Ísland hefur verið í fararbroddi jafnréttismála á heimsvísu síðastliðin 14 ár. Sú staða varð ekki til af sjálfu sér, þar þurfti samhent átak til, vitundarvakningu og baráttu hugrakkra kvenna og bandamanna þeirra. Mér finnst svo áhugavert að þrátt fyrir að við séum best í heimi í jafnrétti þá eru tölur hvað varðar fjárfestingar nákvæmlega eins hér og í öðrum löndum,“ segir Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Arion banka.
Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 1999 er hún kom fyrst til starfa hjá greiningardeild bankans. Á þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans, síðast sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017. Áður hafði Iða Brá meðal annars verið forstöðumaður samskiptasviðs, einkabankaþjónustu og í fjárstýringu bankans. Iða er varaformaður stjórnar Varðar og hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja: Sparisjóðs Ólafsfjarðar, AFL – sparisjóðs, fasteignafélagsins Landfesta og HB Granda hf.
„Við í Arion banka viljum leggja okkar af mörkum til að jafna þátttöku kynjanna á fjármálamarkaði. Við erum því að fara af stað með langtíma átaksverkefnið Konur fjárfestum - vertu með!, þar sem markmið er að efla konur þegar kemur að fjárfestingum. Sambærilegum verkefnum hefur verið ýtt úr vör á öðrum Norðurlöndum með góðum árangri, segir Iða Brá. „Í okkar huga er þetta samfélagslega mikilvægt verkefni – þetta er í raun mikilvægt jafnréttismál. En þar til viðbótar sjáum við mikil viðskiptatækifæri í því að efla konur til fjárfestinga. Við ætlum einfaldlega að stækka kökuna.“
Efla stöðu kvenna
Svana Huld Linnet, forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arion banka, telur að hluti ástæðunnar fyrir því að konur eru ekki þátttakendur til jafns við karla þegar kemur að fjárfestingum og fjármálum hljóti að liggja í aðgengi að upplýsingum og möguleikum á því að ræða þessi mál og skiptast á skoðunum. „Við ætlum því að fara í þetta langtímaátaksverkefni með það að markmiði að efla stöðu kvenna þegar kemur að fjárfestingum,“ segir Svana Huld sem fullyrðir að öll framkvæmdastjórn og stjórn bankans standi 100% á bak við verkefnið sem hefur verið leitt af Snædísi Flosadóttur á mörkuðum ásamt fleiri öflugum konum í bankanum.
Svana Huld er viðskiptafræðingur að mennt og hefur auk þess lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hún hefur gegnt starfi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans frá árinu 2019 en starfaði áður í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka um átta ára skeið. Svana hefur leitt mörg stór verkefni á fjármálamarkaði á undanförnum tíu árum, þar á meðal kaup og sölu fyrirtækja, skráningar félaga á markað og endurfjármögnun. Svana Huld hefur einnig starfað hjá Exista, Kauphöllinni og sem verðbréfamiðlari hjá Búnaðarbankanum.
„Fjárhagslegt sjálfstæði kvenna er gríðarlega mikilvægt og í stað þess að sitja og tala um það ákváðum við að leggja okkar að mörkum til þess að jafna kynjahlutföllin í fjárfestingum. Það eru margar spurningar sem vakna þegar staðan er rædd eins og til dæmis hvort að það vanti fyrirmyndir? eða er viðhorf kynjanna til áhættu, eins og reyndra erlendar rannsóknir gefa til kynna, ekki það sama? Okkur varð fljótt ljóst að fjölbreytileikinn er mikilvægur og konur vilja líklega aðra nálgun og því þyrftum við að breyta okkur til að mæta þeirra óskum og þörfum.“
Lykilþáttur þessa verkefnis er einfaldlega hvatning og fræðsla á aðgengilegu formi. „Samhliða því að við setjum auglýsingaherferð af stað í næstu viku munum við opna sérstakan vef átaksins og þar verður hægt að nálgast upplýsingar um allt sem gott er að vita um fjárfestingar, lífeyrissjóði, sparnað og annað er máli skiptir fyrir fjárhagslegt heilbrigði og sjálfstæði,“ segir Svana Huld og bætir við: „Þá verðum við einnig með fyrirlestraröð, viðtöl við konur, spjallhópa og ýmsa viðburði sem ég hvet allar konur eindregið til að taka þátt í.
Markmiðið er að byggja upp samfélag kvenna sem hafa áhuga á fjármálum og fjárfestingum og hvetja aðrar konur til að setja sig inn í þann heim og taka þátt í honum. Við höfum horft til Norðurlandanna í okkar vegferð og þá sérstaklega Noregs en hjá bankanum DNB í Noregi hefur verið unnið að sambærilegu verkefni með frábærum árangri frá árinu 2020. Árangurinn og ánægjan með verkefnið hefur verið þess eðlis að það hefur dreift úr sér og hóf sem dæmi göngu sína í Svíþjóð á árinu 2023 og nú hér á Íslandi árið 2024,“ segir Svana Huld.
70 ár til að ná jafnri skiptingu
Skipting fjármagns þegar kemur að fjárfestingum, samkvæmt gögnum Arion banka og gögnum Kauphallarinnar, er að jafnaði um 65/35. Það er að segja konur fara fyrir um 35% fjármagns og karlar um 65%. „Hvað varðar eign í hlutabréfum á landsvísu er skiptingin um 70/30 samkvæmt tölum Kauphallarinnar og svipaða sögu má sjá hér hjá okkur. Þegar skoðuð er eign í verðbréfasjóðum er skiptingin aftur um 65/35 körlum í vil og skipting eigna í séreignarsparnaði Arion banka, Lífeyrisauka, er um 60/40,“ segir Svana Huld.
„Við sjáum aukningu í eign á vörslusöfnum þar sem verðbréf eru geymd hjá okkur, en haldi sú aukning áfram með sama hraða mun það hins vegar taka 70 ár að ná jafnri skiptingu. Það er eitthvað sem við sættum okkur að sjálfsögðu ekki við.
Það er hins vegar ekki eintómt svartnætti í gögnunum
okkar. Ljós í myrkrinu. Við getum lesið út úr þeim aukinn áhuga hjá konum og þá sérstaklega hjá ungum konum. Við sjáum það að fjöldi kvenna með vörslusafn hjá bankanum hefur aukist um 45% á síðastliðnum þremur árum og er
hlutfall kvenna með vörslusafn hjá okkur nú 42%.“
Hvattar til þátttöku
Iða Brá segir konur hafa sótt í sig veðrið á undanförnum
áratugum á öllum sviðum, meðal annars í atvinnulífinu. „Þar sjáum við til dæmis að konur eru í dag um 22% framkvæmdastjóra stórra fyrirtækja, sem er mikil aukning frá árinu 1999 þegar konur voru einungis um 5% þeirra sem stýrðu stórum fyrirtækjum landsins. 22% er hins vegar nokkuð langt frá 50%,“ segir Iða Brá.
„Við sjáum þennan sama mun endurspeglast í tekjudreifingu ef við skoðum tekjutíundir, en inni í þeim tölum eru bæði launatekjur og fjármagnstekjur. Þegar horft er til lægri tekna er munur milli kynja ekki ýkja mikill en eftir því sem við færum okkur ofar eykst munurinn og í topp 10% teknanna er munurinn orðinn 26% og 45% þegar komið er í efsta 1%.“
Þá fullyrðir Iða Brá að upphaf þessa verkefnis má rekja til þess þegar starfsfólki Arion banka varð tíðrætt um mikilvægi þess að virkja konur til að fjárfesta í meira mæli og mæta þeim á þeirra forsendum. „Við áttuðum okkur á því að líklega vilja konur aðra nálgun og því þyrftum við að breyta okkur, til að mæta þeirra óskum og þörfum,“ segir Iða Brá.
Iða Brá segir að það sé komið að jákvæðum breytingum með markmiði þessu, enda eykst munurinn þar þegar fram í sækir. „Það er okkar að taka við keflinu og taka forystu á þessu sviði. Því hvetjum við allar konur til að vera með í þessu átaki með okkur. Látið vinkonur ykkar, frænkur, mæður og dætur vita, mætið á viðburði þar sem fjallað er um fjárfestingar, horfið á streymi og takið konurnar í lífi ykkar með.“