Íslandsbankahúsið Gatið blasir við vegfarendum á Sæbrautinni. Í sumar á húsið að vera horfið af yfirborði jarðar.
Íslandsbankahúsið Gatið blasir við vegfarendum á Sæbrautinni. Í sumar á húsið að vera horfið af yfirborði jarðar. — Morgunblaðið/sisi
Niðurrif Íslandsbankahússins á Kirkjusandi er í fullum gangi en það hófst í desember síðastliðnum. Byrjað var að rífa innan úr húsinu og nú hefur fyrsti hluti útveggja verið rofinn, eins og meðfylgjandi mynd sýnir

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Niðurrif Íslandsbankahússins á Kirkjusandi er í fullum gangi en það hófst í desember síðastliðnum.

Byrjað var að rífa innan úr húsinu og nú hefur fyrsti hluti útveggja verið rofinn, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Þessi hluti er á norðurhlið hússins, í námunda við innganginn.

Eigandi hússins, Íslandssjóðir, samdi við félagið A.B.L. tak ehf. um niðurrifið. Þetta fyrirtæki hefur komið að mörgum sams konar verkefnum á undanförnum árum. Vonast er til að verkinu verði lokið næsta sumar.

Íslandsbankabyggingin var upphaflega frystihús sem reist var á árunum 1955-1962 af hlutafélögunum Júpíter og Mars. Frystihúsið var síðar innréttað sem skrifstofuhús fyrir aðalstöðvar Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS). Síðast voru þarna aðalstöðvar Íslandsbanka til ársins 2017.

Húsið var dæmt ónýtt vegna myglu og Íslandsbanki flutti í Kópavog. Í mörg ár hefur staðið til að rífa húsið en það tafðist af ýmsum ástæðum. Íbúar í nálægum húsum höfðu þrýst á niðurrif enda töldu þeir að hætta gæti stafað af því að óviðkomandi kæmust inn í mannlaust húsið.

Húsið Kirkjusandur 2 er alls 6.916 fermetrar. Áform eru um byggingu fjölbýlishúsa á lóðinni með allt að 225 íbúðum. Leyfilegt byggingarmagn verður 51.000 fermetrar.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson