Ég nota markmiðasetningu mjög mikið, bæði í leik og starfi. Ég set mér oft háleit markmið í byrjun nýs árs sem krefjast aga og vinnu en líka önnur raunsæ skammtímamarkmið sem eru auðveldari í framkvæmd eins og að halda matarboð einu sinni í mánuði,“ segir Berglind Björg Harðardóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Símanum en þar hefur hún starfað síðan 2011.
Berglind er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og hefur lokið PMD-stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík. Áður starfaði Berglind hjá Verði, Sjóvá og Sameinaða líftryggingafélaginu.
„Það sem mér finnst skipta máli og gleymist oft í markmiðasetningu er að endurskoða markmiðin reglulega og aðlaga þau jafnóðum, stundum þarf ég að brjóta þau betur niður, breyta um aðferðir eða einfaldlega breyta þeim í takt við breyttar aðstæður. Það nást nefnilega ekki öll markmið og þá finnst mér gott að vera með varaplan í stað þess að gefast upp,“ segir Berglind.
Út fyrir þægindarammann
Að eigin sögn kveðst Berglind vera mjög árangursdrifin og þrífst hún á því að ná settum markmiðum, hvort sem það er í leik eða starfi. „Ég er dugleg að setja mér markmið en það er mikilvægt að markmiðin tali til mín og skipti mig einhverju máli. Þegar markmiðin eru skýr og hafa skýran tilgang þá er mér eðlislægt að leggja meira á mig og keppnismanneskjan birtist, mér leiðist mjög að tapa,“ segir hún hress.
„Ég er mikil félagsvera og sæki mikla orku í samveru og samstarfi við annað fólk. Ég nýt þess þegar ég næ að hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum mig og sé samstarfsfólkið mitt vaxa. Mér finnst líka mikilvægt að ögra mér við og við, fara aðeins út fyrir þægindarammann og prófa nýja hluti. Þannig vex maður, ekki bara sem manneskja heldur nær einnig bætingum í leik og starfi í stað þess að vera föst í sama farinu.“
Spurð út í lífið utan vinnu segist Berglind taktföst á því sem hefur skipt hana mestu máli, nánar til tekið þegar kemur að því að skapa ógleymanlegar minningar. Berglind er gift Ásgeiri Ásgeirssyni tónlistarmanni og saman eiga þau tvo uppkomna drengi og einn hund.
„Við höfum lagt áherslu á að vera dugleg að ferðast saman og þá oftast með strákunum okkar á framandi staði sem hefur skapað ómetanlegar samverustundir fyrir okkur sem fjölskylda,“ segir Berglind. „Við höfum reynt að fara í lengri ferðir önnur hver jól og heimsótt staði eins og Brasilíu, Perú, Indland og Kenía, sem allt hafa ferið ógleymanlegar upplifanir sem hafa víkkað sjóndeildarhring okkar allra og vonandi víðsýni.“
Gleðin ráði ríkjum
Hreyfing og útivera er einnig stór hluti af lífi Berglindar og skapar það mikilvægt og þarft jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Hún hefur stundað langhlaup í mörg ár, hlaupið fjölmörg maraþon, keppt í þríþraut og stundað gönguskíði.
„Ég hleð batteríin og endurnýja orkuna með góðri hreyfingu. Hugsunin verður einnig oft hvað skýrust í hreyfingunni og þá fæ ég oft mínar bestu hugmyndir,“ segir Berglind.
„Mikilvægast fyrir mig í þessu öllu er að vegferðin sé skemmtileg og gleðin ráði ríkjum og að öllum smærri sigrum sé fagnað á leiðinni því ef maður maður fagnar nógu mörgum smásigrum er líklegra að maður fagni stóra sigrinum á endanum.“
Hörð samkeppni í geiranum
Hjá Símanum er mikið um að vera alla daga samkvæmt Berglindi, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, og segist hún vera afskaplega heppin með að vera umkringd ólíku, öflugu og frjóu fólki.
Grunngildi Símans er eitt orð: Tengjumst. „Við tengjum fólk við umheiminn og við tengjum fólk saman með fjarskiptum. Sjónvarp Símans tengir svo fjölskyldur og vinahópa yfir áhorfi og við viljum tengjast viðskiptavinum okkar. Síminn verður 118 ára á árinu og hér er ótrúlega mikil og verðmæt þekking en við þurfum alltaf að vera á tánum enda mikil og hörð samkeppni í okkar geira,“ segir Berglind.
„Við hjá Símanum erum heppin að mikill meirihluti þjóðarinnar treystir okkur, traust er auðvitað áunnið og því mikilvægt að bregðast aldrei því trausti og fara sem oftast fram úr væntingum viðskiptavina okkar. Það er stórt verkefni sem aldrei endar.“
Stutt við ungar konur í tæknigreinum
Síminn hefur veitt fimm ungum konum í tæknigreinum við Háskólann í Reykjavík námsstyrk úr Samfélagssjóði Símans. Styrkurinn er nýttur til að greiða skólagjöld þeirra við HR skólaárið 2023-2024 ásamt því að möguleiki er á áframhaldandi styrk út námið. Námsstyrkurinn er hluti af fimm ára samstarfsverkefni Símans og HR að fjölga ungum konum í tæknigreinum.
Konurnar fimm eru nýnemar í HR og eiga það allar sameiginlegt að hafa sýnt framúrskarandi námsárangur í framhaldsskóla. Síminn vill þannig hvetja þær til áframhaldandi góðra verka og fjölga konum sem útskrifast úr tæknigreinum. Þetta er annað árið í röð sem Síminn styður við ungar konur í tæknigreinum í samstarfi við HR og eru fyrirtækið
og háskólinn gríðarlega stolt af samstarfinu.
Berglind talar um að Síminn hafi farið í gegnum mikla stefnumótun innanhúss árið 2023 sem allt starfsfólkið tók þátt í. „Við settum aukinn fókus á sjálfsafgreiðslu og kynntum nýjungar í vöruframboði okkar eftir að hafa átt samtal
við viðskiptavini okkar,“ segir hún.
„Þægilegi og Einfaldi pakkinn eru dæmi um slíkar vörur ásamt því að mikil vinna fór í 5G-væðingu víða um landið ásamt uppfærslu á núverandi 4G-kerfi sem skilaði okkur
1. sæti í óháðri gæðakönnun Fjarskiptastofu um stöðu farsímakerfanna á Íslandi, sem við erum afskaplega stolt af. Við eigum að geta hlaupið hraðar en nokkru sinni fyrr
og einbeitt okkur enn meira að þjónustu, vöruþróun og tekið stærri stökk í stafrænni vegferð okkar.“
Má þess geta að Sjónvarp Símans frumsýndi fjórar leiknar íslenskar þáttaraðir árið 2023 sem allar vöktu mikla hylli áhorfenda, má þar til dæmis nefna IceGuys, Venjulegt fólk og Heima er best. Í heildina voru sex þáttaraðir frumsýndar á árinu á landinu öllu og Síminn því drifkraftur í framleiðslu leikins innlends efnis á síðasta ári.
Í ár mun Síminn frumsýna sex nýjar leiknar íslenskar þáttaraðir sem er nærri helmingur af því innlenda leikna efni sem frumsýnt verður í íslensku sjónvarpi í ár en von er á alls ellefu innlendum þáttaröðum á þessu ári. Nú þegar er búið að frumsýna Kennarastofuna með Sveppa og Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur í aðalhlutverkum og fram undan er fjölbreytt íslenskt efni fyrir alla aldurshópa.