Félagslegir þættir sjálfbærni verða í forgrunni á Janúarráðstefnu Festu sem fer fram í Hörpu á morgun, 25. janúar, klukkan 13.00. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega síðan árið 2013 og er sú stærsta á sviði sjálfbærni á Íslandi. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er: Við skrifum mannkynssöguna.
Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Festu segir að mikilvægt sé að setja félagslegu þættina í forgrunn og einblína á lausnir.
„Við höfum á undanförnum árum lagt áherslu á umhverfisþætti á ráðstefnunni en í ár erum við að minna á að það eru fleiri þættir sem falla undir sjálfbærni líkt og félagslegir þættir, stjórnun og hagkerfi,“ segir Elva og bætir við að það sé mikilvægt að byggja upp sterka leiðtoga til að ráða við áskoranir samtímans.
„Við erum að glíma við áskoranir í umhverfismálum en líka á félagslega sviðinu. Til dæmis á sviði lýðræðis og friðar. Einnig er mikilvægt að huga að því að þetta er langtímaverkefni en ekki aðeins til skamms tíma. Árangur okkar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum stendur og fellur með því hvort okkur takist að byggja samfélagslegan grundvöll sem brýn og áríðandi umhverfisverkefni geta staðið á,“ segir Elva.
Frumkvöðlar og forstjórar koma fram
Framsögumenn eru erlendir og innlendir sjálfbærnileiðtogar. Aðalfyrirlesarar eru Sandrine Dixson-Declève, forseti Club of Rome, sendiherra Wellbeing Economy Alliance – WEAll, þar sem Ísland er ein af leiðandi þjóðum, Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, Róbert Spanó, meðeigandi Gibson, Dunn & Crutcher LLP og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar. Enn fremur eru á dagskrá örerindi þar sem Þórey Vilhjálmsdóttir stofnandi Öldu, Katie Hodgetts, stofnandi The Resilience Project, Andri Guðmundsson stofnandi Vaxa, Tómas N. Möller, formaður Festu og Gunnar Sveinn Magnússon, sjálfbærnistjóri hjá Deloitte, munu taka þátt.
Fleiri frumkvöðlar og forstjórar munu jafnframt taka þátt. Markmiðið er að ræða áskoranir sem stjórnendur fyrirtækja þurfa að takast á við til að efla sjálfbærni í starfseminni. Meðal þátttakenda eru Ásta Fjeldsted forstjóri Festi, Andri Snær Magnason rithöfundur, Þorgerður María Þorbjarnardóttir formaður Landverndar, Þorsteinn Kári Jónsson, forstöðumaður sjálfbærni og samfélagstengsla hjá Marel, Guðný Nielsen stofnandi SoGreen, Stefán Baxter framkvæmdastjóri Snjallgagna, Rakel Garðarsdóttir, frumkvöðull og framleiðandi, og Halldór Björnsson, fagstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofunni.
Elva segir mikilvægt að fá fólk úr ólíkum áttum með ólíkan bakgrunn til að nálgast viðfangsefni ráðstefnunnar.
„Við erum að púsla saman fólki úr ólíkum áttum til að mæta á ráðstefnuna og ræða þessi mál. Með þeim hætti erum við líklegri til að finna lausnir á þessu vandamáli samtímans.“
Hún bætir við að mikilvægt sé að víkka fókusinn til að skilja margbreytileika viðfangsefnisins.
„Ef við nálgumst viðfangsefnið of þröngt þá erum við að skapa áhættu sem felst í því að við munum ekki ná markmiðum okkar í umhverfismálum innan þess tímaramma sem við höfum sett okkur,“ segir Elva að lokum.