Þorsteinn Víglundsson er forstjóri Hornsteins og nýjasti gestur Dagmála.
Þorsteinn Víglundsson er forstjóri Hornsteins og nýjasti gestur Dagmála. — Morgunblaðið/Hallur Már
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, í nýjasta þætti Dagmála en þar skyggnist hann yfir sviðið þar sem Samtök atvinnulífsins og hin svokallaða breiðfylking félaga innan ASÍ reyna til þrautar að ná nýjum kjarasamningum

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, í nýjasta þætti Dagmála en þar skyggnist hann yfir sviðið þar sem Samtök atvinnulífsins og hin svokallaða breiðfylking félaga innan ASÍ reyna til þrautar að ná nýjum kjarasamningum. Þorsteinn er jafnframt fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og ráðherra félagsmála

Núgildandi samningar renna sitt skeið á enda innan fárra daga. „Þetta er sameiginlegt verkefni okkar. Öll hin norrænu löndin hafa talsvert fastari tæki fyrir ríkissáttasemjara til að grípa til en við höfum hér. Við höfum einstaklega veikt embætti og við erum með einstaklega veikan vinnumarkað, við erum með fársjúkan vinnumarkað miðað við hin norrænu löndin. Og með einhverjum hætti verðum við að taka á því. Æskilegast væri hins vegar að aðilar vinnumarkaðarins semdu sín á milli um þessar meginreglur vinnumarkaðarins,“ segir Þorsteinn.

Nafnlaun hækki ekki um of

Þrátt fyrir þetta hefur hann trú á því að hægt sé að ná góðum kjarasamningum fyrir alla aðila. Það skipti miklu máli og að nafnlaunahækkanir fari ekki úr böndunum. Bendir hann á að það hafi valdið mikilli verðbólgu hér á landi í gegnum tíðina. Hann segir hætt við að ofspenntar hækkanir á lægsta enda launastigans muni hríslast upp eftir kerfinu. Þannig bendi margt til að 7% nafnlaunahækkun lægstu launa muni kalla á svipaða hækkun á hærri endanum.

„Það myndi þýða 6-7% verðbólgu að lágmarki eins og hagkerfið stendur núna og við verðum að átta okkur á því að hluti hagkerfisins er í erfiðri stöðu. Ef við horfum t.d. á mannvirkjageirann þá er byrjaður samdráttur. Í viðskiptalöndunum í kringum okkur er þung erfið efnahagsleg staða sem hefur áhrif á okkur.“

Núverandi vaxtastig lamandi

Og Þorsteinn bætir við: „Ég vona að við náum einhverri skynsamlegri niðurstöðu í þessari lotu. Sú staða sem við erum í í dag er hvað helst fasteignamarkaðnum til trafala og það gefur augaleið að við getum ekki verið í 10% stýrivaxtaumhverfi til lengdar öðruvísi en að það hafi grafalvarleg áhrif á hagkerfið.“

Hann segir að staðan í Grindavík hafi óhjákvæmilega áhrif á kjaralotuna að þessu sinni. Ljóst sé að ríkissjóður hafi ekki úr endalausu fé að spila. Hann varar við hugmyndum um að ríkið ráðist í uppbyggingu íbúða. Best sé að markaðurinn leysi það mál sjálfur og margt bendi til þess að nægilegt framboð sé á húsnæði á markaðnum um þessar mundir til þess að anna eftirspurn sem skapast ef Grindvíkingar geta ekki snúið aftur heim.