Sjálfbærnimál eru mikilvægur hluti af fjölbreyttri starfsemi Eimskip. „Þegar við hugsum um sjálfbærni þá tengjum við flest við umhverfismálin en sjálfbærni tengist fleiri málaflokkum eins og menningu fyrirtækis, vellíðan og virðiskeðjunni“ segir Agla Huld Þórarinsdóttir sjálfbærnisérfræðingur hjá Eimskip.
Eimskip fagnaði 110 ára afmæli sínu 17 janúar en fyrirtækið er leiðandi flutningafyrirtæki í Norður-Atlantshafi með sérhæfingu í flutningi á frystum og kældum vörum. Félagið er meðvitað um samfélagslegt mikilvægi sitt og sína samfélagslegu ábyrgð. „Eimskip er stofnað á sínum tíma sem skipafélag til að tryggja örugga flutninga til Íslands, við Íslendingar vildum vera sjálfstæð en í dag erum við alþjóðlegt fyrirtæki með um 1700 starfsmenn og starfsemi í yfir 20 löndum“.
Agla hefur víðtæka reynslu og hefur unnið hjá fyrirtækinu í 25 ár og þekkir því starfsemina vel. Hún stundaði háskólanám í sálfræði og bætti síðar við sig MBA gráðu „Það var einstakt tækifæri að fá að byrja í vinnu hérna beint eftir háskólann og fá að þroskast og þróast í starfi, hér er frábært samstarfsfólk og mér finnst alltaf jafnspennandi að koma í vinnunna og takast á við verkefni dagsins“ segir hún. Hún hefur unnið fjölbreytt störf innan fyrirtækisins en leiðir nú vegferð félagsins í sjálfbærnimálum.
„Það má segja að sjálfbærni opni á fleiri sjónarhorn í ákvarðanatöku, við skiljum betur þær áhættur sem eru fyrir hendi og getum nýtt þá þekkingu til að taka betri ákvarðanir sem taka tillit til fleiri aðila“. Segir Agla
Leiðandi í orkuskiptum
Það er mikilvægt að fyrirtæki þekki vel og skilji áhrif sín á samfélagið og umhverfi og jafnframt áhrif samfélagsins og umhverfis á þau. „Við höfum sett okkur háleit markmið í kringum umhverfismálin. Við stefnum á að vera kolefnishlutlaus fyrir árið 2040, sem er náttúrulega mjög stórt markmið fyrir fyrirtæki eins og okkar, sem rekur skipa- og bílaflota. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að vera leiðandi í þessum orkuskiptum.“
Auk umhverfismála þá leggur Eimskip mikla áherslu á góða fyrirtækjamenningu bæði út frá öryggi og vellíðan. “Við erum með kraftmikla alþjóðlega leiðtogaþjálfun sem snýst um að því að efla okkar starfsfólk í sínum störfum, við leggjum áherslu á verkefni sem auka jafnrétti kynjanna og við sjáum að leiðtogaþjálfunin styður þá vegferð vel“.
Eimskip er með starfsemi víða um heim og segir Agla mikilvægt að sjálfbærnivinnan nái alla leið. „Við leggjum mikla áherslu á að ná utan um kolefnisfótsporið okkar í heild og það hefur verið mjög skemmtilegt en krefjandi að ná utan um kolefnisfótspor í erlendu starfseminni okkar“ segir Agla. „Okkar loftlagsupplýsingar eru mjög sýnilegar og við birtum til dæmis umhverfisuppgjör fjórum sinnum á ári en það eru ekki mörg fyrirtæki sem gera það. Okkur finnst þetta mikilvægt að vera meðvituð um þessi áhrif. Við bjóðum einnig viðskiptavinum okkar upp á að fá yfirlit yfir kolefnisfótspor sitt i flutningum og viljum þar með styðja okkar viðskiptavini í þeirra sjálfbærnivegferð þegar kemur að upplýsingagjöf“.
Í tengslum við áskoranir á nýja árinu sem var að renna í garð horfir Agla til lengri tíma varðandi stærri markmið Eimskips. „Ef ég horfi út frá sjálfbærninni, þá erum við að horfa til orkuskipta og það skiptir miklu máli að vita hvort að næg græn orka verði tiltæki á Íslandi. Við þurfum að vita hvers konar orka verður í boði til framtíðar, því við þurfum að huga að því að endurnýja skipaflotann. Það er yrði mjög stórt skref fyrir okkur og samfélagið í heild að geta skipt yfir í skip sem væru knúin af grænni orku, en þá þarf það að vera á hreinu hvaða orka verður leiðandi og hvenær hún verður tilbúin. Þetta er stór fjárfesting,“ segir hún.