Í Köln
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik þarf á sigri að halda gegn Austurríki í lokaumferðinni í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Þýskalandi í dag, ætli liðið sér að eiga möguleika á sæti í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í París næsta sumar.
Leikurinn hefst klukkan 14.30 að íslenskum tíma í Lanxess-höllinni í Köln. Ísland er með tvö stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins en Austurríki er í fjórða sætinu með fjögur stig og á möguleika á að komast í undanúrslit með því að vinna leikinn.
Frakkland er eina liðið sem er öruggt um sæti í undanúrslitum keppninnar og jafnframt efsta sæti riðilsins með átta stig.
Þýskaland, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, er með fimm stig, Ungverjaland fjögur og Króatía rekur lestina með eitt stig. Bæði Austurríki og Ungverjaland eiga því möguleika á að ná öðru sætinu úr höndum Þjóðverja.
Ef Ísland vinnur Austurríki með fimm mörkum eða meira er Ísland öruggt með fjórða sæti riðilsins og jafnframt sæti í undankeppni Ólympíuleikanna, að því tilskyldu að Egyptaland verði Afríkumeistari hinn 27. janúar í Egyptalandi. Sæti í undankeppninni var yfirlýst markmið liðsins fyrir mótið.
Frakkland og Ungverjaland mætast klukkan 17 og loks Þýskaland og Króatía klukkan 19.30.
Ef Ísland vinnur Austurríki með einu til fjórum mörkum þarf liðið að treysta á að Ungverjaland nái í stig gegn Frakklandi. Þá kemst Ísland í undankeppnina, með sama fyrirvara um sigur Egypta.
Ef Ísland vinnur Austurríki með 15-16 marka mun og Frakkland vinnur Ungverjaland, þá endar Ísland í þriðja sæti riðilsins og leikur um fimmta sæti mótsins í Köln á föstudaginn þar sem Slóvenía eða Portúgal yrði mótherjinn.
Austurríki tekur þátt í Evrópumótinu í sjötta sinn og er það lið sem hefur komið mest á óvart á mótinu til þessa.
Austurríki vann Rúmeníu í riðlakeppninni í Mannheim og gerði jafntefli við Króatíu og Spán. Liðið vann svo Ungverjaland í milliriðlinum í Köln, gerði jafntefli við Þýskaland og tapaði sínum fyrsta leik á mótinu gegn Frakklandi á mánudaginn, 33:28.
Mykola Bilyk er markahæsti leikmaður Austurríkis á mótinu með 37 mörk og er í fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn mótsins.
Austurríki og Ísland mættust í tveimur vináttulandsleikjum rétt áður en EM hófst, í Vín og Linz. Ísland vann báða leikina á sannfærandi hátt, 33:28 og 37:30.