Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er með minnisblað frá flokksráði sem mótar allt starf þingmanna og ráðherra á komandi mánuðum.

Óli Björn Kárason

Næstu alþingiskosningar verða í síðasta lagi í september á komandi ári. Ríkisstjórnin hefur í mesta lagi tuttugu mánuði til „að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu og góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að nauðsynlegu samspili þessara þátta“, eins og segir í stjórnarsáttmála. Um leið þarf að leysa risavaxið verkefni vegna Grindavíkur, á forsendum íbúanna sjálfra. Fyrstu skrefin sem tekin hafa verið undir styrkri forystu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra gefa ástæðu til að ætla að haldið verði á málum af festu. Öllum má hins vegar vera ljóst, ekki síst þeim sem sitja í ríkisstjórn, að áfallið vegna Grindavíkur er þungt og hefur áhrif á getu ríkisins til að hrinda í framkvæmd ýmsum verkefnum sem hafa verið á teikniborðinu. Endurskoða þarf fjármálaáætlun, leggja til hliðar eða hætta við áform á ýmsum sviðum. Bolmagn ríkissjóðs til að liðka fyrir kjarasamningum er ekki það sama og fyrir hamfarirnar.

En á sama tíma og ríkisstjórnin tekst á við eftirmál jarðskjálfta og eldgosa verður ekki hjá því komist að kljást við önnur viðfangsefni, allt frá orkumálum til hagræðingar í opinberum rekstri.

Fyrir þá sem sitja í ríkisstjórn eða veita henni stuðning er nauðsynlegt að hafa skýra sýn á það sem mestu skiptir. Hafa fastmótaðar hugmyndir um hvert skuli stefna, hafa hæfileikann til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Vera með það á hreinu til hvers er setið í ríkisstjórn og til hvers kjósendur og stuðningsmenn ætlast.

Forskriftin er skýr

Erindi okkar sem skipum þingflokk Sjálfstæðisflokksins er ágætlega skýrt. Forskriftina gefa lands- og flokksráðsfundir. Undir lok ágúst á liðnu ári var haldinn fjölmennur flokksráðsfundur okkar Sjálfstæðismanna. Þar var samþykkt ítarleg stjórnmálaályktun – eins konar minnis- og verkefnablað fyrir þingmenn og ráðherra flokksins. Og það er ætlast til að árangur náist ekki síst í að:

• stórauka græna orkuframleiðslu og byggja undir orkuskipti

• verja verndarkerfi flóttamanna og koma böndum á kostnað

• endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins

• efla löggæslu og baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkaógn

• styrkja embætti ríkissáttasemjara

• stuðla að efnahagslegum stöðugleika og lækkun verðbólgu með aðhaldi í ríkisfjármálum þar sem útgjöld verði ekki aukin

• auka hagræðingu með fækkun stofnana, sölu ríkisfyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu

Verkefnin sem flokksráðsfundurinn fól þingflokki eru fleiri, s.s. á sviði húsnæðismála þar sem nauðsynlegt er að stjórnvöld fari í markvissar aðgerðir til að auðvelda og efla húsnæðisuppbyggingu til að vinna gegn framboðsskorti. Húsnæðisstuðning ríkisins á að stokka upp svo hann nýtist með markvissari hætti þeim sem helst þurfa. Og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki umboð flokksráðs til að samþykkja að auknar skorður séu settar „við samningsfrelsi leigutaka og leigusala sem getur aukið skort á góðu leiguhúsnæði og hækkað húsaleigu til lengri tíma“.

Áherslan á orkumálin á ekki að koma á óvart enda í genum okkar Sjálfstæðismanna að tryggja nauðsynlega orku fyrir heimili og fyrirtæki. Næg orka er forsenda aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara. „Tafarlaust þarf að stórauka framleiðslu grænnar orku,“ segir í stjórnmálaályktuninni. Bent er á hve mikilvægt er að treysta flutningskerfi raforku, endurskoða lög um rammaáætlun og einfalda regluverk og stjórnsýslu tengda grænni orkuvinnslu.

Framgangur stefnumála

Í ályktun flokksráðs er lögð áhersla á að innflytjendur auðgi íslenska menningu og efnahag. Auðvelda verði innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi og tungumáli. Verndarkerfi flóttamanna sé hins vegar ógnað í kjölfar mikillar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd sem hefur aukið verulega álag á sveitarfélög og samfélagslega innviði. Styrkja verði undirstöður verndarkerfisins með lagabreytingum að fyrirmynd annarra Norðurlanda, stytta og einfalda alla ferla: „Þeim sem ekki fá alþjóðlega vernd skal gert að yfirgefa landið eins fljótt og auðið er eftir að niðurstaða í þeirra málum liggur fyrir lögum samkvæmt. Þeir sem ekki eiga samvinnu við yfirvöld skulu sæta vistun í búsetuúrræði með takmörkunum þar til hægt er að brottvísa af landinu.“

Þetta verður ekki skýrara og sama má segja um löggæslu. Fjölga á lögreglumönnum og vinna með markvissum hætti gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkaógn. Auka á heimildir lögreglunnar til að bregðast við breyttum veruleika sem ógnar þjóðaröryggi og tryggja öryggi löggæslumanna. Samhliða sé eftirlit með störfum lögreglunnar eflt og réttindi einstaklinga tryggð.

Að gefnu tilefni er nauðsynlegt að birta orðrétt það sem flokksráðsfundurinn samþykkti um ríkisfjármál og skatta:

„Skattkerfisbreytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um á síðustu tíu árum hafa fyrst og fremst miðað að því að einfalda skattkerfið, létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun. Halda verður áfram á sömu braut og huga sérstaklega að barnafjölskyldum, m.a. með breytingum á barnabótakerfinu og hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi. Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn frekari álögum á fólk og fyrirtæki.“

Grunnur að árangri ríkisstjórnarinnar það sem eftir lifir kjörtímabilsins verður lagður á yfirstandandi vorþingi. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er með minnisblað frá flokksráði sem mótar allt starf þingmanna og ráðherra á komandi mánuðum. Framgangur helstu stefnumála er forsenda fyrir þátttöku í ríkisstjórn.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason