„Ein meginástæða launamunar kynjanna er að við metum hefðbundin kvennastörf síður en hefðbundin karlastörf til launa og þau samfélagslegu verðmæti sem þau skapa,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir.
„Ein meginástæða launamunar kynjanna er að við metum hefðbundin kvennastörf síður en hefðbundin karlastörf til launa og þau samfélagslegu verðmæti sem þau skapa,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Landsmenn fylgjast spenntir með framvindu kjarasamningsviðræðna og ljóst að bæði fulltrúar vinnuveitenda og launþega hafa í nógu að snúast um þessar mundir. Sonja Ýr segir það eina af meginkröfum BSRB í viðræðum félagsins við stjórnvöld að endurmat…

Landsmenn fylgjast spenntir með framvindu kjarasamningsviðræðna og ljóst að bæði fulltrúar vinnuveitenda og launþega hafa í nógu að snúast um þessar mundir. Sonja Ýr segir það eina af meginkröfum BSRB í viðræðum félagsins við stjórnvöld að endurmat eigi sér stað á virði kvennastarfa og að bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í starfseminni þessi misserin?

Það eru 19 aðildarfélög í BSRB en flest þeirra eru með kjarasamninga við ríki og sveitarfélög sem renna út í lok mars, og nokkur sem semja á almennum vinnumarkaði en samningar þeirra eru að losna um mánaðamótin eða eru þegar lausir. Megináskorunin fram undan er að vinna gegn verðbólgu og vöxtum til að tryggja kaupmátt og afkomu launafólks.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Síðasti fyrirlestur sem ég sótti var kynning Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins á könnun um stöðu foreldra barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára. Helstu niðurstöður voru að konur minnka í mun meiri mæli en karlar starfshlutfall sitt til að samræma betur vinnu og heimilislíf, lengja frekar fæðingarorlof, eru lengur frá vinnu til að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og bera mun meiri ábyrgð á börnum að því loknu. Enn fremur bera þær meiri ábyrgð á samskiptum við skóla barna. Það hefur mikil áhrif á tekjumöguleika þeirra en atvinnutekjur kvenna eru 21% lægri á ársgrundvelli en karla. Um þriðjungur kvenna á íslenskum vinnumarkaði er í hlutastörfum og þetta hlutfall hefur ekki haggast í nánast áratug. Þá er fjárhagsstaða einhleypra foreldra mun verri en sambúðarfólks samkvæmt niðurstöðunum sem endurspeglast í því að hátt hlutfall þeirra hefur ekki efni á t.d. íþróttanámskeiðum fyrir börnin sín eða að veita þeim næringarríkan mat.

Fjármálaráðuneytið gerði úttekt á áhrifum barneigna á ráðstöfunartekjur foreldra og niðurstöðurnar eru sláandi. Sterkar vísbendingar eru um að ráðstöfunartekjur feðra lækki um 3-5% á fæðingarári barns en séu svo á öðru og þriðja ári eftir fæðingu barns svipaðar og ætla má að þær hefðu orðið ef ekki hefði komið til barneigna. Áhrifin á ráðstöfunartekjur mæðra eru allt önnur og mun meiri. Ráðstöfunartekjur þeirra lækka um 30-40% á fæðingarári barns, vaxa svo smám saman en eru þó ekki nema um 80% á þriðja ári frá fæðingu barns miðað við hvað ætla má að þær hefðu orðið án barneigna.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hefur líklega haft mest áhrif á mig en hún hefur verið öflug í því að skora úreltar hagfræðikenningar á hólm. Hagfræði hefur veruleg áhrif á stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda, á vinnumarkaði og við lagasetningu. Hagfræði er félagsvísindagrein en áherslan á stærðfræðileg rök í fræðunum leiðir til þess að nálguninni er gjarnan tekið sem raunvísindum. Þessi nálgun veitir falskt öryggi þar sem mikilvægir og órjúfanlegir þættir í okkar samfélagi á borð við heilsu, umhverfið og ójöfnuð eru ekki hluti af klassískum hagfræðimódelum. Fyrir utan Mazzucato hafa til dæmis Stephanie Kelton og Kate Raworth fjallað um þetta efni hvor með sínum hætti. Það er ekki er hægt að mæla allt það sem telst mikilvægt fyrir okkur sem samfélag og það sem er mælanlegt er ekki endilega alltaf það sem er mikilvægast. Mazzucato spyr þeirrar grundvallarspurningar hvernig við skilgreinum verðmæti og hverjir ákveði hvað þau feli í sér. Meginskilaboð Mazzucato eru að efnahagsákvarðanir eigi að þjóna fólki og stjórnvöld þurfi að marka sér skýra sýn um hvernig samfélagi þau vilji stuðla að, allar ákvarðanir þeirra taki mið af því markmiði og þannig móti þau samfélagið.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi byrja á því að lögfesta aðgerðir til að leiðrétta laun hefðbundinna kvennastétta, þ.e. störf þar sem konur eru í miklum meirihluta. Ein meginástæða launamunar kynjanna er að við metum hefðbundin kvennastörf síður en hefðbundin karlastörf til launa og þau samfélagslegu verðmæti sem þau skapa. Þá myndi ég lögfesta rétt barna til leikskólapláss strax að loknu fæðingarorlofi og tryggja að stuðningskerfin okkar á borð við barnabætur og húsnæðisstuðning séu uppfærð þannig að þau þjóni markmiðum sínum og fylgi launa- og verðlagsbreytingum.

Ævi og störf:

Nám: Stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1998; BS-gráða í viðskiptalögfræði frá lagadeild Háskólans á Bifröst 2007 og meistaragráða í lögum frá sama skóla 2009.

Störf: Lögfræðingur BSRB 2008 til 2018; stundakennari og aðjúnkt við lagadeild og viðskiptadeild Háskólans á Bifröst 2011 til 2018; stundakennari við lagadeild og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík 2014 til 2018 og formaður BSRB frá 2018.

Áhugamál: Líkt og hjá öðrum foreldrum er samvera með fjölskyldunni efst á forgangslista í frítímanum en þar fyrir utan hef ég mikinn áhuga á listum og menningu. Ég leitast við að komast út í náttúruna og finnst gaman að prófa eitthvað nýtt í góðra vina hópi.

Fjölskylduhagir: Ég á dæturnar Rakel og Freyju.