Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Hljómsveitin FLOTT stendur undir nafni, nýtur mikilla vinsælda og hefur ákveðið að vera með aukatónleika í Salnum í Kópavogi föstudaginn 16. febrúar, en þegar er uppselt á netinu (tix.is) á tónleika sveitarinnar á sama stað nk. laugardag, 27. janúar. „Við gáfum út plötuna Pottþétt FLOTT 30. desember og ákváðum að skella í tónleika en það kom okkur vissulega á óvart þegar uppselt varð á þá eins snemma og raun ber vitni,“ segir Ragnhildur Veigarsdóttir hljómborðsleikari.
Hljómsveitina skipa, auk Ragnhildar, Vigdís Hafliðadóttir söngkona, Sylvía Spilliaert bassaleikari, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir trommuleikari og Eyrún Engilbertsdóttir gítarleikari. Þær hafa allar verið í tónlistarnámi frá barnsaldri, eru um þrítugt, voru á sama tíma í Menntaskólanum í Hamrahlíð en kynntust fyrst almennilega eftir að þær stofnuðu bandið upp úr áramótunum 2019/2020.
„Ég hélt áramótateiti fyrir vinkonur úr MH og Vigdís var ein þeirra,“ segir Ragnhildur. „Hún heyrði í mér og sagðist vera með tvær spurningar: Sú fyrri var: hvar áttu heima? Svo sagðist hún vilja stofna hljómsveit og semja lög og flytja um erfiðleika í ástarsamböndum og lífinu almennt. Viltu vera með? Ég sagði já og fljótlega eftir áramót fórum við í bústað og sömdum nokkur lög. „Þegar ég var 36“ var fyrsta lagið okkar.“
Pottþétt flott
Skömmu eftir að stöllurnar höfðu fengið Sylvíu, Sólrúnu og Eyrúnu til liðs við sig skall covid á. Samkomubannið dró þær inn í stúdíóið og þær ákváðu að nota tímann til að læra betur á tónlistarforritin og skapa eigin hljóðheim. „Við nýttum einnig tímann til að kynnast betur og semja meira,“ segir Ragnhildur, sem útsetur og framleiðir lög hljómsveitarinnar og semur þau ásamt Vigdísi, en sú síðarnefnda semur textana. „Við gáfum út fyrsta lag okkar, „Segðu það bara“, í nóvember 2020 og þá byrjaði boltinn að rúlla.“ Auk fjölbreyttra verkefna hafi þær gefið út tíu lög, eitt og eitt í einu, og nú sé fyrsta platan komin. „Okkur fannst að við værum ekki komnar almennilega á kortið fyrr en við værum búnar að gefa út plötu og nafnið er ákveðin vísun í Pottþéttplöturnar á árum áður og vísar líka í spurninguna er þetta ekki pottþétt flott?“
FLOTT fékk tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2022. Hljómsveitin var valin bjartasta vonin í poppi, rappi/hipphoppi og raftónlist og lagið „Mér er drull“ var útnefnt popplag ársins. „Þetta var mjög skemmtilegt,“ rifjar Ragnhildur upp og leggur áherslu á að þær séu rétt að byrja.
„Við skilgreinum oft tónlist okkar sem vísnapopp og ætlum að stækka vísuna á næstu tónleikum,“ heldur Ragnhildur áfram. „Vigdís verður með uppistand á milli laga og við verðum með nokkra gestahljóðfæraleikara, sem spila með okkur á plötunni. Þetta verður gaman, smá blanda af kósí og stuði og því fjölbreytt.“
Stelpurnar voru síðast með tónleika í febrúar í fyrra, þegar þær kynntu lagið „Hún ógnar mér“ en ætla að vera sýnilegri í ár. „Við stefnum á að spila mikið og halda fleiri tónleika,“ segir Ragnhildur.