Félagskonur fengu að skoða nýtt og stórglæsilegt hús Landsbankans. Unnur Elva og stjórnarkonur FKA fremstar á mynd.
Félagskonur fengu að skoða nýtt og stórglæsilegt hús Landsbankans. Unnur Elva og stjórnarkonur FKA fremstar á mynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég gekk í FKA fyrir 12 árum og fyrsta árið gerði ég nákvæmlega ekki neitt,“ segir Unnur Elva Arnardóttir sem tók við sem formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, í vor. Unnur Elva er forstöðumaður hjá Skeljungi, fædd og uppalin á Akureyri…

Ég gekk í FKA fyrir 12 árum og fyrsta árið gerði ég nákvæmlega ekki neitt,“ segir Unnur Elva Arnardóttir sem tók við sem formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, í vor. Unnur Elva er forstöðumaður hjá Skeljungi, fædd og uppalin á Akureyri og er þakklát konum sem rutt hafa brautina og hvetur fleiri konur til að láta til sín taka og gera sig gildandi í félaginu. Unnur Elva segir að þótt það hafi tekið sig dágóðan tíma að opna sig fyrir félaginu og félagsskapnum frá skráningu hafi hún á endanum fundið fyrir mikilli lífsbreytingu með þessari ákvörðun að ganga í félagið enda myndar tengslanetið sig ekki sjálft.

FKA er ætlað konum sem eru stjórnendur og leiðtogar í
íslensku atvinnulífi og félagið stendur fyrir viðburðum, fræðslu, veitir ráðgjöf og knýr fram breytingar á lögum og venjum til að gæta jafnvægis og fjölbreytileika innan atvinnulífsins.

Félagið vinnur með ýmsum aðilum á vinnumarkaði, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera að því að efla og benda á þátt kvenna í stjórnum eða stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Styrkleikar FKA liggja í gildum félagsins; framsækni, kunnáttu og afli, en þau standa fyrir kröftugt og fjölbreytt þekkingarnet félagskvenna. Framsækni vísar í kraftinn sem býr í FKA-konum og hlutverk þeirra í að auka fjölbreytileikann í íslensku atvinnulífi. Kunnátta vísar í að FKA miðlar þekkingu og reynslu til félagskvenna og leggur áherslu á hvatningu og tengsl. Afl vísar til að FKA er leiðandi hreyfiafl í íslensku atvinnulífi.

„Þinn tími er kominn, kona!“

„Ég var hvött til að skrá mig í FKA hér um árið og var sagt að þetta væri félagsskapur sem ég ætti klárlega heima í og ég vil nota tækifærið til að hvetja konur til að skrá sig til leiks, vera með og efla sig með þátttöku í FKA og þá sérstaklega á afmælisárinu en FKA fagnar 25 ára afmæli í ár,“ segir Unnur Elva og bætir við glöð í bragði: „Það skiptir engu máli þótt þú þekkir enga í félaginu því í FKA stækkarðu einmitt tengslanetið og því er ekkert annað en að skrá sig til leiks. Loksins þegar ég fór að taka virkan þátt opnuðust fjölmörg tækifæri. Þinn tími er kominn, kona!“

Það voru framsýnar og öflugar konur sem stofnuðu FKA hinn 9. apríl árið 1999. Stofnfélagar FKA voru tæplega þrjú hundruð og stóð FKA fyrst fyrir Félag kvenna í atvinnurekstri með Jónínu Bjartmarz í fremstu röð sem fyrsta formann
félagsins. Nafninu var síðar breytt í Félag kvenna í atvinnulífinu til að mynda enn stærra og öflugra tengslanet athafnakvenna og leiðtoga úr öllum greinum atvinnulífsins sem gætir hagsmuna, eflir samstöðu og samstarf kvenna í atvinnulífinu.

„Fyrsta FKA-viðurkenningin var veitt á fyrsta starfsári
félagsins og síðan þá hafa verið veittar viðurkenningar á hverju ári til að vekja athygli á konum sem eru að gera góða hluti í atvinnurekstri og atvinnulífinu á Íslandi. Það er mikil tilhlökkun fyrir viðurkenningarhátíðinni 24. janúar þar sem við heiðrum konur á Grandhóteli Reykjavík með Ölgerðinni. Félagið er með hreyfiaflsverkefni á borð við Jafnvægisvog FKA sem ætlað er að knýja fram breytingar í atvinnulífinu til að jafna stöðu kynjanna og það eru reglulega jól hjá okkur,“ segir Unnur Elva og kveðst vera stolt FKA-kona.

Tækifærin eru fyrir hendi

Félagið stendur fyrir viðburðum, fræðslu og hefur áhrif á samfélagsumræðuna, hefur aldrei verið stærra og samanstendur af tæplega 1.450 félagskonum af landinu öllu sem ýmist eru með eigin atvinnurekstur eða eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi. Félagið er með deildir, landsbyggðardeildir, nefndir og ráð sem gegna ólíkum hlutverkum. „Margt hefur breyst og margt að þakka fyrir en jafnréttið hefur ekki komið af sjálfu sér, það er nokkuð ljóst. Enn eigum við langt í land en tækifærin eru fyrir hendi og þá er bara að nýta þau og jafna hlut kynjanna í leik og starfi,“ segir Unnur Elva.

Það er óhætt að segja að konur á Íslandi séu alls konar og því hefur skipuritið tekið breytingum í takt við nýja tíma. „New Icelanders FKA er nefnd kvenna af erlendum uppruna sem eru að fóta sig í íslensku atvinnulífi svo eitthvað sé nefnt en markmiðið er að þessar ólíku raddir heyrist innan félagsins og utan til að gera betur í dag en í gær hvað viðkemur jafnrétti. Svo má ekki gleyma að við erum að eldast sem þjóð og
félagið bjó til platínuhóp FKA sem er fyrir konur 67 ára og eldri, miklar valkyrjur þar á ferð.“

Unnur Elva segist ekki hafa þorað að mæta í heilt ár eftir að hún skráði sig í félagið en eftir að hún skráði sig í stjórn viðskiptanefndar þess fór hún að finna sig, eflast og sér ekki eftir því. „Ég hef fengið svo mikið út úr þessu. Nefndin sem ég fór í sér um árlegt jólarölt FKA og viðburði í sambandi við heimsóknir í fyrirtæki og með að skrá mig í nefnd vissi ég að ég yrði að mæta á viðburði. Þarna kynntist ég konum sem ég lít á sem vinkonur mínar í dag og leita oft til og hef stórgrætt á þessu öllu saman. Það er ekki mikið að gerast er kemur að tengslaneti ef þú ert bara heima uppi í sófa.

Það voru ákveðnar breytingar sem mig langaði að gera og er að vinna í, þetta er mjög stórt félag og slík breyting klárast ekki á einni nóttu,“ segir Unnur Elva aðspurð hvað hafi heillað við formannsstarfið. „Það er mikilvægt á tímamótum sem þessum að fagna því sem hefur áunnist og leggja línurnar fyrir áframhaldið. Með 25 ára sögu að baki er margt hægt að nefna þegar litið er til baka og telja á upp sem hefur verið gefandi og heppnast vel. Við erum með frábæra afmælisnefnd sem er að leggja lokadrög að dagskrá afmælisárs, fjölmargir stórviðburðir komnir á dagskrá og við höldum áfram að láta til okkar taka.“