Elín Björg Ragnarsdóttir hóf störf hjá Fiskistofu í upphafi árs 2016.
Elín Björg Ragnarsdóttir hóf störf hjá Fiskistofu í upphafi árs 2016.
Óhætt er að fullyrða að Elín Björg Ragnarsdóttir hefur marga fjöruna sopið. Hún er með ML-gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst og með BS-gráðu í viðskiptalögfræði frá sama skóla ásamt meðal annars diplómagráðu í hafrétti, menntun á sviði sjávarútvegs og verkefnastjórnunar

Óhætt er að fullyrða að Elín Björg Ragnarsdóttir hefur marga fjöruna sopið. Hún er með ML-gráðu í lögfræði frá
Háskólanum á Bifröst og með BS-gráðu í viðskiptalögfræði frá sama skóla ásamt meðal annars diplómagráðu í hafrétti, menntun á sviði sjávarútvegs og verkefnastjórnunar.

Elín hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og starfað við lögfræði-, rekstrar- og gæðastjórnunarráðgjöf, ferðaþjónustu og verið framkvæmdastjóri fiskframleiðenda, svo dæmi séu nefnd.Elín hóf störf hjá Fiskistofu í upphafi árs 2016 en þá voru höfuðstöðvar Fiskistofu fluttar til Akureyrar og hefur hún því starfað hjá stofnuninni í tæp átta ár ef frá er talið stutt tímabil er hún var sviðsstjóri friðlýsinga og starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun. Hjá Fiskistofu var hún lengst af verkefnastjóri gæða- og þróunarmála en síðustu þrjú ár hefur hún verið sviðsstjóri veiðieftirlits og staðgengill fiskistofustjóra.

Með skilvirknina að leiðarljósi

Fiskistofa er stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið. Fiskistofa fer með framkvæmd laga á sviði fiskveiðistjórnunar og lax- og silungsveiða. Verkefni Fiskistofu eru gríðarlega áhugaverð og fjölbreytt, meðal annars gagnagreining, áhættumat, umsýsla kvótakerfis, forritun, hönnun, útgáfa margskonar leyfa, drónaflug, mannauðsmál, skjalamál, fjármál, þjónusta, lögfræðimál, upplýsingaöryggismál, stjórnsýsla, eftirlit með veiðum, alþjóðleg samvinna og ýmis þróunarverkefni.

Þá er fyrirtækið í blússandi þróun í stafrænu og rafrænu umhverfi en mikil þróun hefur orðið í rafrænu eftirliti, samkeyrslu upplýsinga í eftirlitsskyni og notkun fjareftirlitsbúnaðar á borð við fjarstýrð loftför og myndavélar. Áhersla er lögð á að nota í auknum mæli stafrænar og rafrænar lausnir, greiningar og áhættumat til skilvirkara eftirlits, einföldun ferla og miðlun áreiðanlegra og réttra upplýsinga í sem næst rauntíma um sjávarútveg. Verkefni Fiskistofu tengjast öll framtíðarsýn hennar en hún er að Fiskistofa sé framsækin og skilvirk stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun sem er leiðandi í fiskveiðistjórn á heimsvísu.

Hvatt til fleiri umsækjenda

Hjá fyrirtækinu starfa 57 starfsmenn, þar af 39 sem starfa á skrifstofu við ýmis störf og 18 eftirlitsmenn sem sinna fjölbreyttu eftirliti á sjó og landi. Elín segir vinnustað sinn vera frábæran og þegar hún er spurð að því hvað mætti betrumbæta innan fyrirtækisins svarar hún skýrt: „Við myndum vilja fjölga konum í hópi eftirlitsmanna, en í dag eru það eingöngu karlmenn sem sinna þeim störfum. Að öðru leyti er kynjahlutfall hjá stofnuninni jafnt bæði í stjórnendahópi og starfsmannahópi. Starfsumhverfið er annars metnaðarfullt og er lögð mikil áhersla á að byggja upp trausta liðsheild,“ segir Elín, sem undirstrikar að jafnframt sé lagt upp úr því að starfsfólk hafi gaman að vinnunni, að samskipti séu jákvæð og góður andi ríki á vinnustaðnum.

„Í dag starfa engar konur eða kvár við veiðieftirlit Fiskistofu og hafa aðeins fimm konur í heildina starfað við almennt veiðieftirlit frá 1992. Fiskistofa vill gjarnan sjá breytingar í þeim efnum og að fleiri kyn sæki um laus störf í almennt veiðieftirlit hjá Fiskistofu. Oft hefur verið sagt að sjómennska og sjávarútvegur séu karllæg starfsstétt en örar breytingar hafa orðið í greininni á síðastliðnum áratugum, þar með talið tæknibreytingar sem hafa gjörbreytt atvinnugreininni og hafa haft mikil áhrif á störf innan stéttarinnar það má því með sanni segja að þetta sé stétt fyrir alla óháð kyni.“

Alls kyns verkefni

Elín segir enga tvo daga vera eins í eftirlitinu, allt frá því að vera samskiptum við fólk sem starfar innan sjávarútvegsins, til að mynda skipstjóra, hafnarstarfsmenn, útgerðir, vigtarmenn ásamt því að mikil samskipti og samvinna er við Landhelgisgæslu og aðra opinbera aðila. Reglulega er farið í eftirlit með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir sumartímann til eftirlits með lax- og silungsnetum í sjó. Þá sinna eftirlitsmenn einnig rafrænu eftirliti og skýrslugerð. Eftirlitsmenn fara víðs vegar um landið í alls kyns verkefni, meðal annars eftirlit með vigtun, eftirlit með veiðivötnum, drónaeftirlit til að fylgjast með brottkasti og umgengni um auðlindir hafs og vatna og söfnun gagna sem notuð eru til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun.

Þá er einnig haft eftirlit með erlendum skipum og svona mætti lengi telja. „Farið er í eftirlit með veiðiskipum af öllum stærðum og gerðum, svo sem uppsjávarskipum, togurum og smábátum ásamt því að farið er reglulega í eftirlitsferðir með skipum Landhelgisgæslunnar. Alþjóðatengsl eru einnig nokkur en eftirlitsmenn eiga í samskiptum við aðrar systurstofnanir í nágrannalöndum og kemur fyrir að eftirlitsmenn fari í starfsmannaskipti til annarra norrænna landa til að kynnast eftirlitsstörfum þar og miðla reynslu þegar heim er komið,“ segir Elín.