„Það hefur verulega skort á yfirsýn yfir orkumarkaðinn með reglulegum upplýsingum um orkuframleiðslu og -notkun. Orkustofnun hefur brugðist því hlutverki sínu að veita traustar upplýsingar um stöðu orkumála á Íslandi og það skýrir að hluta til það sinnuleysi sem ríkt hefur í málaflokknum lengi

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

„Það hefur verulega skort á yfirsýn yfir orkumarkaðinn með reglulegum upplýsingum um orkuframleiðslu og -notkun. Orkustofnun hefur brugðist því hlutverki sínu að veita traustar upplýsingar um stöðu orkumála á Íslandi og það skýrir að hluta til það sinnuleysi sem ríkt hefur í málaflokknum lengi. Traustar upplýsingar eru forsenda ákvarðana og þessi staða hefur sem dæmi sett þingið í erfiða stöðu með það frumvarp sem nú er til umfjöllunar þar,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), í ítarlegu viðtali við ViðskiptaMoggann í dag.

Í viðtalinu er meðal annars fjallað um stöðuna í orkumálum en eins og fram kemur hér að ofan segir Sigurður að málaflokkurinn hafi einkennst af sinnuleysi á undanförnum árum.

„Mögulega á það rætur sínar að rekja til þess að það virðist vera útbreidd skoðun að við séum í raun með of mikið af raforku og séum sjálfum okkur næg. Þetta er rangt, því við erum að flytja inn orku í stórum stíl í formi olíu, en hún stendur undir 40% af þeirri orku sem við notum til verðmætasköpunar,“ segir hann.

Sigurður segist jafnframt gera ráð fyrir því að næstu fjögur ár verði erfið og ljóst að skerða þurfi raforku enn frekar. Það feli í sér umtalsverðan kostnað, en aðalhagfræðingur SI hefur metið tap þjóðarbúsins af þeim skerðingum sem búast má við fram á vor á um 8-12 milljarða króna.

„Við skulum ekki gleyma því að öll verðmætasköpun byggist á notkun orku,“ segir Sigurður og bætir við að þeir sem tali um að loka orkusæknum iðnaði til að nýta orkuna í eitthvað annað séu þeir sömu og vilji þá draga úr útflutningi og verðmætasköpun sem leggur grunn að lífsgæðum okkar. Ísland verði þá ekki í fremstu röð eins og nú er.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson