Dönsk Sarah Mortensen hefur komið af krafti í lið Grindvíkinga.
Dönsk Sarah Mortensen hefur komið af krafti í lið Grindvíkinga. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Haukar fóru í gærkvöldi upp í fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með 74:65-heimasigri á Stjörnunni í 14. umferðinni. Haukar fóru þar með upp fyrir Þór frá Akureyri sem mátti þola 72:85-tap fyrir Grindavík á heimavelli

Haukar fóru í gærkvöldi upp í fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með 74:65-heimasigri á Stjörnunni í 14. umferðinni. Haukar fóru þar með upp fyrir Þór frá Akureyri sem mátti þola 72:85-tap fyrir Grindavík á heimavelli.

Deildinni verður skipt í efri og neðri hluta eftir 16 umferðir og taka liðin með sér stigin þangað. Haukum nægir sigur á Fjölni í 16. umferð næstkomandi þriðjudag til að gulltryggja sér fimmta sætið og í leiðinni sæti í efri hlutanum.

Erfitt hjá Þórsurum

Þór þarf að vinna topplið Keflavíkur og treysta á að Haukar tapi óvænt og er því óhætt að segja að Haukakonur séu með pálmann í höndunum í baráttunni um sæti í efri hlutanum.

Keira Robinson skoraði 18 stig og tók 12 fráköst fyrir Hauka. Denia Davis-Stewart skoraði 18 stig og tók 16 fráköst fyrir Stjörnuna, sem er í fjórða sæti og örugg með sæti í efri hlutanum.

Sarah Mortensen skoraði 28 stig og tók 16 fráköst fyrir Grindavík, sem er einnig örugg með sæti í efri hlutanum, gegn Þór. Lore Devos skoraði 22 stig fyrir Þór. Mortensen, sem er dönsk landsliðskona, hefur styrkt Grindavíkurliðið verulega og farið mjög vel af stað.

Þá vann Njarðvík afar sannfærandi 92:59-sigur á Snæfelli á útivelli. Njarðvík er áfram í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Keflavíkur sem á leik til góða. Snæfell er sem fyrr í botnsætinu með fjögur stig.

Selena Lott skoraði 26 stig fyrir Njarðvík og tók 11 fráköst. Mammusu Secka skoraði 21 fyrir Snæfell.