Svíar eru nú skrefi nær því að fá inngöngu í Atlantshafsbandalagið eftir að tyrkneska þingið samþykkti í gærkvöldi aðildarumsókn þeirra. Er nú stærsta hindrunin að stækkun varnarbandalagsins talin vera að baki en eingöngu Ungverjar eiga eftir að veita sitt samþykki fyrir inngöngunni.
Svíar sóttu um aðild að Atlantshafsbandalaginu á sama tíma og Finnland í maí 2022. Ári seinna fengu Finnar inngöngu en Svíar hafa átt erfiðara með að fá samþykki frá Ungverjum og Tyrkjum. Aðild að bandalaginu krefst samþykkis allra aðildarríkja. Utanríkismálanefnd tyrkneska þingsins samþykkti aðildarumsókn Svíþjóðar í lok desember og var talið líklegt að meirihluti þingsins myndi samþykkja umsóknina, sem gerðist svo í gær.
Tvö síðustu vígin
Svíar hafa þurft að uppfylla ýmis skilyrði Tyrkja, sem meðal annars neyddu norrænu löndin tvö til að skipta upp umsókn sinni. Einnig bendir margt til þess að tyrknesk stjórnvöld hafi notað aðildarumsókn Svía sem skiptimynt í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn um kaup á herflugvélum. Þar sem Tyrkir hafa nú samþykkt umsóknina verða Ungverjar síðasta aðildarþjóðin sem á eftir að samþykkja aðild Svía að bandalaginu.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, bauð í gær Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, til Búdapest til þess að ræða aðild Svíþjóðar. Tilgangur fundarins er einnig að ræða hvernig styrkja megi samband ríkjanna tveggja og auka traust þar á milli, segir talsmaður Orbans á samfélagsmiðlinum X.
Tobias Billstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, brást við boðinu í gær. „Ég sé enga ástæðu til að semja á þessu stigi málsins,“ sagði hann við blaðamenn og benti á að ólíkt Tyrkjum hefðu Ungverjar ekki sett fram nein skilyrði þegar Svíum var boðin innganga í NATO 2022.
Ósáttir við afstöðu Svía
Ungverjar hafa ítrekað haldið fram að þeir styðji aðild Svía. Orban lofaði að Ungverjaland yrði ekki síðasta aðildarríkið til að samþykkja umsókn þeirra, en þó hafa Ungverjar stöðugt dregið að greiða atkvæði á þingi um aðild Svíþjóðar.
Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa fordæmt það sem þau kalla „opinskáa fjandsamlega afstöðu Svía til Ungverjalands,“ eftir að Svíar gagnrýndu stöðu lýðræðis í Ungverjalandi. Næsti fyrirhugaði þingfundur í Ungverjalandi er 26. febrúar, nema neyðarfundur á ungverska þinginu verði boðaður fyrr til að ræða málið. helena@mbl.is