Sigrún Halldórsdóttir fæddist í Hleiðargarði, Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 24. október 1933. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 15. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Halldór Friðriksson bóndi, f. 23.5. 1902, d. 20.12. 1973, og Rósa Sveinbjörnsdóttir húsmóðir, f. 29.6. 1904, d. 9.11. 1967. Systkini Sigrúnar eru Sveinbjörn Karl, f. 12.10. 1928, d. 27.6. 2002, Friðrik Baldur, f. 19.12. 1929, d. 15.2. 1988 og Jóhann Þór Halldórsson, f. 12.9. 1938, d. 31.12. 2006.

Hinn 15. janúar 1970 giftist Sigrún Óttari Ketilssyni frá Finnastöðum í Eyjafirði, f. 19.4. 1927, d. 12.7. 2006. Foreldrar hans voru Ketill Guðjónsson bóndi, f. 11.10. 1900, d. 20.7. 1987 og Hólmfríður Pálsdóttir húsfreyja, f. 1.10. 1900, d. 20.5. 1987. Synir Óttars af fyrra hjónabandi eru Halldór og Þórir.

Börn Sigrúnar og Óttars eru: 1) Rósberg Halldór, f. 22.10. 1968, kvæntur Þórdísi Rósu Sigurðardóttur, f. 28.12. 1967. Börn þeirra eru: a) Kristinn Þór. Sambýliskona Vaka Arnþórsdóttir. Börn Embla Dröfn og Orri Snær. b) Júlía Rún. Sambýlismaður Jóhann Örn Sigurjónsson. Dóttir Natalía Sigrún. Fyrir átti Þórdís Rósa dótturina Hafdísi. Maki Haraldur Örn Hansen. Börn Þórdís Freyja og Aron Breki. 2) Hrafnborg, f. 5.9. 1970. Dætur hennar eru: a) Tinna Mjöll. Sonur Magnus Julius. b) Alexandra. 3) Brynjar Karl, f. 21.10. 1975, kvæntur Hildi Hauksdóttur, f. 7.3. 1976. Synir þeirra eru: a) Haukur. Sambýliskona Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir. b) Óttar Örn.

Sigrún ólst upp í foreldrahúsum í Hleiðargarði. Hún gekk í farskóla en sótti einnig skóla í nýbyggðu skólahúsnæði í Sólgarði. Ung að árum tók Sigrún virkan þátt í heimilis- og bústörfum eins og þá var títt með börn til sjávar og sveita. Hún hafði dálæti á lestri góðra bóka, söng í kirkjukór Saurbæjarhrepps og tók þátt í leiksýningum í heimabyggð. Eftir að Sigrún sleit barnsskónum flutti hún til Akureyrar. Þar sinnti hún húsmóðurstörfum og vann um skeið sem aðstoðarráðskona í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau Sigrún og Óttar í Helgamagrastræti 44. Árið 1974 fluttu þau í Kristnesþorp í Eyjafirði. Samhliða störfum við Kristneshæli og síðar Kristnesspítala sinntu þau hjónin kartöflurækt og nutu þess að ferðast um landið sitt. Sigrún lét af störfum vegna aldurs árið 2003. Haustið 2019 flutti Sigrún á hjúkrunarheimilið Hlíð þar sem hún dvaldist síðustu æviárin.

Sigrún verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, 24. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma mín. Komið er að kveðjustund. Ég kveð þig með miklum söknuði en jafnframt vissu um að við munum hittast aftur síðar. Margs er að minnast og fátækleg orð á blaði mega sín lítils.

Ég á margar góðar minningar um samverustundir okkar, mamma. Manstu eftir öllum útilegunum sem við fjölskyldan fórum saman í, vítt og breitt um landið með troðfulla leðurtöskuna þína af alls konar góðgæti sem þú hafðir útbúið áður en við lögðum í´ann? Eða öllum ógleymanlegu stundunum þegar við horfðum saman á skemmtilega Hollywood-bíómynd í sjónvarpinu eða hlustuðum á góða 80´s-tónlist. Og öllum ferðunum sem við tvö fórum saman í bæinn með Hælisbílnum, þegar við fórum upp og niður rúllustigann í Vöruhúsi KEA, í ævintýraveröldina hans Sigga Gumm og í Lystigarðinn þar sem við hvíldum okkur áður en við röltum saman á Bögglageymsluna til að bíða eftir Hæló.

En þetta eru ekki endilega minningarbrotin sem koma fyrst upp í hugann á þessari stundu. Litlu hversdagslegu augnablikin sem við höfum tilhneigingu til að líta á sem sjálfsögð fá allt í einu meira vægi nú þegar þú ert horfin á braut. Þegar ég sem lítill strákur hljóp oft og iðulega upp í Hæli á meðan þú varst í vinnunni, til þess eins að þvælast með þér og heyra hláturinn þinn sem gladdi lítið barnshjarta. Eða öll skiptin þegar við sátum saman eftir að pabbi dó, drukkum kaffi og spjölluðum saman um allt á milli himins og jarðar. Ég mun líka varðveita minningar af góðum stundum okkar saman eftir að þú fluttir á Hlíð. Þar héldum við uppteknum hætti yfir kaffibolla og spjalli og smitandi hlátur þinn gæddi tilveruna lífi allt til síðasta dags.

Mamma. Þú varst alla tíð ung í anda. Með léttleika þínum og gleði kenndir þú mér að aldur er aðeins tala. Þú áttir langt og gott líf og fyrir það er ég þakklátur. Ég hefði líklegast þakkað almættinu ef ég sem strákur heima í Kristnesi 11 hefði fengið að skyggnast inn í framtíðina og séð að ég tæplega fimmtugur að aldri myndi fagna með þér á níræðisafmælinu þínu. Það breytir hins vegar ekki því að nú þegar stundin er runnin upp að loknu góðu dagsverki, upplifi ég tómleika og í mér slær lítið barnshjarta á ný. Góður vinur sagði eitt sinn eitthvað á þessa leið þegar hann á fullorðinsaldri missti báða foreldra sína með stuttu millibili: „Mér líður eins og ég sé munaðarlaus.“ Ég skil núna hvað hann átti við. Það er alltaf erfitt að kveðja ástvin hinstu kveðju, óháð aldri. Aldur er jú aðeins tala.

Takk mamma. Takk fyrir umhyggjuna, gleðina og væntumþykjuna. Takk fyrir heiðarleikann og gjafmildina. Takk fyrir nærveru þína. Takk fyrir að vera alltaf til staðar. Takk fyrir allt, mamma.

Mér finnst gott að hugsa til þess að nú ertu komin á áfangastað til fundar við pabba, ömmu og afa, Sveinbjörn, Billa og Jóhann og allt hitt fólkið okkar í sumarlandinu. Ég hugga mig við tilhugsunina um að þú munir kannski kíkja stöku sinnum við og hugmyndina um endurfundi þegar tími okkar kemur sem eftir lifum. Þú ert besti vinur sem ég hef átt. Guð geymi þig, elsku mamma mín.

Brynjar Karl Óttarsson.

Elsku hjartans mamma mín. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Það er svo skrítið og óraunverulegt, að þú sért ekki hér lengur.

Þú hefur alltaf verið mín trygga höfn, bæði í barnæsku minni og líka á mínum fullorðinsárum. Ég minnist barnæskunnar í Kristnesi með brosi á vör og hlýju í hjarta. Þú varst heimsins besta mamma, þar vorum við heppin við systkinin.

Þú varst mikið heima fyrir, sendir okkur örugg af stað í skólann á morgnana og tókst á móti okkur þegar við komum heim, með heitan mat tilbúinn handa okkur. Já, þú varst mikil húsmóðir og gerðir allt, til þess að við hefðum það gott. Þú vannst seinni hluta dags á hælinu eins og það var kallað. Oft kom ég upp eftir til þín í vinnuna, því mér fannst svo langt þangað til þú kæmir heim. Þó þetta væru bara 3-4 tímar sem þú varst í vinnunni. Mér fannst bara alltaf svo notalegt og gott að hafa þig nálægt mér.

Ég minnist með gleði allra ferðalaganna sem við fórum í á sumrin, við fjölskyldan. Allar útilegurnar þar sem við tjölduðum einhvers staðar við einhvern læk þegar farið var að kvölda og héldum svo áfram för næsta dag.

Allar sumarbústaðarferðirnar, hér og þar um landið. Oft var frændfólk eða vinir með í för. Þá var glatt á hjalla og það er svo skýrt í minningunni hvað þú naust þessara ferðalaga. Það var alltaf mikil gleði og kátína í kringum þig og hláturinn þinn var svo hár og innilegur. Ég vildi óska þess að ég gæti hlegið eins innilega og þú. Þú hlustaðir mikið á tónlist og alltaf var kveikt á útvarpinu í eldhúsinu. Ég minnist þess að þú tókst oft undir þegar uppáhaldslögin þín glumdu og þau voru nú ófá og oftast létt yfir þeim.

Þú bakaðir mikið og áttir alltaf brauð og kökur til ef einhver skyldi koma og það kom oft að góðum notum.

Mér fannst alltaf svo gott að tala við þig og þú varst sú sem ég leitaði fyrst til ef eitthvað var. Þú varst bara einhvern veginn alltaf með svörin við öllu. Þegar ég, 24 ára að aldri, sagði þér að ég ætlaði að flytja til Danmerkur fékk ég líka þinn stuðning. Þó ég viti vel að það var ekki auðvelt fyrir þig að sjá einkadótturina flytja af landi brott.

Ég hef svo oft hugsað um þetta og haft samviskubit yfir því að hafa sett þig í þá stöðu. Hugsa líka oft um það hvað ég hef misst af miklum og dýrmætum tíma með þér í öll þessi ár. En elsku mamma, ég ætlaði ekki að vera svona lengi í burtu. Sem betur fer höfum við átt margar ómetanlegar samverustundir, þó ég hafi búið langt í burtu. Öll fríin mín hér sem voru oft fleiri en eitt á ári og allar heimsóknirnar þínar til Danmerkur. Þú hefur alltaf verið yndisleg amma fyrir Tinnu og Alexöndru og eiga þær margar dýrmætar minningar frá öllum þessum fríum okkar. Það var yndislegt að þú náðir að kynnast Magnúsi litla langömmustráknum þínum í einu af fríunum okkar hjá þér. Við munum sjá til þess að minning þín lifi áfram.

Elsku mamma, ég er svo þakklát að hafa átt þig fyrir mömmu og ég sakna þín mikið. Ég mun geyma allar dásamlegu minningarnar um þig í hjarta mínu.

Ég elska þig.

Þín dóttir,

Hrafnborg.

Mamma var ekki bara mamma.

Ég átta mig á því núna þegar kemur að kveðjustund að ég er ekki bara að kveðja mömmu heldur minn langbesta vin og félaga. Hún ól mig óaðfinnanlega upp að mínu mati og í minningunni eru æskuárin eintóm gleði og hamingja. Hún var vissulega stundum óþarflega áhyggjufull þegar maður komst á unglingsárin og vakti t.a.m. eftir manni næturlangt ef maður var úti á lífinu. Það var bara hún, ekki séns að sofna fyrr en fólkið hennar var komið í hús. Eitt af því sem stendur upp úr í minningunni voru öll ferðalögin innanlands með mömmu og pabba og systkinum sem eru mér svo mikils virði og á ég margar hlýjar minningar frá þeim tíma. Mamma var góð húsmóðir, eldaði góðan mat, bakaði mikið, gerði góðar sultur með helling af sykri, vá hvað þetta var gott. Við fjölskyldan vorum svo lánsöm að búa lengst af á paradís á jörð, Kristnesi. Þvílík forréttindi að alast upp á svona stað. Dásamleg náttúra, dásamlegt fólk í þorpinu og „Hælið“ sem var vinnustaður mömmu og pabba og leiksvæði okkar krakkanna. Mömmu leið afar vel í Kristnesi og eftir að pabbi dó árið 2006 bjó mamma þar áfram til ársins 2019 en þá flutti hún á dvalarheimilið Hlíð. Fráfall pabba var mömmu mikið áfall og í kjölfarið vorum við Dísa og krakkarnir mjög oft hjá henni í Kristnesi. Hún snerist í kringum okkur, bakaði og eldaði til skiptis, sagði sögur, barði hnefanum í lærið á sér og skellihló. Aldrei lognmolla í kringum hana. Árin sem ég bjó á Hrísum keyrði ég daglega til vinnu á Akureyri og var ég ansi tíður gestur hjá mömmu í Kristnesi. Það var ekkert betra en að kíkja við í bolla á leið fram eftir og láta mömmu snúast aðeins í kringum mig. Það sem meira var að hún elskaði að snúast í kringum mig. Það var um þetta leyti sem samband okkar fór að þróast út í mikla vináttu sem erfitt er að útskýra öðruvísi en þannig að við opnuðum okkur upp á gátt og treystum hvort öðru fyrir hlutum sem ég hefði aldrei trúað í æsku að ég myndi ræða við mömmu mína. Á þessum tíma var farið að bera á minnisleysi hjá mömmu og ljóst að það væri óumflýjanlegt að hún færi inn á dvalarheimili sem svo varð raunin 2019. Heilt yfir átti hún góðan tíma þar þó svo að covid-tímabilið hafi verið henni erfitt enda nýflutt þá á Hlíð. Mamma varð níræð í október 2023 og hélt upp á daginn með pomp og prakt. Þarna voru mættir hennar bestu vinir og fjölskylda og skemmtu sér konunglega með henni. Virkilega góður og dýrmætur dagur. Hláturinn sem var hennar einkennismerki fylgdi henni nánast til dauðadags enda sagði hún alltaf „ef ég hætti að hlæja þá er þetta búið“.

Takk fyrir allt mamma.

Þinn sonur,

Rósberg.

Ég man varla eftir öðru en að hafa Lillu, tengdamóður mína, í lífi mínu. Ég var átján ára þegar við kynntumst og síðan eru liðin 30 ár. Mikið var ég lánsöm og nú þegar við fylgjum henni síðasta spölinn er þakklæti mér efst í huga. Mér þótti svo vænt um Lillu mína. Þessa elskulegu konu sem var mér samferða meðan ég myndaðist við að koma undir mig fótunum, mennta mig, stofna heimili, eignast börnin mín og eldast svolítið sjálf. Lilla var feimin en hláturmild, ákveðin en auðmjúk og lífsglöð þó stundum stigi hún ölduna. Bóngóð með eindæmum og svo óskaplega blíð.

Elsku Lilla mín. Hún þveraði kynslóðir því rétt eins og aðrir sem fæddust á millistríðsárunum þekkti hún skort og ráðdeild. Þegar kom að dægurmenningu skautaði hún yfir kynslóðir og hlustaði á popp og elskaði pítsur. Hló sig máttlausa á stelpukvöldum með miklu yngri frænkum sínum, feimna konan sem elskaði rétta selskapinn og rífandi stemningu.

Elsku Lilla mín. Ég gæti ekki hafa óskað mér betri ömmu fyrir drengina mína. Hún bar virðingu fyrir börnum og hafði svo einstakt lag á þeim. Tíminn var ekki til þar sem hún sat með barnabörnunum sínum við eldhúsborðið. Þau áttu athygli hennar óskipta. Börnin höfðu frá ýmsu að segja og Lilla mín hlustaði með athygli. Hún hvatti þau til dáða og hló dátt að öllum skrítlum. Lilla gætti drengjanna minna mikið þegar þeir voru að vaxa úr grasi. Fyrir það fæ ég aldrei þakkað nóg. Það brást aldrei að þegar ég kíkti í eldhússkúffurnar mínar var búið að lauma þar inn nýrri rýju, strjúka viskustykki upp á nýtt eða koma einhverju haganlega fyrir. Ég hef aldrei þekkt eins natna og nostursama konu og tengdamóður mína.

Elsku Lilla mín. Litla stúlkan í Hleiðargarði sem fékk ekki hjól eins og bræður hennar. „Það var allt í lagi,“ sagði Lilla, „ég hljóp bara hraðar!“ Níræðisafmælið hennar bar upp á nýliðið kvennaverkfall. Það var viðeigandi að verja deginum með henni á Víðihlíð. Á kvennafrídaginn 1975 lá hún á sæng með Brynjar minn og trúði mér fyrir því að þá hefði hún verið meyr yfir að geta ekki tekið þátt í deginum. Við fögnuðum afmælinu saman við harmonikkuspil og bárum hana á höndum okkar. Okkar besta kona sem helgaði líf sitt því að búa börnum sínum og seinna barnabörnum og langömmubörnum gott og kærleiksríkt líf.

Ég kveð tengdamóður mína með auðmýkt og virðingu. Það var lífsins lán að vera Lillu samferða og ég mun sakna hennar alla tíð.

Hildur Hauksdóttir.

Í dag fylgi ég elskulegri tengdamóður minni síðasta spölinn. Það er margs að minnast með gleði og hlátur í hjarta. Fyrsta minning sem kemur upp í hugann er hve gott var að koma í Kristnesið góða, ganga um Kristnesskóg með elsku Rósberg þínum var í raun fyrsta upplifun mín af þeirri tilfinningu að líða vel í skógi. Að finna kyrrðina og fegurðina er einhvern veginn ólýsanleg sem var í Kristnesskógi og í þorpinu. Samvera í kartöflugarðinum, þó ég bæjarstelpan hafi nú stundum ekki skilið hvernig þið fjölskyldan nenntuð að taka upp, stundum tonn af kartöflum með höndunum. Gómsæta döðlutertan þín, jólahefðin sem börnin okkar Rósbergs lærðu hjá ykkur Óttari er löngu orðin ein mikilvægasta jólahefðin í þeirra lífi. Hláturinn þinn sem allir þekkja og elska. Það var erfitt fyrir okkur öll að missa þá tengingu að koma til þín í Kristnes, að keyra upp Kristnesbrekkuna og sjá þig í glugganum er og verður ætíð ljóslifandi minning. Kristnesbrekkan er eðlilega skemmtilegasta brekkan að hjóla upp og ég man hvað þú varst hissa þegar ég kom á hjólinu til þín og þú sagðir: „Og hjólaðir þú bara upp?“

Allar notalegu og skemmtilegu samverustundirnar í Hlíð þau fjögur ár sem þú bjóst þar á litla og fallega heimilinu þínu er okkar fjársjóður í dag þó auðvitað í marga mánuði hafir þú þurft að vera ein þar nýflutt inn þegar blessaði faraldurinn breytti öllu og það var sárt og erfitt.

Takk fyrir allt, elsku Lilla, sorgin breytist í gleði, nú þegar fallegri vegferð þinni er nú lokið.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þórdís Rósa
Sigurðardóttir.

Elsku yndislega, brosmilda og góðhjartaða amma, ég hef saknað þín í svo langan tíma og nú er söknuðurinn enn meiri og allt öðruvísi en ég hef fundið fyrir áður. Við áttum dýrmætt samband og þegar við vorum saman þá leið mér eins og við værum á sama aldri. Við töluðum um allt milli himins og jarðar. Þú sagðir mér frá mörgum hlutum úr þínu lífi og ég þér. Við slúðruðum um lífið í sveitinni þegar þú varst ung og á seinni árum, margt sem þú trúðir mér fyrir og því hef ég haldið okkar á milli. Ég gleymi því aldrei fyrst þegar ég áttaði mig á að þú værir farin að gleyma meira en þú gerðir í upphafi. Það var erfitt að takast á við það. Erfitt að missa þetta sterka og djúpa samband sem við áttum og finna það fjara lengra frá okkur. Það tók tíma að læra og sjá nýja sambandið á milli okkar.

Ég er svo þakklát fyrir að þú náðir að halda í það sem þér var mikilvægast. Hlátur, gleði og bros. Ég er þakklát fyrir allar okkar bæjarferðir, hvort sem það var klipping, læknisheimsóknir eða búðarferðir þá enduðu þær allar á því sama, kaffibolla, sætabrauði í bakaríinu og góðu spjalli. Ég er þakklát fyrir að þið Natalía Sigrún náðuð að kynnast áður en sjúkdómurinn tók alveg yfir, það var dýrmætt og yndislegt að sjá ykkar samband. Ég er þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á úr barnæsku og enn þakklátari fyrir minningarnar okkar frá því þegar ég varð eldri.

Það var alltaf góð tilfinning að keyra upp brekkuna að notalega húsinu ykkar afa í Kristnesi. Sjá þig brosandi í glugganum á gestaherberginu, tilbúna að taka á móti manni í heimsókn. Alltaf tilbúna með fullt af kræsingum á eldhúsborðinu. Fullt af skemmtilegum minningum frá því þegar ég var lítil að koma í Kristnes. Klifrandi upp og niður svalirnar hjá þér, í fótbolta og leikjum á grasinu fyrir neðan svalirnar, allar ferðirnar í kartöflugarðinn, ferðalögin til Danmerkur, heimsóknirnar til þín á aðfangadagskvöld og jólamaturinn á jóladag eru minningar sem ég held í. Í minningunni var aldrei vont veður í Kristnesi. Þegar ég hugsa til baka þá var alltaf sól og hlýtt hjá þér sem lýsir þér og þínu hjarta svo ótrúlega vel.

Eins og þú tókst alltaf vel á móti manni í heimsókn þá keyrði maður líka alltaf brosandi í burtu frá þér, þú brosandi og vinkandi í glugganum áður en maður gat lagt af stað. Þú horfðir alltaf á eftir manni fara. Já, elsku amma, stundirnar okkar saman voru eftirminnilegar og ég mun aldrei gleyma þeim, hlátrinum þínum eða brosi.

Takk fyrir allt, elsku besta amma mín. Minning þín – hlátur, gleði og bros mun lifa í hjörtum okkar allra. Ég elska þig að eilífu.

Þín

Júlía.

• Fleiri minningargreinar um Sigrúnu Halldórsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.