„Það liggur fyrir að búið er að semja við flesta þá aðila sem þurftu að sæta riftunar- og endurgreiðslukröfum á grundvelli gjaldþrotalaga vegna greiðslna sem voru inntar af hendi daginn fyrir úrskurðardag.“
Þetta er meðal þess sem segir í svari Óskars Sigurðssonar, lögmanns og skiptastjóra þrotabús Torgs, við fyrirspurn Morgunblaðsins um af hverju einungis einum verktaka, sem vann hjá félaginu, hefði verið stefnt. Í frétt Morgunblaðsins í gær var fjallað um mál fjölmiðlakonunnar Sjafnar Þórðardóttur, nú umsjónarmanns Matarvefs mbl.is, sem fékk stefnu þann 7. desember vegna endurgreiðslu launa.
Segir jafnframt í svari Óskars að í þeim tilvikum þar sem ekki náðist samkomulag um uppgjör hafi málin verið metin með hliðsjón af þeim vörnum sem komu fram af hálfu riftunarþola og þeim hagsmunum sem voru undir í hverju máli fyrir sig, þegar tekin var ákvörðun um málshöfðun. „Niðurstaðan var sú að höfðuð voru riftunarmál á hendur tveimur verktökum, en ekki einum eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins. Ég get að öðru leyti ekki tjáð mig um einstök mál, eins og gefur að skilja,“ ritar Óskar.