Idolið Glæsilegur hópur flottra söngvara.
Idolið Glæsilegur hópur flottra söngvara.
Allt um kring heyrir maður fólk tala um hversu erfitt sé að búa á Íslandi í janúar, í öllu þessu myrkri og nístandi kuldanum

Anna Rún Frímannsdóttir

Allt um kring heyrir maður fólk tala um hversu erfitt sé að búa á Íslandi í janúar, í öllu þessu myrkri og nístandi kuldanum. Mikið svakalega er ég ósammála þessari staðhæfingu sem angar af neikvæðni í garð okkar fallega og síbreytilega lands. Hvernig er hægt að tala svona um janúar, þennan fyrsta mánuð ársins sem markar bæði nýtt upphaf og alls kyns skemmtileg markmið? Hann sem er þessa dagana að færa okkur bæði EM-handboltaveislu dag eftir dag sem og Idol-stjörnuleitina öll föstudagskvöld en ég veit fátt skemmtilegra en samverustundir með fjölskyldunni yfir þessu frábæra sjónvarpsefni.

Ég dáist að þessum ungu krökkum sem þora að stíga á svið fyrir framan alþjóð í beinni útsendingu og láta dæma sig fyrir framkomu, stíl og söng. Ýmist hafa þau verið, að mati dómaranna, of feimin og inni í skelinni eða verið sagt að draga aðeins úr sviðsframkomunni. Allt er þetta eflaust gott og gilt því dómararnir eru auðvitað sjálfir hoknir af reynslu en maður lifandi hvað hlýtur samt að vera erfitt að þurfa hálfpartinn að breyta um persónuleika til að passa inn í þessa fyrirframákveðnu ímynd af Idol-stjörnunni. Engu að síður getur maður ekki annað en hrifist með og setið límdur við skjáinn. Hvert þeirra skyldi verða sent heim næst?

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir