Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarin ár unnið markvisst að því í samvinnu við Alþingi að hætta prentun fjárlagarita, fjárlagafrumvarpsins, fjárlaga og fjármálaáætlunar. Þess í stað verði enn meiri áhersla lögð á stafræna útgáfu á vef þingsins og Stjórnarráðsins. Er þetta gert í þágu umhverfissjónarmiða.
„Ákveðið hefur verið að framvegis verði ekki prentuð fleiri en 80 eintök af útgefnum fjárlagaafurðum, sem er sá fjöldi sem Alþingi hefur fengið. Óski þingið eftir að hætta að fá afurðirnar prentaðar verður allri prentun hætt,“ segir í svari sem fékkst í ráðuneytinu í gær.
Samhliða þessu verður unnið að því að betrumbæta framsetningu fjárlagatengds efnis á vefnum og gera það aðgengilegra en það er í dag.
„Undanfarin ár hefur prentuðum eintökum útgefinna fjárlagaafurða fækkað verulega. Sem dæmi var fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 prentuð í 400 eintökum, en áætlunin fyrir 2024-2028 í 250 eintökum. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 var prentað í 120 eintökum. Kostnaður vegna prentunar fjárlagaafurða á árunum 2022-2024 (fjárlagafrumvarp, fjárlög og fjármálaætlun) nemur um 17 milljónum króna,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Bent er á að eftirspurn eftir prentuðum eintökum hafi dregist hratt saman en öll fjárlagarit hafi verið aðgengileg á pdf-formi bæði á vef Stjórnarráðsins og Alþingis síðastliðin ár. omfr@mbl.is