Svavar Alfreð Jónsson
Svavar Alfreð Jónsson
„Já, vissulega hafa nokkrir nefnt biskupsembættið við mig, sem hefur sannast sagna komið mér í opna skjöldu,“ segir sr. Svavar Alfreð Jónsson prestur á Akureyri. Í byrjun febrúar rennur út frestur til að skila kjörnefnd þjóðkirkjunnar…

„Já, vissulega hafa nokkrir nefnt biskupsembættið við mig, sem hefur sannast sagna komið mér í opna skjöldu,“ segir sr. Svavar Alfreð Jónsson prestur á Akureyri. Í byrjun febrúar rennur út frestur til að skila kjörnefnd þjóðkirkjunnar tilnefningum um frambjóðendur í embætti biskups Íslands. Þau sem þar eru nefnd hafa sjálfdæmi um hvort þau svara kalli og gefa kost á sér, en skv. fyrirliggjandi reglum verða þrjú í kjöri. Kosning fer fram í mars næstkomandi og nýr biskup verður svo settur í embætti næsta sumar.

Fjórir prestar hafa þegar lýst yfir og staðfest að þeir svari kalli og taki við tilnefningum um að verða í kjöri.

„Biskupsembættið er ekkert sem ég hef verið að velta fyrir mér. Ég uni mér ákaflega vel í núverandi starfi og hef ekki verið að hugsa mér til hreyfings,“ segir sr. Svavar, prestur til áratuga.

„Aðspurður hvort ég svari tilnefningum og gefi kost á mér í biskupskjöri þá met ég slíkt mikils sem og fólk sem þar stendur að baki. Ég finn þó ekki innri köllun til þessarar mikilvægu þjónustu, alla vega eins og staðan er núna. Þegar nöfn þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fá liggja fyrir í byrjun febrúar og ef viðkomandi vilja svara kalli færist málið á nýtt stig,“ segir Svavar Alfreð. sbs@mbl.is