Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica vill að fólki líði vel í vinnunni og nýti hæfileika sína.
Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica vill að fólki líði vel í vinnunni og nýti hæfileika sína.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við tökum því alvarlega þegar lyf eru ófáanleg á landinu, það er okkar helsta áskorun. Ef mikilvæg lyf eru ekki til á landinu getur það haft lífshættulegar afleiðingar. Þegar það ástand skapast gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að útvega…

Við tökum því alvarlega þegar lyf eru ófáanleg á landinu, það er okkar helsta áskorun. Ef mikilvæg lyf eru ekki til á landinu getur það haft lífshættulegar afleiðingar. Þegar það ástand skapast gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að útvega þau lyf, bregðumst hratt við og það hefur gerst að starfsmaður Distica hefur flogið utan til að sækja lyf,“ segir Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica en fyrirtækið er leiðandi í innflutningi og dreifingu á lyfjum, lækningatækjum og heilbrigðistengdum vörum.

„Við erum mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og þar sem við erum með 70% markaðshlutdeild í lyfjum er vægi okkar mikið. Á hverjum einasta degi gerum við okkar besta til að tryggja aðgengi að lyfjum og lækningatækjum í landinu.“

Strangar kröfur við meðhöndlun lyfja

Júlía Rós talar um að önnur áskorun sem Distica stendur frammi fyrir þessa dagana sé vaxtarverkir en fyrirtækið hefur vaxið hratt undanfarin ár. „Það eru smá vaxtarverkir núna en fókusinn á þessu ári er að vinna úr þessum vaxtarverkjum, stækka húsnæðið og besta ferla. Okkar framtíðarsýn er að halda áfram á stafrænni vegferð en sem liður í okkar þjónustuvegferð hefur fókusinn verði á stafrænum lausnum undanfarin ár.

Fyrir ekki svo mörgum árum snerist vörustýring og heildsala aðallega um að flytja vörur frá A til B en núna snýst hún einnig um upplýsingatækni. Okkur er mikið kappsmál að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og því höfum við þróað viðskiptavinagátt þar sem viðskiptavinir geta nálgast allar þær upplýsingar sem þeir þurfa varðandi viðskipti sín við Distica,“ segir Júlía Rós.

„Birgðastýring lyfja er krefjandi, það getur verið snúið að bregðast við aukinni eftirspurn eftir lyfjum því framleiðsluferlin eru flókin og gæðakröfur strangar. Við leitum allra leiða til að útvega lyf sem eru ekki fáanleg á landinu. Oftar en ekki eru staðkvæmdarlyf eða aðrir styrkleikar í boði en undanfarið höfum við heyrt dæmi í fjölmiðlum um aukna eftirspurn eftir ákveðnum lyfjum um allan heim og þá er staðan orðin flóknari og framleiðendur stýra magni inn á markaði.“

Eingöngu konur í framkvæmdastjórn Distica

Að mörgu leyti er Distica einstakt fyrirtæki, að sögn Júlíu. „Distica á sögu að rekja aftur til ársins 1956 en þá tóku apótekarar sig saman og stofnuðu lyfjaheildsölu. Það er mikil þekking og reynsla innan fyrirtækisins, hár starfsaldur og fyrir það erum við afar þakklát.

Í starfsmannahópnum er mjög svipað hlutfall af konum og körlum og ef við skoðum allt stjórnendateymi fyrirtækisins þá eru konur fleiri en karlar. Í framkvæmdastjórn Distica eru eingöngu konur,“ segir Júlía og talar um að það sé einstakt og hópurinn sé mjög samstíga í að reka fyrirtækið.

„Það er mikilvægt að halda í fjölbreytileikann, þannig eru bestu ákvarðanirnar teknar. Fjölbreytileikinn getur hins vegar verið alls konar. Þó við séum allt konur í framkvæmdastjórn þá erum við mjög ólíkar, við erum með ólíkan bakgrunn, menntun og komum frá ólíkum stöðum á landinu þannig að þetta er nokkuð fjölbreyttur hópur þó að kynið sé það sama.“

Skiptir mig miklu máli að gera gagn

Aðspurð segir Júlía Rós að hún sé í mjög gefandi starfi en hún hefur starfað við lyfjabransann í yfir tuttugu ár. „Ég hef tvisvar sinnum prófað að fara úr lyfjabransanum, en ég fann fljótt að það skiptir mig miklu máli að vera í starfi sem er gefandi og að ég sé að gera gagn. En á sama tíma fylgir því meira álag að vera í starfi með eins mikilvæga vöru og lyf eru,“ segir Júlía og bætir við að hún hafi sannarlega mikinn metnað fyrir starfi sínu og því að ná árangri.

„Ég geri hins vegar ekkert án þess að hafa gott fólk með mér og því er mér mikilvægt að halda vel utan um samstarfsfólk mitt og byggja upp góð teymi. Mér er mjög annt um að Distica sé góður vinnustaður, ég vil að fólki líði vel í vinnunni og sé að nýta hæfileika sína sem best. Það er verkefni sem við viljum alltaf einblína á því við erum öll ólík og viljum ólíka hluti.“

Styðjum hver aðra

Og Júlía gleymir ekki heldur að sinna sjálfri sér en símtalið við blaðamann er einmitt tekið í Barcelona þar sem hún stundar nám í Advanced Management Program við Business School Barcelona.

„Heimurinn hefur aldrei verið eins hraður og hann er núna, það verða til ógrynni af upplýsingum á hverri einustu sekúndu þannig að það er mjög mikilvægt að vera í takti við tímann og fylgjast með því sem er að gerast. Ég hef alltaf reynt að mennta mig samhliða starfinu,“ segir Júlía sem byrjaði starfsferilinn sem lyfjatæknir en hefur jafnt og þétt bætt við sig menntun og er með meistarapróf í viðskiptafræði auk þess að vera með diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun, og diplóma í mannauðsstjórnun auk kennsluréttinda.

En hvað gerir Júlía til að hlaða batteríin, ekki síst þegar álagið er mikið? „Ég nærist á því að vera úti og hreyfa mig. Ég er í mjög skemmtilegum og gefandi vinkvennahóp sem hefur brasað ýmislegt saman, við tókum til dæmis þátt í Vasaloppet sem er 90 km gönguskíðakeppni í Svíþjóð. Það er svakalega gaman og ég mæli með því.

Við höfum einnig tekið Landvættina saman og við erum líka duglegar að hittast á fjalli og ræða áskoranir í vinnu. Það gerum við bæði til að hreyfa okkur og fá ferskt loft en líka til þess að fara yfir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og styðja hver aðra.“