Í 22 mínútur varaði Milei alla heimsbyggðina við því hvernig sósíalismi, í hinum ýmsu myndum, hefur náð að skjóta rótum í stjórnsýslu, menntakerfum og hagstjórn þjóða og breitt úr sér innan alþjóðastofnana.
Í 22 mínútur varaði Milei alla heimsbyggðina við því hvernig sósíalismi, í hinum ýmsu myndum, hefur náð að skjóta rótum í stjórnsýslu, menntakerfum og hagstjórn þjóða og breitt úr sér innan alþjóðastofnana. — AFP/Fabrice Coffrini
Það er orðið að reglu að þegar Alþjóðlega efnahagsstofnunin (WEF) heldur árlega ráðstefnu sína í Davos gefur Ofxam út langa skýrslu þar sem athafnamönnum, frjálsum markaði og ójöfnuði er kennt um öll heimsins vandamál

Það er orðið að reglu að þegar Alþjóðlega efnahagsstofnunin (WEF) heldur árlega ráðstefnu sína í Davos gefur Ofxam út langa skýrslu þar sem athafnamönnum, frjálsum markaði og ójöfnuði er kennt um öll heimsins vandamál.

Það er líka árviss atburður að fjölmiðlar um allan heim endurbirti fullyrðingar Oxfam gagnrýnislaust, og ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að hagfræðingar og fréttaskýrendur birta ítarlegar greinar þar sem bent er á reiknikúnstir, gloppur og göt sem ógilda málaflutning samtakanna.

Einhverra hluta vegna náði boðskapur Oxfam ekki miklu flugi í ár en prédikunin í þetta skiptið er í stuttu máli á þá leið að fimm ríkustu menn heims hafi auðgast heilan helling síðan 2020 en að fimm fátækustu milljarðar jarðarbúa hafi á sama tíma orðið fátækari. Að mati Oxfam kallar þetta á að stórefla hið opinbera, auka hlut ríkisrekstrar í hagkerfinu, láta höggin dynja á einkageiranum og – grínlaust – færa eignarhald á fyrirtækjum í hendur starfsfólksins.

Ástæðan fyrir því að erindi Oxfam náði ekki jafn mikilli útbreiðslu nú og oft áður er kannski sú að fréttatilkynning og samantekt stofnunarinnar þetta árið er óvenju samhengislaus og óskýr, þar sem úir og grúir af alls konar bútum um auðmyndun annars vegar og efnahagsleg vandamál hins vegar án þess að sýnt sé fram á nokkurt orsakasamhengi. Eða ef til vill eru blaðamenn einfaldlega hættir að taka mark á því sem frá Oxfam kemur.

Sjálfur nenni ég varla að hrekja skýrsluna að þessu sinni, líkt og ég gerði 2020, 2022 og 2023; og raunar þarf ég þess ekki því Javier Milei mætti til leiks í Davos og flutti þar eina sterkustu málsvörn kapítalisma og efnahagsfrelsis sem heyrst hefur í langan tíma.

Milljónir manna leggja við hlustir

Í mannkynssögunni má finna nokkrar ræður sem mörkuðu kaflaskil fyrir heimsbyggðina alla.

„Leyniræða“ Krútsjevs á allsherjarþingi sovéska kommúnistaflokksins í febrúar 1956 markaði t.d. upphafið að uppgjörinu við voðaverk Stalíns og suma ljótustu bresti sósíalismans. Nokkrum árum síðar, í ágúst 1963, ávarpaði Martin Luther King skarann af tröppum minnismerkis Lincolns í Washington, og brýndi fyrir heilli kynslóð að segja skilið við löngu úrelta kynþáttafordóma og mismunun. Í júní 1987 mætti svo Ronald Reagan til Berlínar og sagði hátt og snjallt: „Hr. Gorbachev; rífðu niður þennan múr.“

Þann 17. janúar 2024 steig Javier Milei á svið í Davos og sagði: „Ekki leyfa ríkinu að vaxa. Ríkið er ekki lausnin. Ríkið er vandamálið.“

Þegar þetta er ritað hafa meira en 420.000 manns hlýtt á erindi Milei í gegnum YouTube-síðu WEF, en til samanburðar hafa 17.000 smellt á ræðu Volodomírs Zelenskís á ráðstefnunni, og 22.000 hlustað á það sem Emmanuel Macron hafði að segja fundargestum í Davos.

Ótal miðlar hafa síðan endurbirt 22 mínútna langa ræðuna í heild sinni og má áætla að bara á YouTube hafi einhvers staðar á bilinu fimm til tíu milljónir manna hlustað á Milei vara við því að Vesturlöndum stafi ógn af sósíalisma, og að alls staðar þar sem sósíalismi, miðstýring og sameignarstefna hafi náð yfirhöndinni hafi stöðnun, eymd og fátækt fylgt í kjölfarið.

Halda þarf uppi vörnum

Ræða Milei er of löng til að endurbirta hér í heild sinni, en hún er full af gullmolum sem gott er að halda til haga.

„Ég er kominn hingað í dag til að segja ykkur að hinn vestræni heimur er í hættu. Hættan kemur til af því að þeir sem eiga að verja vestræn gildi hafa í staðinn gengið á hönd hugmyndafræði sem óhjákvæmilegt er að leiði til sósíalisma og þar með til fátæktar,“ byrjaði hann ræðu sína.

„Því miður hafa helstu leiðtogar Vesturlanda á undanförnum áratugum hætt að beita sér fyrir frjálshyggju og í staðinn gerst málsvarar sameignarstefnu. Sumir hafa haldið inn á þessa braut af góðum ásetningi, með það fyrir augum að hjálpa samborgurum sínum, en aðrir hafa látið stjórnast af því að vilja tilheyra pólitískri forréttindastétt. Ég er hingað kominn til að segja ykkur að hvers kyns tilraunir með sameignarstefnu hafa aldrei hjálpað til að leysa úr þeim vandamálum sem mannkynið glímir við. Þvert á móti hafa slíkar tilraunir reynst vera rót vandans. Þið getið treyst því sem ég segi, því Argentínumenn hafa meira en nokkur önnur þjóð fengið að reyna þetta á eigin skinni.

Þrjátíu og fimm árum eftir að við ákváðum að hafa frelsið að leiðarljósi, árið 1860, vorum við leiðandi á heimsvísu. En undanfarin hundrað ár fékk sameignarstefna að vega æ þyngra og með kerfisbundnum hætti urðu íbúar landsins fátækari og fátækari [.]“

Augljós munur á frelsi og ófrelsi

Í ræðunni minnti Milei m.a. á þá staðreynd að saga mannkyns einkenndist af efnahagslegri stöðnun allt fram á 19. öld, þegar kraftar kapítalismans og hins frjálsa markaðar voru loksins leystir úr læðingi svo að hagvöxtur fór á fleygiferð og landsframleiðsla á hvern jarðarbúa jókst með vaxandi hraða. „Við ættum að hafa það hugfast að árið 1800 bjuggu 95% íbúa jarðar við sára fátækt, en árið 2020 var hlutfallið komið niður í 5%. Það blasir við hvaða ályktun við eigum að draga af þessari þróun. Frekar en að vera orsök þeirra vandamála sem við glímum við í dag hefur kapítalismi og frjáls markaður reynst vera eina kerfið sem orðið hefur að gagni við að binda enda á hungur og fátækt um gervalla plánetuna. Það er óumdeilanlegt hvað reynslan ætti að kenna okkur.“

Tölurnar tala sínu máli: „Þau lönd þar sem frelsið er meira eru 12 sinnum ríkari en ófrjálsu löndin. Hjá frjálsu ríkjunum er hlutskipti fátækasta prósentsins betra en hlutskipti 90% íbúa ófrjálsu landanna. Hjá frjálsu ríkjunum er fátækt 25 sinnum minni og sárafátækt 50 sinnum minni. Í frjálsum löndum lifir fólk 25% lengur en í þeim löndum sem eru ófrjáls.“

En hvað með markaðsbresti? Þurfa ekki stjórnvöld að grípa inn í hér og þar til að tryggja að hinn frjálsi markaður fari ekki úr böndunum? „Ef einhver telur að markaðsbrestur hafi átt sér stað þá ætti sá hinn sami að skoða vandlega hvort ríkisafskipti hafi komið þar við sögu. Og ef það var ekki raunin, þá ætti sá hinn sami að skoða málið enn betur, því það er í reynd ekkert til sem heitir markaðsbrestur,“ sagði Milei og undirstrikaði að markaðurinn byggir á frjálsri ákvarðanatöku og samvinnu þar sem enginn er þvingaður til að kaupa eða selja nokkurn hlut. „[En með því að grípa fram fyrir hendur markaðarins] er verið að opna glufu til að hleypa sósíalismanum að og vinna gegn áframhaldandi vexti efnahagskerfisins.“

Argentína er víða

Milei lauk ræðunni á því að brýna fyrir athafnafólki um allan heim að spyrna fótum við uppivöðslusemi valdagráðugra stjórnmálamanna og afskiptaseggja sem vilja leggjast upp á samborgara sína: það sé athafnafólkinu að þakka að hagsæld hefur – þrátt fyrir allt – aldrei verið meiri. Í þessum efnum ætti reynsla Argentínu að vera öðrum víti til varnaðar:

„Argentína sýnir okkur að það gildir einu hversu efnað þjóðfélag kann að vera, hve gjöfulum náttúruauðlindum lönd hafa á að skipa, hversu hæfileikaríkt og menntað vinnuaflið er, eða hve margar gullstangir eru geymdar hjá seðlabankanum. Ef inngripum er beitt sem draga úr frelsi markaðarins, minnka samkeppni, raska eðlilegri verðmyndun og vega að eignarréttinum, þá bíður þjóða ekkert nema fátæktin.“