Ég er svo heppin að eiga stórt net af kröftugum konum í kringum mig sem hafa stutt mig á einn eða annan hátt og verið til staðar fyrir mig á mismunandi tímum, í einkalífi og starfi. Ég er þakklát fyrir hverja einustu þeirra.
Ég dáist að konum sem elta drauma sína, láta þá rætast og hafa þann hæfileika að missa ekki sjónar á markmiðunum, alveg sama hvað. Konur sem hrósa öðrum konum, styðja þær og hvetja áfram til góðra verka, það eru mínar fyrirmyndir.
Mamma mín er sú kona sem ég vil þakka hér, fyrir að sýna mér á hverjum degi hversu mikilvægt það er að rækta vináttu, eiga áhugamál og stunda daglega hreyfingu. Ef hún er ekki að leika sér á golfvellinum þá eru það göngutúrar, ferðalög eða aðrar upplifanir með vinkonum eða eiginmanni – pant hafa heilsu í það á áttræðis- og níræðisaldri.
Dóra Eyland, þjónustustjóri í Golfklúbbi Reykjavíkur.