Kvikmyndir Oppenheimer, með Cillian Murphy í aðalhlutverki, sópaði að sér tilnefningum til Óskarsins en keppinauturinn Barbie hlaut aðeins átta.
Kvikmyndir Oppenheimer, með Cillian Murphy í aðalhlutverki, sópaði að sér tilnefningum til Óskarsins en keppinauturinn Barbie hlaut aðeins átta.
Kvikmyndin Oppenheimer í leikstjórn Christophers Nolans hlýtur flestar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna í ár eða alls þrettán. Tilkynnt var um tilnefningarnar síðdegis í gær. Oppenheimer hlýtur meðal annars tilnefningar í flokki bestu kvikmyndar…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Kvikmyndin Oppenheimer í leikstjórn Christophers Nolans hlýtur flestar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna í ár eða alls þrettán. Tilkynnt var um tilnefningarnar síðdegis í gær.

Oppenheimer hlýtur meðal annars tilnefningar í flokki bestu kvikmyndar og bestu leikstjórnar auk þess sem Cillian Murphy var tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki og Emily Blunt og Robert Downey Jr. fyrir bestan leik í aukahlutverkum.

Næstflestar tilnefningar hlaut mynd Yorgos Lanthimos, Poor Things, eða samtals ellefu tilnefningar. Mynd Martins Scorseses, Killers of the Flower Moon, hlaut síðan 10 tilnefningar.

Athygli vekur að mynd Gretu Gerwig, Barbie, sem spáð hafði verið góðu gengi, hlaut átta tilnefningar en hvorki leikstjórinn Gerwig né aðalleikkonan Margot Robbie voru tilnefndar. Ryan Gosling og America Ferrera voru hins vegar tilnefnd í flokki leikara í aukahlutverki auk þess sem tvö lög úr myndinni voru tilnefnd í flokki frumsaminna laga.

Maestro í leikstjórn Bradleys Coopers hlaut sjö tilnefningar og American Fiction, Anatomy of a Fall, The Holdovers og The Zone of Interest hlutu síðan fimm tilnefningar hver mynd.

Triet eini kvenleikstjórinn

Í flokki bestu kvikmyndar ársins voru tilnefndar American Fiction, Anatomy of a Fall, Barbie, The Holdovers, Killers of the Flower Moon, Maestro, Oppenheimer, Past Lives, Poor Things og The Zone of Interest. Í frétt The Guardian kemur fram að The Zone of Interest sé fyrsta breska myndin í 24 ár til þess að hljóta tilnefningu í þessum flokki.

Tilnefningu fyrir bestu leikstjórn hlutu Justine Triet fyrir Anatomy of a Fall, Martin Scorsese fyrir Killers of the Flower Moon, Christopher Nolan fyrir Oppenheimer, Yorgos Lanthimos fyrir Poor Things og Jonathan Glazer fyrir The Zone of Interest. Triet er eina konan sem tilnefnd er í flokknum.

Leikararnir Bradley Cooper (Maestro), Colman Domingo (Rustin), Paul Giamatti (The Holdovers), Cillian Murphy (Oppenheimer) og Jeffrey Wright (American Fiction) og leikkonurnar Annette Bening (Nyad), Lily Gladstone (Killers of the Flower Moon), Sandra Huller (Anatomy of a Fall), Carey Mulligan (Maestro) og Emma Stone (Poor Things) hlutu tilnefningu fyrir bestan leik í aðalhlutverki.

Fyrir bestan leik í aukahlutverki eru tilnefndar leikkonurnar Emily Blunt (Oppenheimer), Danielle Brooks (The Color Purple), America Ferrera (Barbie), Jodie Foster (Nyad) og Da'Vine Joy Randolph (The Holdovers) og leikararnir Sterling K. Brown (American Fiction), Robert De Niro (Killers of the Flower Moon), Robert Downey Jr (Oppenheimer), Ryan Gosling (Barbie) og Mark Ruffalo (Poor Things).

Tilnefndar fyrir besta frumsamda handrit eru Anatomy of a Fall, The Holdovers, Maestro, May December og Past Lives og fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni American Fiction, Barbie, Oppenheimer, Poor Things og The Zone of Interest.

Voðala land ekki á blað

Volaða land, kvikmynd Hlyns Pálmasonar, hlaut ekki tilnefningu en hún komst á stuttlista akademíunnar í flokki alþjóðlegra kvikmynda. Kvikmyndirnar fimm sem hlutu tilnefningu í þeim flokki voru The Teachers' Lounge frá Þýskalandi, Io Capitano frá Ítalíu, Perfect Days frá Japan, Society of the Snow frá Spáni og The Zone of Interest frá Bretlandi.

Sjálf Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin í Hollywood 10. mars og mun þáttastjórnandinn Jimmy Kimmel stýra athöfninni. Verðlaunin eru ákvörðuð með atkvæðum frá ellefu þúsund fagmönnum úr kvikmyndabransanum frá 93 löndum.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir