Að verða vitni að því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að konur eflist og fái meira sjálfstraust í FKA. Innst inni vita konur hvert þær vilja fara, stundum þarf bara smá speglun, smá ráð eða smá hvatningu og búmm, þær eru búnar að ná sínu markmiði eða skrefi í áttina að markmiðinu,“ segir Svanhildur Jónsdóttir formaður LeiðtogaAuða spurð að því hvað sé minnisstæðast úr starfi hennar fyrir FKA en hún gekk einmitt í FKA til að kynnast fleiri konum í atvinnulífinu.
„Ég var að vinna í nokkuð karllægu umhverfi, þar hafði ég góðar fyrirmyndir en mig langaði líka að kynnast fleiri konum í atvinnulífinu. Ég var forvitin að vita meira um starf FKA og ég sé ekki eftir því.“
Forystusveit íslensks viðskiptalífs
LeiðtogaAuður er deild innan FKA sem varð til í tengslum við verkefnið Auður í krafti kvenna sem stóð yfir á árunum 2000-2003. LeiðtogaAuður er fyrir konur sem hafa yfirgripsmikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu, bæði einkageiranum og hinum opinbera.
Félagskonur eru hluti af forystusveit íslensks viðskiptalífs sem gegna eða hafa gegnt ábyrgðarstöðum atvinnulífsins, konur sem vilja taka þátt í eflingu íslensks atvinnulífs og vera þeim konum sem á eftir koma hvatning, fyrirmynd og stuðningur.
Svanhildur talar um að starf hennar hjá FKA hafi verið mjög gefandi enda tengist hún klárum og reynslumiklum konum, heyrir af áskorunum þeirra og lærir af þeim. „Það er líka gefandi að taka þátt í að vinna og móta kjarnaverkefni sem LeiðtogaAuðar vinna að hverju sinni.
Núna erum við að fara í frekara samstarf með Jafnvægisvoginni með það að markmiði að hún verði sýnilegri allt árið um kring. Verður það gert með því að varpa ljósi á samfélagsmiðlum meðal annars á staðreyndir um stöðuna í íslensku atvinnulífi og hvað fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar í jafnrétti hafa gert til að ná fram þeim breytingum.“
Töpum á einsleitni
Enda talar Svanhildur um að stærsta áskorunin í íslensku atvinnulífi um þessar mundir sé að ná sátt um langtímakjarasamninga sem allir hagaðilar geti verið sáttir við. „Einnig tel ég brýnt að auka fjölbreytni innan framkvæmdastjórna og það er að gerast alltof hægt.
Til að mynda hefur hlutfall kvenna hækkað úr 18% í 21% frá árinu 2017 til 2023, það er aðeins aukning um 3% á sex árum, við erum öll að tapa á þessari einsleitni.“