Umræðan um sorphirðu og flokkun hefur sjaldan verið eins mikil.
Umræðan um sorphirðu og flokkun hefur sjaldan verið eins mikil. — Ljósmynd/Hallmar.fr@gmail.com
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við erum að sigla inn í 40 ára afmælisár Terra og ætlum við svo sannarlega að fagna þessum tímamótum enda mjög áhugaverð saga þegar litið er til allra breytinganna sem hafa orðið undanfarna áratugi í þessum geira,“ segir Gróa Björg…

Við erum að sigla inn í 40 ára afmælisár Terra og ætlum við svo sannarlega að fagna þessum tímamótum enda mjög áhugaverð saga þegar litið er til allra breytinganna sem hafa orðið undanfarna áratugi í þessum geira,“ segir Gróa Björg Baldvinsdóttir, framkvæmdastjóri menningar og sjálfbærni hjá Terra. Terra hefur verið leiðandi í umhverfisþjónustu með það hlutverk að safna úrgangi, flokka og koma honum í réttan farveg, ýmist hérlendis eða erlendis. „Ég hrærist vel í umhverfi þar sem ég fæ að læra, þróast og vinna með liðsheild og fæ ég heldur betur að gera það hjá Terra. Svo er bara svo margt skemmtilegt, fjölbreytt og gott fólk hjá Terra og það gerir dagana þar heldur betur skemmtilega,“ segir hún.

Gróa var ráðin til starfa hjá Terra árið 2022 og tók þá við nýju sviði menningar og sjálfbærni. Hún telur sig vera heppna að hafa fengið það hlutverk að byggja upp svið menningar og sjálfbærni hjá fyrirtæki eins og Terra sem sinnir víðtækri umhverfisþjónustu. Áður hafði hún starfað sem framkvæmdastjóri stjórnarhátta og gæðamála hjá Skeljungi og þar áður sem lögmaður hjá Landslögum. „Við vinnum með fyrirtækjum,
opinberum aðilum og einstaklingum í flokkun og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma efnum sem til falla í viðeigandi farveg og sem mestu aftur í hringrásarhagkerfið. Gaman að segja frá því að orðið Terra þýðir „jörð“ á latínu og vísar það til kjarnastarfsemi okkar og eins af gildunum okkar sem er umhverfisvernd. Heimilið okkar er jörðin og við þurfum að ganga vel um hana,“ bætir Gróa við. „Ég er alin upp úti á landi og fæ mjög mikið út úr því að brasa eitthvað
utandyra, hvort sem það er að ganga á fjöll, hjóla, hestaferðir eða annað. Þykir mér því afskaplega vænt um náttúruna okkar.“

Fjölbreyttur rekstur og snertifletir víða

Gróa segir Terra vera með snertifleti víðs vegar í samfélaginu þar sem tekið er á móti miklu magni af alls konar efnum, allt frá hefðbundnum heimilisúrgangi til byggingarúrgangs og sóttmengaðs úrgangs. „Við erum eina sérhæfða fyrirtækið á landinu í móttöku spilliefna og komum þeim í viðeigandi farveg. Við störfum eftir gæða- og umhverfisstöðlum enda mikilvægt að ferlar séu úthugsaðir og umhverfið fái að njóta vafans þegar finna þarf réttan farveg fyrir alla þessa efnisflokka,“ segir Gróa og bætir við að það þurfi að huga að mörgu til þess að allir efnisflokkar fari í réttan farveg enda mismunandi kröfur gerðar um meðhöndlun efnisflokka.

„Til að mynda eru sum spilliefni flutt erlendis með skipum til vinnslu en þar þarf frágangur, merkingar og hin ýmsu starfsleyfi að vera til staðar, svo eitthvað sé nefnt. Það er því ýmislegt sem gerist á bak við tjöldin eftir að við setjum úrganginn okkar ofan í tunnuna heima eða förum með spilliefni á móttökustaði.“

Spennandi geiri og mikil þróun

Gróa segir mikinn vöxt og breytingar hafa átt sér stað í úrgangsmálum síðustu árin og hvað þá frá árinu 1984 þegar Terra var stofnað. „Í upphafi var Terra með einn bíl og einn starfsmann en nú 40 árum síðar erum við með um 240 bíla og tæki og hjá fyrirtækinu starfa um 260 manns á starfsstöðvum víðs vegar um landið. Stærsti hlutinn af okkar fólki starfar við sorphirðu, flokkun og sér til þess að koma úrganginum svo í réttan farveg. Við erum með höfuðstöðvarnar í Hafnarfirði og svo með starfsstöðvar á Akureyri, Akranesi, í Ólafsvík, á Blönduósi, Skagaströnd og Reyðarfirði,“ segir Gróa.
„Við hjá Terra störfum í umhverfi sem er sífellt að breytast með tilheyrandi nýjum áskorunum. Við sem samfélag erum að verða enn meðvitaðri um áhrif þess að flokka og endurvinna. Það er ekki svo langt síðan við vorum ekkert sérstaklega að velta flokkun fyrir okkur, settum allt í eina tunnu sem fór í einn haug. Við tölum ekki lengur um rusl enda með aukinni flokkun koma hreinni straumar af efnum inn til okkar sem gerir það að verkum að það er hægt að endurnýta efnin og þar með eru þau orðin að verðmætum. Því hreinni efni sem við fáum inn til okkar því meiri líkur á að hægt sé að koma efnunum áfram í hringrásarkerfið.“

Gróa talar um að starfsfólk fyrirtækisins finni fyrir miklum breytingum við það að innleiða nýju hringrásarlögin svokölluðu sem tóku gildi í ársbyrjun 2023. „Sú breyting hafði þau áhrif að við erum til dæmis farin að safna og flokka matarleifar sér en áður fór allt slíkt saman við almennt heimilissorp. Af þessu leiðir að mun meira magn verður að moltujarðgerðarefni og framleitt er til dæmis metan til orkunýtingar,“ segir Gróa. „Magnað er að fá að sjá þessar breytingar á nokkrum mánuðum og hvaða áhrif hver og einn hefur þegar við söfnum þessu öllu saman. Margt smátt gerir eitt stórt og við verðum að vinna þetta saman.“

Stuðlað að sjálfbærni

Framtíðarsýn Terra – Stuðlum að sjálfbærni – var mótuð síðla árs 2022 og hafa orðið töluverðar skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu til að styðja við nýju stefnuna. „Í ársbyrjun 2023 byrjuðum við að innleiða stefnuna og samhliða því hófst vinna við að innleiða sjálfbærni í kjarnarekstur félagsins enda mikilvægt að innleiðing sjálfbærni sé samofin kjarnarekstri félagsins og framtíðarsýn þess, ætli það sér að þrífast og mæta kröfum nútíðar og þörfum framtíðar. Það má því segja að allt sé á fleygiferð hjá okkur í tiltekt og að skapa nýja vegferð hjá Terra, mjög spennandi tímar,“ segir hún. „Það er mikið af tækifærum sem skapast þegar fyrirtæki fara í gegnum stefnumótun og innleiðingu á sjálfbærni, ákveðin sjálfsskoðun og tiltekt. Við fórum í gegnum svokallaða mikilvægisgreiningu í tengslum við innleiðingu á sjálfbærni og hvet ég önnur fyrirtækið eindregið að gera það. Felst í raun í því að greina hvað við ættum að leggja áherslu á í okkar rekstri þegar kemur að sjálfbærni.“

Þegar kemur að sjálfbærni er að mörgu að hyggja, eitt af því eru úrgangsmálin, sem óneitanlega snerta okkur öll með einum eða öðrum hætti að sögn Gróu, því það fellur jú alltaf eitthvað til af úrgangi eða sorpi. „Með því að styðja og einfalda úrgangsflokkun okkar viðskiptavina ætlum við að styðja við þá í sjálfbærnisvegferð þeirra og taka þátt í að einfalda þeim þessa sneið af kökunni sem við köllum sjálfbærni,“ segir hún. „Það gerum við með því að hjálpa þeim að flokka betur m.a. með því að leiðbeina þeim, veita þeim rauntímaupplýsingar um stöðu sinna úrgangsmála, sem við gerum í gegnum Mínar síður og halda viðskiptavinum okkar upplýstum.“

Gagnsæi og rauntímaupplýsingar

Umræðan um sorphirðu og flokkun hefur sjaldan verið eins mikil, bæði vegna aukningar í flokkun en einnig hefur verið umræða um óánægju fólks sem virðist að meginstefnu til vera tvíþætt. Annars vegar virðist sorphirða í einhverjum tilvikum ekki vera í takt við þarfir fólks, til dæmis tunnur eða gámar fyllast og sorpið er ekki sótt í tæka tíð að mati fólks. Hins vegar veltir fólk því fyrir sér hvort það geti treyst því að sorpið fari í réttan farveg og geti treyst endurvinnslufyrirtækjum. „Við erum á mikilli stafrænni vegferð sem felst í því að opna bækurnar okkar ef svo má segja um tímasetningu losana, efnisstraumana og að veita viðskiptavinum okkar rauntímaupplýsingar um úrgangsmál þeirra,“ fullyrðir Gróa.

„Það skiptir okkur miklu máli að viðskiptavinir okkar treysti því að við komum úrgangi og efnum í réttan farveg svo hann skili sér aftur inn í hringrásarhagkerfið. Rétt flokkun skiptir afar miklu máli og að við fáum hreinni strauma inn til okkar svo við getum komið ákveðnum efnum í frekari endurvinnslu og öðrum í endurnýtingu. Við erum á vegferð að auka gagnsæi og traust og eitt af því sem við höfum gert á þeirri vegferð er að birtatil þess höfum við gott yfirlit á vefsíðu okkar, þar sem sjá má hvað verður um úrganginn eftir efnisflokkum og landshlutumbrotið niður á hvern og einn úrgangsflokk á landshluta. Þar sést meðal annars hver er úrgangsmeðhöndlunin og hver verður afurðin. Ég hvet alla til að kynna sér það og skoða.“