Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Ég er búin að vera að vinna með vistkerfaaðferð þar sem ég er að nálgast bæði dans og hreyfingar en líka hvernig ég vinn með hluti, efni og hljóð. Ég reyni að nálgast það eins og vistkerfi, þannig að þetta blandist saman og sé þá allt í sama vistkerfinu,“ segir Rósa Ómarsdóttir, dansari og listrænn stjórnandi. Verk hennar, Molta, verður frumsýnt á morgun, 25. janúar, í Gerðarsafni í Kópavogi og mun sýningin standa til 4. febrúar.
Sjálf vinnur Rósa þvert á ólíka miðla og í verkum sínum kannar hún samskipti manns og náttúru í leit að ómannhverfum frásögnum. Þá leitast hún við að skapa auðugt vistkerfi sem sameinar manneskjur, hluti og ósýnilega krafta. Segir hún verk sín þverfagleg í eðli sínu og flétta saman kóreógrafíu, lifandi hljóðmyndir og myndlist, með femínískri nálgun á dramatúrgíu sem felur í sér varnarleysi og flæði.
Rætur – rotnun – umrót
Að sögn Rósu er um að ræða þverfaglega innsetningu og lifandi sýningu þar sem höfundur býr til vistkerfi þar sem náttúrulegir ferlar umbreyta rýminu. Þá bráðnar til að mynda innsetningin, lekur, brotnar niður, vex, blandast saman og gufar upp en Rósa skoðar sérstaklega hvernig vistkerfið tekur sífelldum breytingum. Þannig kannar hún í raun mörk manns, umhverfis og tækni þar sem allt hefur áhrif hvað á annað og leitast þannig við að nota ýmislegt úr vistfræðinni. „Ég skoða til að mynda orsakaflæði, orsök og afleiðingu, samlífi og svona hugtök til að skilgreina samband milli dansara, sviðsmyndar, tónlistar og þess háttar,“ segir hún og tekur fram að hún hafi verið að vinna að vistkerfaaðferðinni síðan árið 2018 þegar hún hlaut styrk til að gera rannsókn um það hvernig nálgast má líkamann út frá vistfræðinni.
„Þar vann ég til dæmis með líffræðingi, hitti vistfræðing, heimspekinga og einnig efnafræðing og átti samtal við fólk í alls konar fræðigreinum. Molta er því búin að vera í undirbúningi í einhvern tíma en ég byggi sýninguna einmitt á fyrri verkum og þar kemur þessi tenging á milli þeirra.“
Gestir hafa gagnvirk áhrif
Á fyrirframákveðnum kvöldum munu dansarar taka yfir rýmið í Gerðarsafni og umbreyta því í lifandi sýningu í heilt kvöld. Þar gefst áhorfendum tækifæri til að mæta flytjendum verksins, sem birtast sem hluti af vistkerfi Moltu, líkt og skúlptúrar, verur, dýr og náttúra, og eiga í samskiptum við innsetninguna sjálfa. Áhorfendum er því boðið að dvelja, horfa, hlusta, hanga, borða, drekka og hvíla sig á meðan fólk og umhverfi breytist. Segir Rósa að stundum séu breytingarnar svo hægar að þær sjáist varla en stundum svo snöggar að þær fari fram hjá manni. „Sýningin stendur líka bara sem innsetning í safninu á daginn en á þessum ákveðnu kvöldum, þegar dansararnir mæta, geta áhorfendur tekið sér hlé þegar þeir vilja og gengið út. Svo viljum við bjóða áhorfendum líka að upplifa verkið svolítið eins og þeir dvelji í náttúru af því að við búum til eins konar vistkerfi inni í Gerðarsafni sem áhorfendur geta stigið inn í,“ segir hún.
Gestir geta því gengið inn og út úr rýminu að vild en boðið verður upp á mat og drykk framreiddan af matreiðslumeistaranum Kjartani Óla Guðmundssyni. Maturinn er hluti af vistkerfinu sjálfu og er náttúran og flytjendur sjálfir hluti af því sem verður á boðstólum.
„Gestirnir geta svo tekið sér hlé þegar þeir vilja, jafnvel tekið sér smá leggju, bara hangið eða farið fram og fengið sér að borða en maturinn er innifalinn í miðaverðinu. Þess má einmitt geta að Kjartan Óli er líka að vinna með vistfræðina, eins og hvernig hann framreiðir matinn. Þannig að óhætt er að segja að þetta verði allsherjar upplifun fyrir öll skynfærin,“ segir Rósa og bætir við að í gegnum verkið komi áhorfendur til með að upplifa breytingu á rýminu.
„Rýmið er á einn veg þegar þeir labba inn í það, þess vegna er verkið svona langt eða í fjórar klukkustundir, en á þessum tíma mun sviðsmyndin breytast. Hún mun byrja að leka, hún mun gufa upp og það eru svona alls konar náttúrulegir ferlar sem eiga sér stað sem áhorfendur fá að upplifa.“
Mörk milli hluta eyðast
Blaðamanni leikur forvitni á að heyra meira um nafnval sýningarinnar en aðspurð svarar Rósa því til að molta sé ein af myndhverfingum verksins.
„Ég er svo hrifin af því hvernig allt molnar niður og hvernig mörkin milli hluta eyðast. Þetta er svona eins konar myndlíking fyrir hvaða nýju hlutir, hugmyndir og öfl geta sprottið upp úr moltunni þegar mörkin milli hluta, manna og jafnvel véla hafa molnað niður. Kveikjan að því kom kannski þegar það voru alltaf að berast fréttir af til dæmis plastögnum sem finnast inni í líkamanum og hvernig við erum einhvern veginn nú þegar farin að blandast saman með hlutum,“ segir hún til útskýringar.
Þá er sýningin samstarfsverkefni Rósu og Íslenska dansflokksins og er hún unnin í nánu samstarfi við allt listræna teymið að hennar sögn.
„Núna er ég sem sagt bæði að vinna með Íslenska dansflokknum og Gerðarsafni og það hefur bara gengið mjög vel en ég er með dansara bæði frá flokknum og svo sjálfstætt starfandi,“ segir hún og nefnir að innsetningin sé gerð í samstarfi við Guðnýju Hrund Sigurðardóttur og Hákon Pálsson.
„Þetta verk er til fyrir tilstilli allra aðila sem að því koma og allt listræna teymið kom að sköpun þessa verks. Æfingarnar hafa gengið mjög vel og tilhlökkunin í hópnum er að sjálfsögðu mikil. Sýningafjöldi er takmarkaður svo ég hvet fólk til að tryggja sér miða sem allra fyrst.“