Valgeir Ólafsson
Mikið er um það að lén eru að flakka á milli nafnaþjóna. Algengast er að þjónustuaðilar óski eftir að breyta tæknilegum tengilið hjá ISNIC til að taka yfir lén og aðstoða notendur við að tengja það við sína þjónustu. Þetta er eitthvað sem við hjá Tölvuaðstoð teljum að eigendur léna ættu að forðast.
Hvað er nafnaþjónn (DNS)?
DNS stendur fyrir Domain Name System og er mikilvægur hluti innviða veraldarvefsins. Sérhvert tæki á internetinu hefur einstakt heimilisfang, svokallaða IP-tölu. IP-talan er nauðsynleg til að finna tækið á netinu, alveg eins og götuheiti er nauðsynlegt til að finna tiltekið heimili. Þar sem erfitt getur verið að muna IP-talnarunnu er notað lén í staðinn, eins og t.d. tolvuadstod.is. Þegar notandi slær inn lénsnafn sendir vafrinn beiðni til nafnaþjóns og biður um IP-tölu lénsins. Nafnaþjónninn flettir upp léninu í gagnagrunni sínum til að finna samsvarandi IP-tölu. Þessu má líkja við að flett sé upp símanúmeri í símaskrá. Þegar tölvan hefur fundið IP-töluna og sannreynt svarið getur hún tengst þeim nafnaþjóni þar sem vefsíðan er geymd og þjónninn sendir vefsíðuna til baka, sem birtist svo í vafranum hjá notandanum.
Nafnaþjónakerfið er skilvirkt og virkar hratt þannig að notendur komist venjulega á vefsíðuna sem þeir leita að á örfáum sekúndum eða sekúndubrotum. Það eru þúsundir nafnaþjónar um allan heim og tölvan notar venjulega þann sem er nálægt til að fá skjótt svar. Ef nafnaþjónn hefur engar upplýsingar um IP-töluna og vefslóðina getur hann spurt annan nafnaþjón þar til hann finnur svarið. Tölvuaðstoð hefur valið að nota Cloudflare sem traustan millilið milli vefsíðna og notenda þeirra. Aðrir aðilar sem bjóða upp á nafnaþjóna hérlendis eru m.a. 1984 og Men&Mice.
Skráning íslenskra léna
Skráning íslenskra léna fer fram á vef ISNIC. Sá sem skráir lén þarf að vera skráður sem tengiliður hjá ISNIC. Lén þarf að uppfylla ýmsar tæknilegar uppsetningarkröfur auk þess sem NIC-auðkenni þurfa að vera handbær. Eitt slíkra NIC-auðkenna kallast tæknilegur tengiliður léns og er sá sem sér um öll tæknimál sem varða lénið. ISNIC leggur mikla áherslu á að tæknilegur tengiliður sé hjá viðeigandi forráðamönnum léns og hafi tæknileg yfirráð yfir léni. Sé tæknilegur tengiliður ekki valinn sérstaklega verður rétthafi léns yfirleitt einnig skráður sem tæknilegur tengiliður.
Forðast skal að skipta um tæknilegan tengilið
Þegar leitað er til tölvufyrirtækis vegna breytinga sem tengjast léni, t.d. vegna hýsingar á vefsíðu, póstþjónsbreytinga eða annarra auðkenninga sem tengjast tilteknu léni, eru margir tilbúnir að taka yfir nafnaþjóninn og færa yfir á sitt svæði þar sem þeir geta stjórnað léninu og aðstoðað viðskiptavininn betur.
Það vill því miður oft gerast að þjónustufyrirtæki horfi aðallega á færslur sem snúa að sér en gleymi að færa nafnaþjónafærslur eða færi jafnvel rangar færslur yfir á nýjan nafnaþjón. Við það geta dottið út auðkenningar og/eða nafnaþjónafærslur sem halda uppi og vísa á mikilvægar þjónustur. Þess vegna mælum við með því að fara varlega í að færa lén yfir á nýja nafnaþjóna vegna einfaldra breytinga eins og t.d. flutnings á vefsíðu til nýs hýsingaraðila.
Þegar skipt er um hýsingaraðila eða póstþjón ráðleggjum við að forðast að skipta um tæknilegan tengilið hjá ISNIC eins og tíðkast því miður oft. Í staðinn er betra að leita fyrst til þess aðila sem hefur umsjón með nafnaþjónafærslum á léninu. Ef ekki er vitað hver það er, er gott að finna sér þjónustuaðila sem getur gefið öðrum aðgang eftir þörfum eða breytt færslum á einfaldan máta. Þjónustufyrirtæki eins og Tölvuaðstoð geta t.d. verið með nafnaþjón í sinni umsjá og gefið vefsíðufyrirtækinu aðgang svo að það geti gert viðeigandi breytingar. Gott er að velja þjónustufyrirtæki sem er með kerfi sem býður upp á að bæta við nafnaþjónafærslum í gegnum sitt viðmót án þess að deila aðalnotandanum.
Meginmálið er sem sagt að forðast að láta nafnaþjóninn flakka á milli fyrirtækja nema farið sé í betra nafnaþjónakerfi sem býður upp á hraðari viðbragðstíma eða meiri vernd fyrir lénið.
Nafnaþjónaöryggi er mikilvægt
Eins og með alla tækni er ekkert kerfi 100% öruggt og nafnaþjónar eru viðkvæmir fyrir ýmsum öryggisógnum. Tölvuþrjótar geta sem dæmi skopstælt nafnaþjóni með því að líkja eftir honum og sent falsaðar færslur til baka. Þetta þýðir að þegar tölvan sendir nafnaþjóni uppflettingarbeiðni getur verið að henni sé vísað á skaðlega vefsíðu sem lítur út eins og hin raunverulega. Þetta er gert í þeim tilgangi að stela upplýsingum. Mikilvægt er að fyrirtæki innleiði viðeigandi nafnaþjónaöryggisráðstafanir til að verjast árásum og vernda viðkvæmar upplýsingar. Að vera meðvitaður um hugsanlega áhættu og vita hvernig á að vernda sig er lykillinn að því að nota internetið á öruggan hátt.
Höfundur er framkvæmdastjóri Tölvuaðstoðar.