 90 bita veislubakka á borðið með alls konar gúmmelaði, það hentar fyrir alla og er fallegt líka.“
Hugleiðsla að baka
Auður og Sylvía hafa báðar haft áhuga á bakstri og matargerð frá unga aldri. Sylvía talar um að móðir hennar hafi kveikt áhugann hjá sér en hún ólst upp úti á landi. „Það var alltaf verið að baka 100 sortir og alltaf eitthvert bakkelsi til. Ég var einhvern veginn alltaf að dúllast með mömmu í eldhúsinu að baka og svo hélt ég bara einhvern veginn áfram. En ég fattaði ekki fyrr en ég fullorðnaðist að þetta væri eitthvað sem ég gæti unnið við. Ég er svona ör manneskja sem getur ekki setið við tölvu, ég þarf að vera að gera eitthvað.“ Þá talar Auður um að maður fái mjög mikla útrás fyrir sköpunarþörfina að gera kökur. „Ég er að skapa og búa til eitthvað nýtt. Engin kaka er eins og önnur.“
Sylvía tekur undir það og bætir við að þegar bakstur sé eitthvað sem maður hafi áhuga á líka þá verði þetta svona hálfgerð hugleiðsla. Sérstaklega þegar þær fái frjálsar hendur. Uppáhaldskúnnarnir séu þeir sem gefi þeim frjálsar hendur. „Þá gerast bestu hlutirnir,“ segir Sylvía og þær hlæja báðar.
„Við vinnum ótrúlega vel saman,“ segir Auður og Sylvía er sammála. „Við erum nógu líkar til að þola hvor aðra. Nógu ólíkar og nógu líkar. Við erum báðar þannig að við tökum hlutina svolítið á hörkunni og erum báðar með sterka sýn.
Ef það er eitthvað sem við viljum láta ganga upp þá gerum
við það,“ segir Sylvía að lokum.