90 ár á milli Áslaug ásamt barnabarnabarni sínu, Sigrúnu Erlu.
90 ár á milli Áslaug ásamt barnabarnabarni sínu, Sigrúnu Erlu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áslaug Sigurðardóttir Sigurz fæddist 24. janúar 1924 á Vesturgötu 46 í Reykjavík og bjó þar til níu ára aldurs þegar fjölskyldan flutti á Ásvallagötu 31. „Systkini mín áttu erfitt með að segja nafnið mitt og kölluðu mig Áslu

Áslaug Sigurðardóttir Sigurz fæddist 24. janúar 1924 á Vesturgötu 46 í Reykjavík og bjó þar til níu ára aldurs þegar fjölskyldan flutti á Ásvallagötu 31.

„Systkini mín áttu erfitt með að segja nafnið mitt og kölluðu mig Áslu. Einu sinni spurði ég pabba af hverju ég héti Áslaug en hefði ekki fengið nöfn úr ættinni eins og systkinin mín? Þá sagði hann: „Þú heitir eftir henni Áslaugu í hörpunni, dóttur hans Sigurðar Fáfnisbana.“

Ég gekk í Miðbæjarskólann og lauk gagnfræðaprófi frá Ágústarskólanum. Ég hafði þá og hef ennþá mikinn áhuga á sögu og var góð í henni. Eitthvað spurðist það út því Ólafur Hansson, sögukennari í MR, kom eitt sinn heim og vildi fá mig í skólann, sagði að ég ætti að verða sagnfræðingur. En þá var ég farin að vinna hjá Sjóvá eins og Kristjana systir. Ég hef stundum séð eftir því að hafa ekki farið í menntaskólann og löngu seinna spurði ég Guðna rektor, sem hafði verið sessunautur minn í Ágústarskóla, hvort ég mætti ekki koma í skólann en hann sagði nei, þú verður að vera utanskóla! Það varð ekkert úr því.“

Áslaug og Árni giftu sig þegar Áslaug var 23 ára og fluttu saman til Steinunnar frænku hennar á Bræðraborgarstíg 1 þar sem þau bjuggu í fjögur ár. „Steina var föðursystir mín, kona Sveins bakara í Sveinsbakaríi. Þau voru einstakt fólk. Þegar systur Steinu dóu úr spænsku veikinni tóku þau að sér börnin þeirra án umhugsunar. Þetta voru fjöldamörg börn sem þau ólu upp sem sín eigin.“ Þaðan fluttu þau Árni á Bjargarstíg 15. „Við fluttum til tengdaforeldra minna á mikið myndarheimili. Þar í kjallaranum rákum við Árni saman fyrirtækið Rit- og reiknivélar, sem seldi og gerði við skrifstofutæki. Ég lærði líka hraðritun og þótti það skemmtilegt. Eitt sinn hraðritaði ég útvarpssögu fyrir Helga Hjörvar sem las mér fyrir þýðingu sína sem ég skrifaði upp eftir honum og lagaði svo til. Það var gaman að vinna með Helga.“

Svo kom að því að hjónin kæmu sér upp eigin heimili: „Við fluttum út á Nes þó svo ég hafi alltaf verið Vesturbæingur eins og pabbi og kunni eiginlega aldrei eins vel við mig á Seltjarnarnesinu og í Vesturbænum. Þegar við bjuggum á Lindarbrautinni fékk ég mér hjól, fimmtug konan – og krakkarnir hlógu og sögðu: „Sjáðu kerlinguna á hjólinu!“ Þá voru ekki margar konur á hjóli. En ég gat hjólað út í Örfirisey, niður í bæ og út um allt.“

Áslaug vann lengi á skrifstofunni í Vélsmiðjunni Héðni. „Það var alveg sérstakt fyrirtæki. Virkilega gott andrúmsloft, góðir stjórnendur og mötuneytið var eins og á hóteli! Þegar gaus í Vestmannaeyjum 1973 og fólk flýði eyjuna, þá bauð Héðinn yfir 100 manns í mat, fólki sem leið virkilega illa og margt hafði verið mjög sjóveikt á leiðinni. Ég mætti snemma á morgnana í vinnuna og vann allan daginn, og vildi þá finna mér vinnu hálfan daginn. Þá fékk ég vinnu í Landsbankanum í Austurstræti þar sem ég var í víxlum og stundum ritari hjá bankastjórunum. Þar var líka alveg æðisgengið að vinna þó svo að Héðinn beri af.“ Hjá Landsbankanum vann Áslaug síðan allt þar til hún lét af störfum vegna aldurs fyrir rúmum 30 árum.

Árni vann árum saman hjá Flugleiðum og þau ferðuðust mikið til útlanda. Áslaug heldur mest upp á ferðirnar til Ítalíu. „Þar fannst mér allt svo fallegt og gott, maturinn og allt annað. Einnig var ég oft hjá Kristjönu systur í Kaupmannahöfn, en þau Stefán Íslandi mágur minn bjuggu þar.“

Áslaugu verður tíðrætt um foreldra sína og æskuna í Vesturbænum: „Það sem mér finnst mikilvægast í lífinu er samheldni fjölskyldu. Ég ylja mér oft við minningarnar af mömmu minni sem var alveg yndisleg, með svo falleg augu. Hún var ljóðelsk, minnug og fögur og hugsaði svo vel um alla. Hún spann og reykti pípu á meðan.“

Áslaug hefur alltaf verið pólitísk: „Ég er fædd sjálfstæðismanneskja og kann vel við frjálsræðið sem er grundvöllur í stefnu flokksins. Ég starfaði lengi fyrir flokkinn, var oft að hringja í kjósendur og sækja fólk á kjörstað. Ég hef alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en í seinni tíð er ég orðin svolítið hliðholl Framsóknarflokknum og mér líst afskaplega vel á nýja borgarstjórann. Ef ég ætti að gefa honum ráð vildi ég segja honum að koma jafnt fram við alla og koma borginni á réttan kjöl.“

Frá Seltjarnarnesi fluttu Áslaug og Árni á heimaslóðir Áslaugar á Vesturgötuna og þaðan á Þorragötu 9. Árni lést árið 2001 og bjó Áslaug ein þar til hún flutti á Grund fyrir örfáum árum. „Ég er Vesturbæingur, hér fæddist ég og hér bý ég enn. Vesturbærinn er bara dásamlegur.“

Fjölskylda

Eiginmaður Áslaugar var Árni Jónasson Benediktsson, f. 11.7. 1919, d. 26.1. 2001, tæknifræðingur. Foreldrar hans voru Benedikt Jónasson, f. 29.9. 1879, d. 11.9. 1954, vitaverkfræðingur á Hermóði á Ísafirði og síðar verkfræðingur í Reykjavík, og Sofie Petra Hovdenak Jónasson, f. 12.5. 1887 í Þrándheimi í Noregi, d. 1.3. 1951, húsfreyja. Þau voru búsett á Bjargarstíg 15 í Reykjavík.

Börn Áslaugar og Árna eru 1) Skúli Björn, f. 19.7. 1947, búsettur í Reykjavík, giftur Maríu Aldísi Marteinsdóttur; 2) Árni, f. 2.10. 1958, búsettur í Reykjavík, giftur Láru Sigríði Jónsdóttur. Barnabörn Áslaugar eru níu, barnabarnabörnin eru 24 og barnabarnabarnabörnin eru sex.

Systkini Áslaugar voru Skúli Eggert Sigurz, f. 28.4. 1921, d. 1.6. 1946, verslunarmaður í Reykjavík; Kristjana Sigurðardóttir Sigurz, f. 18.8. 1922, d. 10.5. 2007, gjaldkeri og ritari í Danmörku og síðar á Íslandi; Margrét Sigurz Busha, f. 3.6. 1925, d. 7.10. 1996, skrifstofumaður í Reykjavík, síðar búsett í Bandaríkjunum; Sigurður Friðrik Sigurz, f. 22.5. 1927, d. 1.11. 1992, tryggingasölumaður í Reykjavík, og Ingólfur Sigurz, f. 10.6. 1928, d. 13.7. 1994, fulltrúi borgarfógeta.

Foreldrar Áslaugar voru hjónin Sigurður Friðrik Sigurðsson Sigurz, f. 3.6. 1895 í Reykjavík, d. 1.10. 1967, bókhaldari og kaupmaður í Reykjavík, og Guðbjörg Jóhanna Skúladóttir, f. 14.2. 1896 á Ytra-Vatni, Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, d. 31.7. 1957, húsfreyja í Reykjavík.