Einhver kynni að halda að barátta við verðbólgu og háa vexti væri verkefni sem sitjandi ríkisstjórn ætti fullt í fangi með. Reyndar er það svo að Bjarni Benediktsson, sem þá var fjármálaráðherra, stimplaði ríkisstjórnina út úr þeirri baráttu í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins sl. haust og vísaði til þess að það væri í höndum Seðlabankans að taka þann slag. Því til viðbótar liggur fyrir að sá ljúfi tónn sem sleginn var af aðilum vinnumarkaðarins rétt fyrir áramót fól það helst í sér að samningsaðilar væru sammála um að ríkisvaldið ætti að taka upp veskið til að þeir gætu náð samningum.
Ofan á þetta bætist við sá kostnaður sem ríkið þarf að ráðast í vegna aðgerða í Grindavík. Hjá því verður varla komist og eflaust hafa flestir skilning á því að ef einhvern tímann reynir á ríkisvaldið og fjármuni þess þá er það einmitt í þeim aðstæðum sem þar hafa skapast. Það þýðir þó ekki að þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur boðað eigi að framkvæma athugasemdalaust. Það verður til að mynda ekki séð í fljótu bragði hvaða gagn sé að því að takmarka skammtímaleigu á húsnæði til ferðamanna eins og boðað hefur verið (á sama tíma og ríkið leigir ógrynni íbúða fyrir hælisleitendur) og rétt er að taka með fyrirvara öllum hugmyndum ríkisins um uppbyggingu ríkisíbúða.
Verkefni ríkisstjórnarinnar er ekki auðvelt og það má vissulega sýna því skilning. Það liggur þó í augum uppi að hvernig sem þær lausnir sem hún boðar verða útfærðar þá mun það að öllum líkindum ýta undir frekari verðbólgu. Hækkun húsnæðisverðs hefur verið einn af megindrifkröftum aukinnar verðbólgu á undanförnum árum. Það segir sig sjálft að þegar færa á íbúa úr um 1.200 fasteignum á milli svæða mun það skapa þrýsting á fasteignamarkað, sem nú þegar annar ekki þeirri eftirspurn sem fyrir er.
Þar reynir einnig á ríkisstjórnina. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu ríkisins í gær að hún vildi skoða hvort hægt væri að endurmeta vægi húsnæðis í verðbólgumælingu Hagstofunnar. Með öðrum orðum, að kippa húsnæðisliðnum út úr verðbólgumælingum. Það væri kannski hægt að breyta bara Pisa-könnuninni líka í leiðinni og fá þannig út betri útkomu? Orð Þórdísar Kolbrúnar voru þó ekki úr lausu lofti gripin því Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hafði talað á svipuðum nótum í viðtali á Bylgjunni á sunnudag og vísaði þar til reynslu Nýsjálendinga eftir jarðskjálftana í Christchurch.
Þórdís Kolbrún dró þó í land í samtali við Viðskiptablaðið í gær og sagði að málefni Grindavíkur og verðbólgumælingar væru tvö aðskilin mál. „Við komumst að sjálfsögðu ekki hjá mögulegum þenslu- og verðbólguáhrifum vegna atburðanna í Grindavík með breytingu á mælistikum heldur með samstilltu átaki þar sem við beitum ríkisfjármálum með skynsamlegum hætti,“ sagði Þórdís Kolbrún. Það er rétt að hrósa henni fyrir þessi skynsömu orð. Svo er bara eftir að koma í ljós hvort verkin fylgi þeim orðum. Verkefnið er sem fyrr segir flókið, því ber að sýna skilning – en það þýðir ekki að hægt sé að taka undir hvaða lausnir sem er.