Sviðsljós
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Það komu fram þarna ákveðnar ábendingar og vangaveltur um þessar sameiningar og ég skil alveg að það skapist ákveðinn ótti við breytingar. Það er nú venjan við breytingar að fólk hræðist þær frekar en að hvetja til þeirra í sínu nærumhverfi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, spurð út í þær áhyggjur sem fulltrúar þriggja deilda Háskólans á Akureyri lýstu í umsögnum til rektorsskrifstofu skólans um fyrirhugaða sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst.
Tekur ráðherrann fram að um sé að ræða sameiningu sem sé á forsendum skólanna sjálfra sem hafi unnið fýsileikagreiningu og sjálfir átt frumkvæðið að því að með sameiningu geti skólarnir eflt háskólastarf hér á landi.
„Það er auðvitað algjörlega skýrt að samhliða þessum samningaviðræðum er unnið að því að efla námið og festa það í sessi, þ.e.a.s. að það eru möguleikar á auknum uppbyggingaráformum á Akureyri eins og með uppbyggingu færni- og hermiseturs til að fjölga þar í heilbrigðisvísindum.“
Vilja hvetja fleiri til náms
Að sögn Áslaugar Örnu mun hin hefðbundna starfsemi skólans vera á Akureyri en það séu samlegðaráhrif þessara tveggja skóla, með fleiri nemendum, kennurum og námsbrautum, sem muni leiða af sér uppbyggingu á svæðinu. „Þetta snýst svolítið í kringum þau tækifæri sem felast einmitt í staðnámi á landsbyggðinni, á Akureyri, sem og sveigjanlegra námi og fjarnámi þá fyrir allt landið en höfuðstöðvarnar verða á Akureyri.“
Nefnir ráðherra að einnig hafi komið fram vangaveltur og ótti um skólagjöld. „Það er ekki ætlunin að taka upp skólagjöld í því námi sem hefur ekki borið skólagjöld til þessa en það er alveg eðlilegt að sá ótti komi fram. Við erum með eflingu háskólastyrksins líka að tryggja jöfn tækifæri til náms og erum að reyna að styrkja háskólastarfið á Íslandi svo fleiri fari í nám en við höfum sérstaklega verið að hvetja fleiri drengi til að sækja háskólanám,“ segir hún. Vill hún í því ljósi líka benda á þær deildir sem snerta áskoranir samfélagsins í dag.
„Þar erum við að tala um fjölgun í heilbrigðisvísindum og menntavísindum en líka í raunvísinda- og tæknigreinum. Síðan eiga þessir skólar það sameiginlegt að vera með sveigjanlegra nám og fjarnám en líka stöndugar félagsvísindadeildir og ég held að með samlegð þeirra deilda sé einungis tækifæri til uppbyggingar og til að gera betur.“
Vinnan heldur áfram
En skyldi vinnunni þá verða framhaldið þrátt fyrir efasemdirnar í umsögnunum?
„Já, vinnunni verður framhaldið en vinna við sameiningu háskóla tekur eðlilega tíma og þarf að vanda. Sumum ábendingum þurfa skólarnir sjálfir að svara í vinnunni fram undan,“ segir hún og bætir við aðspurð að hún hafi ekki heyrt mikla gagnrýni frá Bifröst af þessu tagi.
„Þau hafa lagt mikla áherslu á að með sameiningu skólanna sé verið að búa til nýjan og öflugan rannsóknarsjóð, sem ekki hefur verið til staðar áður, og vegna þeirrar áherslu ákvað ég að forgangsraða 250 milljónum í stofnfé fyrir slíkan rannsóknarsjóð með von um að hann geti stækkað, bæði með aðkomu atvinnulífsins en líka með fjármunum sem gætu komið af húsnæðinu á Bifröst.“
Innt að lokum eftir því hvort Háskólinn í Reykjavík verði sameinaður öðrum skóla segir Áslaug Arna að hún hafi fyrst og fremst lagt mikla áherslu á aukið samstarf háskólanna.
„Þannig getum við eflt og aukið starfið ásamt því að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar. Háskólinn í Reykjavík er með yfir helming af þeim sem ljúka háskólaprófi í tæknigreinum en hann hefur sýnt mikið frumkvæði að samstarfi við aðra skóla, meðal annars við Háskólann á Akureyri, þar sem þau hafa hjálpað til að veita aðgengi að tölvunarfræði- og tækninámi á landsbyggðinni. Að slíku samstarfi er aldeilis mikill sómi fyrir Háskólann í Reykjavík.“
Nýtt rannsóknahús HR
Mun efla tæknigreinar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir veitti í gær Háskólanum í Reykjavík 200 milljóna króna stuðning til fjármögnunar undirbúnings að uppbyggingu á allt að 6.000 fermetra rannsókna- og nýsköpunarhúsi við skólann. Er húsið lykillinn að frekari sókn Háskólans í Reykjavík í rannsóknum og kennslu í tæknigreinum ásamt því að efla samstarf skólans við atvinnulífið.
Þá er gert ráð fyrir að húsið verði samnýtt með sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum og stofnunum í tækniþróun og rannsóknum og þannig gert ráð fyrir að áhersla verði lögð á aðstöðu fyrir öflugar byggingarannsóknir.
„Við erum að styðja við rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann í Reykjavík til að stuðla að áframhaldandi sókn Háskólans í Reykjavík í rannsóknum og kennslu í þessum tæknigreinum sem við þurfum að fjölga verulega í,“ segir Áslaug Arna í samtali við Morgunblaðið.