Guðbjörg Jóhannsdóttir var fædd í Bolungarvík 29. apríl 1927. Hún lést umvafin fjölskyldu sinni á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Lína Dalrós Gísladóttir, f. 22. september 1904, d. 14.12. 1997 og Jóhann Sigurðsson, f. 5.8. 1891, d. 27.8. 1932. Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson, f. 9.7. 1911, d. 1.10. 1996.

Systkini Guðbjargar eru: Guðmunda, f. 1922, d. 1995, Gísli, f. 1923, d. 1989, Guðbjörg Kristín, f. 1925, d. 1926, Óskar, f. 1928, Áslaug, f. 1929, d. 2009, Jóhann, f. 1930, d. 2020, Alda, f. 1935, d. 2011, Herbert, f. 1936, d. 1985, Sigurvin, f. 1937, d. 2012, Sveinn, f. 1939.

Fyrri maður Guðbjargar var Kristjón Ágústsson Tromberg, f. 1922, d. 1969. Þau skildu.

Þau eignuðust fimm börn. Börn þeirra eru:

a) Guðrún, f. 1945. Eiginmaður er Gylfi Knudsen. Þau eiga þrjú börn.

b) Laufey, f. 1946. Eiginmaður Sverrir Þórólfsson. Þau eiga þrjár dætur.

c) Linda Rós, f. 1948. Eiginmaður Sigurður Gunnarsson. Þau eiga þrjú börn.

d) Steingrímur, f. 1950, d. 2005.

e) Jóhann, f. 1952. Eiginkona Kristín Egilsdóttir. Hún átti fyrir tvö börn.

Seinni maður Guðbjargar var Kristinn Finnbogason, f. 1927, d. 1991.

Börn þeirra eru:

f) Rúna, f. 1958. Eiginmaður Einar Örn Þorvarðarson. Þau eiga þrjú börn.

g) Finnbogi, f. 1960. Eiginkona Sólveig Birgisdóttir. Þau eiga fimm börn.

h) Hjörtur, f. 1961. Eiginkona Dagný Emma Magnúsdóttir. Þau eiga tvö börn.

i) Anna, f. 1963. Eiginmaður Gunnar Örn Harðarson. Þau eiga þrjá syni.

j) Árni, f. 1970. Eiginkona Ingibjörg Jónsdóttir. Þau eiga þrjú börn.

Árið 1996 hitti Guðbjörg Sigurð Gíslason frá Bolungarvík sem varð hennar lífsförunautur næstu 20 árin. Sigurður lést árið 2016.

Guðbjörg ólst upp í Bolungarvík til sjö ára aldurs en þá var hún send í fóstur til föðursystur sinnar Guðrúnar Sigurðardóttur til Reykjavíkur eftir að faðir Guðbjargar lést frá sex börnum. Guðbjörg gekk í Miðbæjarskólann og síðan í Gagnfræðaskólann og loks í kvöldskóla að læra vélritun og ensku. Hún réðst til starfa hjá Ellingsen þegar hún var 15 ára og starfaði þar þangað til hún varð ófrísk að sínu fyrsta barni.

Hún sinnti uppeldi barna sinna og húsmóðurstörfum á erilsömu heimili allt til ársins 1991, þegar Kristinn lést. Þá fluttist hún í Rauðagerði 10 í Reykjavík.

Guðbjörg bjó síðan í Rauðagerði 29 ásamt Önnu dóttur sinni og fjölskyldu hennar frá árinu 1997 til ársins 2015.

Árið 2015 veiktist Guðbjörg alvarlega og í framhaldi flutti hún í þjónustuíbúð í Lönguhlíð 3. Þar dvaldist hún fram til síðasta dags.

Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 24. janúar 2024, klukkan 13.

Streymi:

https://www.mbl.is/go/nyepr

Í dag kveðjum við elskulega móður og tengdamóður.

Hún var umhyggjusöm, vinarækin, bjartsýn og nægjusöm, en umfram allt yndisleg manneskja sem laðaði alla að sér sem kynntust henni.

Hún var einstaklega jákvæð og hafði ákveðið orðatiltæki oft á takteinum þegar eitthvað gerðist, „verra gat það verið“. Alltaf sá hún björtu hliðarnar á öllu.

Síðustu árin hafa verið henni æ erfiðari vegna veikinda og minnkandi lífsgæða en hún kvartaði aldrei og frekar lét hún sér annt um líðan annarra.

Takk fyrir öll yndislegu árin og ekkert nema óendanlega góðar minningar elsku mamma og tengdamamma. Þú hefur kennt okkur svo ótal margt gott.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Jóhann og Kristín.

Mamma mín átti mörg líf, 10 börn, þrjá menn, marga ketti, hunda, alifugla, geitur og reyndar líka alla fugla sem flugu í nágrenni heimilis hennar, hvar sem hún bjó. Hún átti líka blóm, sín eigin og öll vanrækt blóm sem hún komst í tæri við. Hún nærði allan þennan hóp með ást, mat, sögum og kærleika – allt eftir því hvað átti við á hverri stundu. Hún réð ekki alltaf tíma sínum og skyldurnar voru margar og miklar, en öllu sinnti hún vel og fallega. Hún var trú yfir litlu og hún var trú yfir miklu. Og það hlýtur að vera að hún hafi verið í náðinni hjá almættinu miðað við hvað hún bað margar bænir yfir ævina, ekki bara fyrir sjálfri sér heldur fyrir landi og þjóð og okkur öllum sem hún unni. Hún saumaði líka föt á börnin og svo á yngri börnin úr efnunum sem voru í fötunum á eldri börnin, en auðvitað ekki fyrr en fötin voru orðin of lítil á þau eldri. Hún bakaði allar sortirnar sem ég baka ekki og allar hinar líka. Hún eldaði líka dásamlegan mat og fiskibollur með síld sem enginn kann að gera. Og svo hló hún og hló og oft þegar hún horfði á sjónvarp endurtók hún söguþráðinn í leiðinni og jafnvel í gegnum síma þegar eitthvert okkar mátti ekki missa af góðri mynd. Hún ferðaðist mikið og hafði heimsótt allar heimsálfur og gengið á rauðum dregli við heimsókn til annars lands, talaði dönsku og ensku og kannski norsku. Hún skrifaði a.m.k. fólki um allan heim á tungu þess og fór vel með það. Hún hljóp fallega, með hatt og veski og var alltaf bein í baki, líka þegar hún var orðin 96 ára og komin á sprettinn með göngugrindina á leið í boccia eða í bingó. Hún elskaði tónlist, klassíska píanótónlist, harmonikkulög og rómantíska kvikmyndatónlist, Louis og Ellu og Guðrúnu Á. Símonar og svo dansaði hún við alla þessa tónlist – afar fallega, ekki alltaf ein og væntanlega sjaldan því hún var umsvermuð eins og sagt var í eina tíð. Hún elskaði líka veislur og mannamót og hafði setið margar veislur þar sem boðskortin voru með gullstöfum og skjaldarmerkjum og þjónarnir voru fleiri en gestirnir en okkar prívat veislur með mömmu, sagði hún, voru alltaf bestar. Mamma var að vestan, frá Bolungarvík þar sem Bolafjallið rís hæst og amma Lína bjó í litlu húsi með stóran garð. En hún varð borgarbarn fljótt; eftir að pabbi hennar dó frá sex börnum þá var hún fimm ára send í fóstur í borg, og borgin hlýtur líka að hafa elskað mömmu því hún var best alls staðar þar sem hún kom.

Hún söng í kór og gekk í Miðbæjarskólann og eignaðist vinkonur sem hún hélt tryggð við alla ævi. Borgin gaf henni sögu, tækifæri, ást, rómantík og trú á lífið og ævintýrin og 70 afkomendur. Ég, barn númer sex sem svaf í kommóðuskúffu fyrstu mánuði lífs míns, þakka fyrir allt; ástina, kærleikann og skjólið fyrir því sem við tölum ekki um og upprisuna sem markaði nýja tíma fyrir þig og okkur öll. Elsku mamma, hvað ég á eftir að sakna þín.

Rúna Kristinsdóttir.

Elsku mamma, nú kveðjumst við í bili. Ég hefði viljað hafa þig hjá mér lengur en þinn tími var kominn. Þú hafðir sjálf kvatt svo margt samferðafólk og ég er viss um að það hefur verið tekið vel á móti þér, bæði menn og máleysingjar. Við höfum átt gott líf saman og þú kenndir mér svo margt sem ég hef reynt að tileinka mér. Ég var svo heppin að fá að búa með þér um langt árabil. Það voru forréttindi.

Þú áttir mikið líf með alla vega áskorunum, en þú sigraðir þær allar. Þú varst jákvæðasta manneskja sem ég hef nokkru sinni hitt og hjartahlýjan tók yfir þegar þú varst á staðnum. Það var sama hvert þú fórst, þú vildir alltaf vita hvernig fólk hefði það og eyddir öllum spurningum um þig eða þína heilsu. Listin að hlusta á fólk er sjaldgæf og einfaldlega ómetanleg. Þú hlustaðir alltaf.

Og svo varstu alltaf tilbúin í ævintýrin, alltaf óhrædd, tilbúin í dansinn, veisluna eða ferðalagið. Hlóst svo innilega að bíómyndunum, sagðir frá sögunum sem gerðust í gamla daga, spilaðir við börnin, last upp úr blöðunum eða gafst okkur úrklippur sem þú vildir að við læsum, gafst fuglunum, gerðir við saumsprettur, hugsaðir um blómin, bakaðir pönnukökur og umvafðir okkur öll.

Þú varst alltaf að hugsa um börnin þín og afkomendur. Að eiga tíu börn og 70 afkomendur er auðvitað þrekvirki sem ekki margir leika eftir. Þér fannst þú svo heppin að eiga öll þessi góðu börn. Fólkið þitt skipti þig mestu og þú varst þeim öllum góð. Þekktir þau öll svo vel og spurðir frétta af þeim sem voru lengra burtu. Hélst okkur hinum upplýstum um það sem á dagana dreif. Nú gerir það enginn lengur.

Þú hugsaðir alltaf vel um drengina mína og ólst þá upp með mér. Þeir þakka þér líka elsku mamma fyrir allt sem þú gerðir og það gerir allt mitt fólk. Og svo þakkar Gunnar fyrir allt, þið áttuð fallegt samband. Elsku mamma, þangað til næst.

Anna Kristinsdóttir.

Við tengdamamma áttum jákvæð og góð samskipti í næstum 50 ár sem aldrei hefur hlaupið snurða á.

Hún var forkur til allra verka jafnt innanhúss sem utan og hélt utan um öflugan hóp unglinga og barna á heimilinu með aðdáunarverðu jafnaðargeði. Hún var afbragðs veiðimaður, kokkur og gestgjafi og taldi ekki eftir sér að mála hús fjölskyldunnar að utan eitt góðviðrissumarið þegar henni var farið að þykja nóg um biðina eftir málurum. Hún ferðaðist víða og átti margskipt og fjölbreytt líf.

Eftir lát tengdaföður míns má segja að hún hafi öðlast sjálfstæði og styrk til að stýra eigin lífi og átti hún langan og góðan tíma á ferð og flugi með fólkinu sínu og ekki má gleyma Sigurði sem kom inn í líf hennar þegar hún var um sjötugt. Þau áttu góð 20 ár saman í „víkinni“ og í Rauðagerði. Árin í Lönguhlíð voru henni góð og þakklátt að sjá hvað hún tókst á við nýjan veruleika og þverrandi heilsu með mikilli reisn og auðvitað var ekkert gefið eftir fyrr en á lokadegi, síðasta spurning til mín var í takt við allt hennar líf: „Hvernig líður mömmu þinni?“ Umhyggjan fyrir annarra líðan var alla tíð í öndvegi. Ég þakka fyrir samferðina við mína kæru Guðbjörgu, tryggð og góðvild.

Einar Þorvarðarson.

Síðasti dagur ársins rann upp, bjartur og fagur, og elsku Guðbjörg amma kvaddi okkur eftir stutt veikindi. Það er margs að minnast og við erum þakklát fyrir að hafa átt ömmu svona lengi og munum sakna þess að geta ekki heimsótt hana eða talað við í síma. Það var alltaf svo gaman að spjalla við hana, hún var með allt á hreinu, vissi hvað allir fjölskyldumeðlimir voru að gera og hún var mjög dugleg að halda sambandi við sitt fólk.

Á afmælum hringdi hún og þegar langömmubörnin áttu afmæli þá sendi hún kort, sem alltaf voru með skemmtilegum myndum á, í pósti og pening með. Hún vissi að þeim þætti spennandi að fá bréf.

Þegar við heimsóttum ömmu vildi hún alltaf bjóða upp á eitthvað og bar fram smurt brauð, oft heimabakað rúgbrauð, sem hún skreytti fallega. Gúrkuhlaupið hennar var í sérstöku uppáhaldi hjá okkur sem og ávaxtakakan og pönnukökurnar.

Amma elskaði að ferðast og þau voru ófá löndin sem hún hafði heimsótt um ævina. Hún fór til Tenerife löngu áður en eyjan varð vinsæl hjá Íslendingum. Hún hafði komið til Brasilíu, Möltu, Nýja-Sjálands og Afríku ásamt löndunum í Mið-Evrópu. Hún skrifaði dagbækur á þessum ferðalögum og mundi vel það sem hún hafði gert á hverjum stað og gat ráðlagt okkur ef við vorum að fara í ferðalög.

Síðustu árin bjó amma í Lönguhlíð 3 og þar undi hún sér vel. Hún var mikil félagsvera og var dugleg að nýta sér það sem í boði var þar. Hún hljóp um gangana, skellti sér á þrekhjólið og hugsaði um blómin. Hún var svo mikil blómakona og þegar við vorum að fara frá henni fékk hún sér alltaf göngutúr með okkur til að sýna okkur orkídeurnar sem hún hugsaði um og líka gróðurhúsið niðri.

Lífið var ömmu ekki alltaf auðvelt og síðustu árin fór líkaminn að gefa sig. En hún var alltaf jákvæð og fannst hún hafa verið svo heppin í lífinu. Hún gat hlegið og glaðst yfir minnstu hlutum og kenndi okkur að lifa lífinu og ekki hugsa um neikvæðu hlutina. Hennar verður sárt saknað.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Sigríður Laufey, Guðbjörg Rós, Pétur Albert og fjölskyldur.

• Fleiri minningargreinar um Guðbjörgu Jóhannsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.