Anna Rut Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs, og Elísabet G. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Kviku.
Anna Rut Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs, og Elísabet G. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Kviku. — Ljósmynd/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ætli það sé ekki blanda af dugnaði, metnaði og heppni. Ég er búin að vinna lengi innan Kvikusamstæðunnar og hef fengið tækifæri til að þróast í starfi og þannig aflað mér góðrar reynslu og þekkingar

Ætli það sé ekki blanda af dugnaði, metnaði og heppni. Ég er búin að vinna lengi innan Kvikusamstæðunnar og hef fengið tækifæri til að þróast í starfi og þannig aflað mér góðrar reynslu og þekkingar. Ég hef því verið dugleg að grípa tækifærin sem mér hafa boðist og reynt að sjá tækifæri í breytingum,“ segir Anna Rut Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs hjá Kviku, spurð að því hvernig hún hafi komist á þann stað sem hún er á í dag.

Elísabet G. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Kviku, segist hafa komist á þann stað sem hún er á í dag með góðri blöndu af samviskusemi, elju, reynslu frá fyrri störfum og líka heppni og tilviljunum. „Mig langar líka að fá að nefna eiginmann minn í þessu samhengi. Auk þess að vera minn besti vinur og einn helsti stuðningsmaður þá hefur hann ætíð tekið virkan þátt í heimilislífinu og við skiptum þriðju vaktinni sanngjarnlega á milli okkar. Verandi fjögurra barna móðir þá hefði ég aldrei tekið við svona ábyrgðarmiklu starfi ef ég væri ekki með góðan stuðning heima fyrir.“

Hreyfanlegt og leiðandi afl

Saga vörumerkis Kviku nær aftur til ársins 2015 þegar MP banki og Straumur sameinuðust í nýjan banka. Markmið sameiningarinnar var að móta sérhæfðari, skilvirkari og arðbærari fjármálaþjónustu sem myndi skila bæði viðskiptavinum og fyrirtækinu sjálfu skýrum ávinningi, að sögn Elísabetar. „Þessi fjármálaþjónusta skyldi vera hreyfanlegt og leiðandi afl, banki umbreytinga – og þar með varð Kvika banki til.

Í dag skiptist bankinn niður í fimm tekjusvið, og eru þrjú þeirra rekin í dótturfélögum undir eigin vörumerki: viðskiptabanka, fyrirtæki og markaði, eignastýringu, tryggingar og starfsemi í Bretlandi en Kvika er eina fjármálafyrirtækið með dótturfélag erlendis sem er með virðisaukandi þjónustu fyrir viðskiptavinahópinn. Eftir nýlega stefnumótunarvinnu er tryggingafélagið okkar TM nú í söluferli þar sem við ætlum að leggja áherslu á að einfalda rekstur samstæðunnar og styrkja hefðbundna bankastarfsemi í samræmi við tilgang og markmið bankans.“

Aukin samkeppni

Anna Rut talar um að tilgangur Kviku sé að auka samkeppni og einfalda fjármál viðskiptavina með því að nýta innviði og fjárhagslegan styrk. „Framtíðarsýn Kviku er umbreytt fjármálaþjónusta á Íslandi með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Við viljum koma auga á tækifæri sem aðrir sjá ekki og auka samkeppni á annars íhaldssömum fjármálamarkaði, allt á okkar forsendum og viðskiptavinum okkar til hagsbóta.

Eitt besta dæmið um það er tilkoma Auðar, dóttur Kviku, sem hafði áhrif á vaxtastig innlánsreikninga á öllum markaðnum. Kvika hefur fjárfest í framúrskarandi vörumerkjum til þess að breikka og styrkja vöruúrval sitt. Í dag er Kvika móðurvörumerki Kviku banka, Kviku eignastýringar, Kviku Securities í Bretlandi og Ortus auk tryggingafélagsins TM. Auk þess eru vörumerkin Auður, dóttir Kviku, Lykill, Aur, Netgíró, Skilum og fleira undir Kviku.

Á liðnu ári stofnaði Kvika svo dótturfélagið Straum sem starfar á sviði greiðslumiðlunar.
Við stefnum því ótrauð áfram á að auka samkeppni og einfalda fjármál viðskiptavina okkar með markvissri vöruþróun.“

Það er þó heilmikið af áskorunum sem fylgja því að starfa á fjármálamarkaði og Elísabet nefnir þá helst regluverkið. „Bankastarfsemi er háð miklu og síbreytilegu regluverki og við í áhættustýringu förum ekki varhluta af því. Við þurfum að uppfylla strangar kröfur eftirlitsins og stór hluti af okkar tíma fer í að skipuleggja hin ýmsu verkefni tengd því. Regluverkið getur verið flókið og strangt en við leggjum mikinn metnað í að innleiða allar þær reglur sem þurfa að vera til staðar hjá okkur til að starfsemi okkar sé fumlaus og standist allar öryggiskröfur.“

Anna Rut bætir við að eins sé heilmikil áskorun að ná að fylgjast með ytra umhverfinu og þeirri þróun sem á sér stað. „Tæknin er til dæmis alltaf að þróast og því mikilvægt að fylgjast vel með og tileinka sér nýjungar, hvort sem það er í leik eða starfi. Dæmi um þetta er gervigreindin sem er á ógnarhraða núna en sú tækni getur nýst fjármálafyrirtækjum eins og Kviku vel. Það er samt mikilvægt að flýta sér hægt í þeim efnum og gera hlutina vel.

Og svo má ekki gleyma tímastjórnun en henni fylgir líka heilmikil áskorun. Að finna tíma til að sinna öllu og passa upp á að tíminn fari í rétta hluti. Undir mínu sviði, rekstri og þróun, eru sex deildir þannig að það er í mörg horn að líta. Það getur þess vegna verið áskorun að festast ekki í daglega amstrinu heldur passa að horfa á stóru myndina.“

Til að ná langt, hvort sem er í heimi fjármála eða annars staðar, þarf styrkleika og að kunna að nýta þá rétt. Þegar Elísabet var í meistaranámi í Bandaríkjunum fékk hún mjög eftirsótta sumarvinnu í fjármálageiranum. Hún segir að sér hafi fundist það skrýtið þar sem hún var í samkeppni við gríðarlega klára einstaklinga.

„Ég man að einn kennarinn minn orðaði þetta á skemmtilegan hátt: „You are smart enough… and you have social skills.“ Ég hló bara að þessu á þeim tíma en eftir því sem ég eldist og sanka að mér meiri reynslu þá átta ég mig alltaf betur og betur á því hvað þessir svokölluðu „social skills“ og tengslanet geta skipt miklu máli.“

Anna Rut tekur undir þetta og segir að það hafi einmitt líka hjálpað henni að vera mjög félagslynd og eiga auðvelt með að vinna með fólki. „Minn helsti styrkleiki er líka klárlega dugnaður og seigla. Maðurinn minn segir oft að ég sé algjör jarðýta sem segir kannski eitthvað. Það hefur líka hjálpað mér, að eiga góðan mann sem hefur alltaf hvatt mig til dáða og verið mér innan handar.“

Gefandi og róandi útivera

Innt eftir því hvað næri hana helst segir Anna Rut að það sé nú helst þetta klassíska, að vera með fjölskyldu og vinum. „Ég á tvö börn sem eru fimm og sex ára og það er yndislegt að fylgjast með þeim þroskast og dafna. Við fjölskyldan reynum að vera dugleg að gera eitthvað skemmtilegt saman, bæði innanlands og erlendis. Mér finnst líka gaman að elda og baka og við erum dugleg að bjóða fólki heim í mat. Svo er útivera alltaf svo hressandi og ég reyni að vera dugleg í garðinum á sumrin en það finnst mér vera einstaklega gefandi og róandi.“

Elísabet tekur í sama streng og segir að samvera með fjölskyldu og vinum sé gulls ígildi. „Svo verð ég að nefna hreyfingu líka. Ég fann þetta til dæmis svo sterkt nýlega þegar nánast öll hreyfing var tekin af mér, hversu slæm ég varð, ekki bara líkamlega heldur andlega líka. Ég fékk sem sagt brjósklos í fyrsta skiptið fyrir um þremur mánuðum og er enn að vinna upp fyrri styrk og getu. Ég æfi blak með HK og þó ég sé ekki enn komin í nógu gott stand til þess að spila þá er ég byrjuð að mæta aftur, gera nokkrar léttar æfingar og hitta liðsfélaga mína, og ég finn hvað þetta gefur mér gríðarlega mikið,“ segir Elísabet einlæg að lokum.